09.12.1948
Neðri deild: 29. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (3298)

88. mál, húsaleiga

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil á þessu stigi málsins ekki tala langt mál um frv. það, sem hér liggur fyrir. En ég vildi þó gera nokkrar almennar aths.

Það má vafalaust færa gild rök fyrir því, að ákvæði húsaleigulaganna séu öðruvísi en vera skyldi og að þau ákvæði leiði til nokkurra vandkvæða og í sumum tilfellum örðugleika. En þó að þessu sé slegið föstu, vildi ég fyrir mitt leyti telja, að enn þá sem komið er séu húsaleigulögin eða sum ákvæði þeirra svo mikil vernd fyrir fjölda fátæks fólks, að mjög verði að athuga gaumgæfilega áður en lokum er skotið frá þeim dyrum, sem afnám húsaleigulaganna mundi hafa í för með sér.

Eins og hv. fyrri flm. þessa frv. tók fram, hefur félmrn. um alllangt skeið látið fara fram athugun á þessari löggjöf, sem upprunnin er fyrir tíð núverandi ríkisstjórnar. Skipuð var milliþn. til að fjalla um þetta mál, sem skilaði löngu áliti. En enn þá sem komið er hefur ekki verið komizt að ákveðinni niðurstöðu af hálfu félmrn. eða ríkisstj. yfirleitt um það, hvað hún vildi leggja til um þetta mál, hvaða breyt. hún sér fært að fara fram á eða bera fram um þessa löggjöf. Hins vegar vil ég taka fram, að ég get ekki á þessari stundu mælt með því frv., sem hér liggur fyrir. En eins og hv. fyrri flm. þess tók fram, má vænta þess, að síðar á þessu þingi muni koma fram frv. um breyt. á húsaleigulögunum og fara þá væntanlega til sömu nefndar, sem nú fær þetta mál til athugunar.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í almennar rökræður út af húsaleigulögunum yfirleitt, kostum þeirra og göllum. En ég vildi láta þá aths. koma fram nú þegar á þessu stigi málsins, að þetta frv. er ekki borið fram eftir ósk ráðuneytisins. En félmrn. hefur þetta mál enn til athugunar, og mun síðar verða rætt innan ríkisstj. um þær breyt., sem ráðuneytið kynni að óska eftir að gerðar væru á húsaleigulögunum. — Mér þykir ekki nema eðlilegt, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, gangi áleiðis til nefndar, og sé ekki ástæðu til að halda uppi umr. um það frekar á þessu stigi.