09.12.1948
Neðri deild: 29. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (3297)

88. mál, húsaleiga

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið á ferðinni hvað eftir annað í þessari hv. deild, í sameinuðu þingi og í efri deild. Þau frv. og þær till., sem fluttar hafa verið hér áður um breyt. á l. um húsaleigu, hafa verið nokkuð svipaðar. En með þessu frv., sem hér er nú flutt, er farið nokkuð á annan hátt að. Vegna þess kunnugleika, sem hv. þm. hafa af þessu máli utan frá og af umr., sem fram hafa farið hér á Alþingi, þá veldur það því, að ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta málefni ýtarlega að þessu sinni, — það væri nú varla nein goðgá, en það yrði aðeins endurtekning á því, sem áður hefur hér fram komið, og eru þm. kunnugir þeim frásögnum. En ég kemst nú ekki hjá því að fylgja þessu frv., sem hv. 3. þm. Reykv. flytur með mér, úr hlaði með nokkrum orðum.

L. þau, sem nú gilda um húsaleigu, eru samþ. á árinu 1943, en húsaleigulög höfðu áður verið í gildi hér á landi. Hinum fyrri l. var breytt í byrjun stríðsins, og hafa þau nú haldið gildi sínu frá stríðslokum, eða í 3½ ár, þótt þau hafi aðeins verið sett í þeim tilgangi að hafa áhrif á meðan styrjaldarástand væri í landinu. Það er enginn vafi á því, að löggjafarvaldið setti þessi l. sökum þess, að styrjaldarástand var í landinu. Var það gert í fyrsta lagi til þess að fyrirbyggja okur á húsnæði, líkt og verðlagseftirlit er með öðrum hlutum, sem menn kaupa og selja. Þetta var nauðsyn þá sökum þess, að mikið var um aðkomufólk í Reykjavík og útlendinga. Til þess nú að fyrirbyggja það, að þrengt yrði um of að íbúum Reykjavíkur í fyrirsjáanlegri húsnæðiseklu, var nauðsynlegt að setja þessi l, Það má segja með réttu, að húsnæðiseklan var mikil um tíma, því að aðstreymið til Reykjavíkur var mikið. En nú halda menn að innstreymið hafi tekið enda, og má nú ætla, að óþarfi sé að hafa þessi l. í gildi enn um hríð af þeim sökum. Nú, hins vegar er þess að geta, að svo mikið hefur verið byggt í Reykjavík á undanförnum árum, að hreinasta furða er, hversu aðstreymið hefur orðið mikið, að fylla allt það húsnæði, sem bætt hefur verið við. Í þessu sambandi vil ég minna á, að margar reglur, sem löggjafinn hefur sett sökum þess, að styrjöld skapaði þá nauðsyn, hafa nú verið úr gildi numdar. Er og sjálfsagt að afnema slíkar þvingunarráðstafanir. Húsaleigulögin hafa þó gengið mun nær rétti manna en aðrar þvingunarreglur, sem settar hafa verið, því umráðaréttur húseiganda er tekinn af honum gagnvart húsi sínu. Margir húseigendur, sem leigt hafa frá sér, hafa gert það í upphafi af sparnaðarástæðum, en þessi l. hafa gert hlut þeirra mjög tilfinnanlegan. Fyrir menn, sem hafa nær enga aðra tekjulind en þá, sem þeim hlotnast fyrir leigu af hluta húss síns, kemur þetta mjög hart niður, er þessum tekjustofni þeirra er haldið niðri með l. Einnig er fólk fest í íbúðum, sem það hefur setið í. Áður var mönnum það frjálst að segja leigjanda upp húsnæði. Húseigandi getur haft marga ástæðu til þess. Ef leigusala líkaði ekki við leigutaka af einhverjum ástæðum, gat hann sagt honum upp húsnæði með ákveðnum fyrirvara og tekið í íbúð sína einhvern venzlamann eða kunningja, sem hann vildi heldur leigja húsnæði sitt. Auk þess er hér vantalið, hverjar afleiðingar húsaleigulögin hafa gagnvart þeim, sem selja vilja hús sín, en verða að gera það með þeim agnúa, að svo og svo stór hluti hússins sé í leigu. Hefur þetta þær afleiðingar fyrir húseiganda, að eign hans minnkar í gildi og verð hennar lækkar um tugþúsundir fyrir þetta. Húsaleigulögin eru ekki aðeins úr sér gengin, en eru þegar sumpart afnumin af lífinu sjálfu, ef svo mætti til orða taka. Ég hef nú ekki mikinn kunnugleika á húsnæðisástandinu utan Reykjavíkur, og mun ég því ræða þetta mál út frá þeim kringumstæðum, sem ríkja í þessum efnum hér í höfuðborg landsins. Það hefur verið athugað, hversu mikið hefur verið byggt í Reykjavík síðustu árin, og hafa skýrslur verið um þetta gerðar, og er þá miðað við tímann áður en húsaleigulögin voru sett og til þessa tíma og farið eftir manntalinu í bænum, eins og það hefur reynzt vera réttast á hverjum tíma. Raunin hefur orðið sú, að um 1/3 íbúa Reykjavíkur býr í húsnæði í nýjum húsum. Þessi 1/3, þ. e. leigjendurnir í nýju húsunum, eru allir undanþegnir ákvæðum húsaleigulaganna, og leiga þeirra hefur verið ákveðin eftir frjálsum samningum. Sú leiga er yfirleitt geysihá, miðað við þá leigu, sem borguð er í þeim húsum, sem húsaleigulögin ná til. Ef menn skipta um húsnæði í eldri húsum, eru þeir stöðugt undir húsaleigulögunum, en þeir menn, sem flytja úr gömlu húsnæði í einhverjar af nýju byggingunum, búa við frjálsa leigu. Sú leiga er miklu hærri, sem maður veit, en kunnugt er, að þetta er nokkuð mismunandi. En yfirleitt er húsnæði hjá þessum mönnum komið mikið upp fyrir það, sem er hjá þeim, sem setið hafa lengi í sama húsnæði, sem háð er húsaleiguvísitölunni.

