24.02.1949
Neðri deild: 70. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (3286)

65. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins mótmæla því, sem kom fram hjá hv. þm. A-Sk., að ég hefði tekið til máls af því, að mér hefði runnið til rifja frammistaðan hjá hv. frsm. meiri hl. Því fór fjarri, hans frammistaða var góð í alla staði. Hitt rann mér til rifja, hvernig hann hafði hausavíxl á hlutunum, þar sem hann sagði, að ég væri á móti því, að ríkið legði fram meira fé til hafnarframkvæmda. Það, sem ég benti á, var það, að þróunin hefði verið eðlileg, miðað við þörf landsmanna, að ríkið hefði veitt meira fé en áður til þessara framkvæmda, og ég taldi höfuðnauðsyn að sameina fleiri aðila um þessar framkvæmdir. Það er raunalegt, þegar það hendir jafnskýran þm. og þessi hv. þm. er að hafa svona algerlega endaskipti á hlutunum. Ég vil benda honum á, hvernig þetta landshafnarfyrirkomulag hefur reynzt á þeim eina stað, sem nokkur reynsla hefur fengizt um. Þar er búið að verja nokkuð á 3. millj. kr. til kaupa á löndum kringum hafnarmannvirkin. Land er vitanlega til kringum höfnina, hver sem á það, og sé byggt á þeim grundvelli, sem nú er byggt yfirleitt, þarf ekki að binda neitt fé frá ríkissjóði til slíkra landkaupa. Ætli það hefði ekki verið raunhæfara að verja slíku fé til þess að byggja ný hafnarmannvirki og skapa ný skilyrði fyrir auknum atvinnuháttum á þeim stöðum, þar sem þetta fé hefði verið notað? Með því að lesa úr skýrslu Landsbankans verður því hv. þm. til þess að benda á stóra annmarka í þessu máli fram yfir það, sem er, ef byggt verður á núverandi löggjöf.