24.02.1949
Neðri deild: 70. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (3285)

65. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Það er aðeins út af því, sem hv. þm. A-Sk. sagði um kostnað við landshöfn í Keflavík. Um þetta hafði ég engin önnur orð en þau, hvað gert hefði verið 1948. Kostnaðurinn varð við það, eftir því sem ég vissi bezt, á aðra millj. kr. Hv. þm. hefur ekki hnekkt því, en kom með upplestur úr skýrslu Landsbankans 1947 um það, sem í þetta mannvirki væri búið að eyða, en sú skýrsla sé traustheimild. Ég skal sízt vefengja þá skýrslu, en aðeins taka fram, að það verður að lesa með aðgætni skýrslu Landsbankans,um þetta mál, því að langmestur hlutinn af þessari upphæð hefur gengið til kaupa á mannvirkjum, sem áður var búið að gera og hreppsfélögin á staðnum áttu. Þegar landshöfnin var ákveðin, þá yfirtók ríkissjóður þau mannvirki, sem þar voru, fyrir kostnaðarverð að frádregnum styrknum, sem ríkissjóður hafði veitt. Enn fremur varð að kaupa mikið af löndum af Keflavíkurhreppi og Njarðvíkurhreppi til þess að fá athafnasvæði kringum höfnina, og langmestur hluti þess fjár, sem varið hefur verið til framkvæmdanna, hefur verið notaður í þessu skyni, vegna þess að kaupin voru afgr. með skuldbindingum ríkissjóðs, annaðhvort að ríkissjóður tók að sér skuldir, sem hvíldu á mannvirkjunum, eða þau lönd, sem keypt voru, voru greidd með ríkisskuldabréfum. Þetta var auðvelt, því að eigendurnir á staðnum sættu sig við að fá bréf í staðinn. En framkvæmdir hafa orðið miklu minni en ætlazt var til, vegna þess að það hefur aldrei verið veitt neitt fé af Alþ. og lánsfé hefur ekki fengizt. Þetta gæti endurtekið sig í Hornafirði, og við það er ég hræddur. Tölur þær, sem hv. þm. las hér upp, sanna því ekki neitt.