Það er ekki hægt, nema með ákaflega mikilli fyrirhöfn, að rannsaka þetta fyrir alla Reykjavík. En fara má ákaflega nærri í þessu efni með því að taka götur, sem fullbyggðar voru fyrir stríð, og rannsaka bara eftir manntali, hvernig þessi breyting hefur átt sér stað. Það hefur nýlega verið gerð hér athugun með tvær götur, Njálsgötu og Öldugötu, hvernig þessu væri farið í þeim. 1939 voru 481 maður í leiguhúsnæði á Njálsgötu. En við athugun á manntali nú kemur í ljós, að ekki eru nema 118 sömu menn þar í leiguíbúðum, eða tæplega 25%. Í hinum húsunum hafa orðið leigjendaskipti. Og það má fullyrða, að þeir leigjendur, sem skipt hafa um húsnæði, hafa lent undan húsaleigulögunum. — Á Öldugötunni var munurinn meiri. Þar voru árið 1939, 420 manns í leigubústöðum eftir manntali. En sömu leigjendur í þessu húsnæði voru nú aðeins 74, eða tæplega 18%. Og ég fullyrði, að þeir, sem þannig hafa flutzt á milli, hafa raunverulega lent undan húsaleigulögunum. — Þetta ætla ég, að sýni og sanni, að hópurinn er ekki mjög stór hér í Reykjavík, sem húsaleigulögin ná til. Og ef athugað er, hve gífurlega húsaleiga hefur hækkað, þá efast ég um, þó að húsaleiga í því húsnæði, sem eftir er undir húsaleigulögunum, mundi eitthvað hækka, sem hún mundi að sjálfsögðu gera, — þá efast ég stórlega um það, að dýrleiki húsaleigunnar yfirleitt ykist að neinum verulegum mun við það, því að langmestur hluti leiguhúsnæðis er kominn undan húsaleigulögunum. Mér þykir ákaflega ólíklegt, að það sé meira en einn sjötti hluti af leigjendum í Reykjavík, sem býr við ákvæði húsaleigulaganna. Þetta atriði út af fyrir sig kollvarpar því, sem ég hef heyrt haldið fram, að afnám húsaleigulaganna mundi auka mjög dýrtíðina í landinu. Áhrif húsaleigunnar á vísitöluna byggjast á allt öðru, á því, að húsaleiguvísitalan er látin ganga inn í heildarvísitöluna, og hún er ekkert nálægt því, sem dýrleiki húsaleigunnar er í raun og veru. En dýrtíðin sjálf mundi að líkindum sáralítið hækka við afnám húsaleigulaganna. Sú dýrtíð er komin að mestu leyti, sem skapast mundi við að hafa engin húsaleigulög. Það má vera, að það sé að einhverju leyti sjálfsblekking, þegar menn eru að halda því gagnstæða fram, en ég held, að það sé nú mest til þess að ná sér í einhver rök, í vandræðum, fyrir því að mæla húsaleigulögunum bót.

Það er í mörgu fleira, sem ákvæði húsaleigulaganna hafa fallið alveg dauð til jarðar í meðferð eða framkvæmd laganna. Og það er hv. þm. öllum kunnugt, að þegar húsaleigulögin voru sett, var á það bent, að innstreymið í Reykjavík mundi gera ákvæði þeirra að engu eða a. m. k. draga mikið úr áhrifum þeirra. Og það þótti þá nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að hefta strauminn til Reykjavíkur. Og af mörgum fleiri ástæðum þótti æskilegt að draga úr þeim fólkstraumi, sem á undanförnum árum hafði verið til Reykjavíkur. Þess vegna var tekið inn í húsaleigulögin ákvæði um að banna algerlega eigendum húsa í Reykjavík að leigja utanbæjarmönnum. Þetta ákvæði var bann á húseigendur. En húsaleigunefnd var jafnframt gefin heimild til að hefta þetta og til þess að ónýta alveg leigusamninga um húsnæði í Reykjavík til utansveitarmanna. Ég ætla, að ég þurfi ekki að lesa þetta upp. En í lögunum stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Leigusala (framleigusala) er óheimilt að leigja öðrum en heimilisföstum innanhéraðsmönnum íbúðarhúsnæði, og eru slíkir leigusamningar ógildir.“ — En hvernig halda hv. þm., að þessu hafi verið framfylgt?. Mér er ekki kunnugt um, hvernig þessar sakir standa nú. En það var athugað nú fyrir nokkrum árum, það var í árslok 1945, hvernig þetta ákvæði laganna hafði verið haldið til þess tíma. Og þá kom í ljós, að á tímabilinu frá því er lögin voru sett og þangað til í árslok 1945 hafði flutzt til Reykjavíkur um 8 þús. manns. Og allt hafði þetta farið í gegnum greiparnar á húsaleigunefnd. Og sá straumur hefur haldið áfram svipaður síðan. Þetta atriði laganna hefur orðið dauður bókstafur, en hefur orðið þess valdandi, að hér hafa skapazt húsnæðisvandræði. Og ef þessi straumur hefði verið annaðhvort enginn til Reykjavíkur eða til muna minni, þá væru hér engin húsnæðisvandræði.

Allt þetta bendir mjög til þess, að húsaleigulögin séu orðin alveg úrelt. Og það hefur verið hvað eftir annað sýnt fram á þetta hér á Alþ., bæði í þessari hv. d. og líka í Sþ. og í hv. Ed. Og ég held, að það hafi ekki verið unnt að hnekkja þeim rökum, sem þar hafa komið fram og öll hafa hnigið í þá átt, að húsaleigulögin séu orðin úrelt.

Ég sé ekki á þessu stigi málsins, við 1. umr., ástæðu til þess að fara mikið út í þá ágalla ýmsa, sem komið hafa fram á húsaleigulögunum, sem eru áberandi og ákaflega óviðunandi í mannlegu félagi. En margt af því er óviðráðanlegt. Og líka er margt af því svo, að það getur raskað rólegri og rökréttri hugsun um þetta mál, ef farið er að minnast á atriði, sem mönnum er einhver sársauki að. Þess vegna kæri ég mig ekki um að innleiða það tilefnislaust í umr. — En ég get ekki látið hjá líða af því að það er mjög til að upplýsa málið að minnast á það, að þegar húsaleigunefnd er látin meta húsnæði, þá virðist vera ákaflega lítið samræmi í mati hennar á húsnæði í eldri húsum annars vegar og húsnæði í nýbyggðum húsum hins vegar. Munurinn er þar oft svo mikill, að furðu sætir. Ég skal aðeins í þessu sambandi nefna eitt dæmi. Húsaleigunefnd hefur metið húsnæði í húsi hér á hitaveitusvæðinu í gömlu húsi og metið það á 225 kr. á mánuði. Þar í er náttúrlega nokkur hækkun vegna húsaleiguvísitölunnar. Þetta húsnæði er fjögur herbergi og eldhús og bað og þvottahús í sameiningu við aðra og sérstök geymsla í kjallara. Í hinu húsnæðinu, sem liggur utan hitaveitusvæðisins og er aðeins 72 fermetrar að gólffleti, þar eru tvö herbergi, geymsla í kjallara, sæmilegt þvottahús og lítið herbergi undir súð, sem er þriðja herbergið. Þetta húsnæði utan hitaveitusvæðisins hefur nefndin metið á 918 kr. á mánuði, enda getur vel verið, að sá, sem byggir svona hús nú, geti sýnt fram á, að hann þurfi að hafa þessa leigu. Ég er ekki að vefengja það. Og ég hef heyrt um enn þá gífurlegri mun á leigu í nýjum og gömlum húsum. En hver maður sér, að hér er skapaður mjög óeðlilegur og mikill munur á verði á því, sem kemur þó að sömu notum. Þetta er ekki í samræmi við þá réttarvitund, sem almenningur hefur. Auk þeirra miklu galla, sem fram koma í framkvæmd húsaleigulaganna, þá er ekki hægt heldur að ganga fram hjá því, að það er viðurkennt og hefur verið viðurkennt frá öndverðu af Alþ. og ég held af öllum hugsandi mönnum í þjóðfélaginu, að það eigi ekki að hefta frelsi manna stórkostlega, nema, því aðeins að það sé alveg óhjákvæmilegt vegna almenningsheilla. Nú verður því ekki neitað, að þær hömlur, sem lagðar eru á eigendur þessara gömlu húsa, eru ákaflega miklar, og það miklar, að það hefur komið mörgum þeirra alveg í fjárhagsleg vandræði. Ég mun ekki nefna um þetta nein sérstök dæmi. En ég þekki víða til þess, að mönnum hefur verið gert alveg ókleift að halda við húsum sínum, vegna þess að kostnaður af því er nú svo mikill, og mikill í samanburði við það að koma upp nýjum húsum. Og þegar á þetta er litið, kemur í ljós, að þeir, sem ekki hafa getað smeygt sér undan húsaleigulögunum, eru yfirleitt — sjálfsagt ekki allir — svona hæglátt eldra fólk, því að það var fjöldi manna, sem byggði sér hús eftir aldamótin, sem þótti þá öruggasta eign að eiga sér hús yfir höfuðið, og það fólk lagði það til byggingar þeirra, sem það með sparsemi og forsjálni hafði aflað til þess að eiga þak yfir höfuðið og geta fengið svolitlar tekjur fyrir leigu, — það er þetta fólk, sem sett er í þann gapastokk, að þessir húseigendur verða að láta húsin grotna niður vegna vanhirðu, því að þessum mönnum er í raun og veru varnað þess að geta selt þessi hús fyrir sannvirði, af því að það þykir svo mikill ágalli, að það verðfellir húsin, ef fólk situr í þeim fyrir þessa gömlu húsaleigu, sem ekki er hægt að losa sig við.

Á þessu stigi málsins ætla ég ekki að fara um þetta fleiri orðum. En ég get aðeins sagt frá því, að undirbúningur hefur verið um alllangan tíma af hálfu félmrn., hæstv. forsrh., um einhverja endurskoðun á þessum lögum. En árangur af því hefur ekki enn þá komið fyrir þingið. Og við flm. þessa frv. sáum ekki fært, þar sem liðið er nú svo mikið á þingið, að bíða lengur með að láta okkar sjónarmið koma fram um málið. Ef nú hæstv. forsrh. eða hans ráðuneyti hefur á prjónunum einhverjar aðrar till. í þessu máli, koma þær að sjálfsögðu fram, og að líkindum lenda þær til athugunar hjá sömu nefnd og þetta frv. — Ég óska, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr., og ég vænti, að þessi mál hafi áður verið til athugunar hjá allshn., og ég geri það að till. minni, að frv. verði vísað þangað.