11.03.1949
Neðri deild: 79. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (3316)

88. mál, húsaleiga

Frsm. 1. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þá er nú loks séð fyrir endann á hinu kalda stríði í sambandi við þetta frv. og komið að því að ræða nefndarálitin, og er sú 5 manna nefnd, sem fjallað hefur um málið, þríklofin.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð til þess að gera grein fyrir afstöðu okkar hv. 2. þm. Eyf., en við leggjum til, að frv. verði samþykkt óbreytt. Það er að vísu svo, að okkur er báðum ljóst, að það leiðir af sér ýmiss konar erfiðleika að afnema lögin nú, og erum við að því leyti sammála hinum minni hlutunum. En hitt er jafnljóst, að þeir annmarkar, sem þróast í skjóli húsaleigulaganna, eru engu minni en þeir annmarkar, sem fylgja því að nema lögin úr gildi.

Við 1. umr. þessa máls færði hv. 1. flm. svo glögg rök fyrir þeim annmörkum, sem þróast í skjóli laganna, að ekki er ástæða til að endurtaka neitt af því. En þó vil ég benda á þá veigamiklu staðreynd, að lög, sem hafa svo mikla frelsiskerðingu í för með sér sem húsaleigulögin, eru tæplega verjandi, nema þau komi þeim almennt til góða, er þeirra eiga að njóta. En eins og ég hygg, að almennt sé kunnugt, hafa orðið svo miklar breytingar frá setningu laganna, að því fer víðs fjarri, að þau komi þeim almennt að notum, sem eiga að njóta þeirra, svo að húseigendur þurfa ekki lengur að beygja sig fyrir slíkum rökum. Ýmis tilvik hafa losað um þá bindingu. Fjórði hluti húsanna er háður lágri leigu, og það er eitt veigamesta atriðið, þegar svo miklar kvaðir fylgja sem raun ber vitni, hve lítils hluta l. taka til, og þá skapa þau líka mikið innbyrðis misrétti milli húseigenda — auk allra annarra erfiðleika. Það stendur einhvers staðar í bók eftir Byrnes, fyrrv. utanrrh. Bandaríkjanna, að fátt sé eins nærri ódauðleikanum og opinberar nefndir og skrifstofur. — Bandaríkjamenn hafa og rekið sig á þetta í styrjöldinni. Við Íslendingar höfum einnig reynslu fyrir því, sem er svipaðs eðlis. Þegar komið hefur verið á opinberri íhlutun einhvers staðar, þá er síður en svo hægurinn hjá að kippa því máli að nýju til frjálsara horfs. Eru því orð utanrrh. nærri sanni, að þessar stofnanir séu e. t. v. næst ódauðleikanum alls á jörðunni. Hins vegar er það mjög óheppilega tekið til orða varðandi þetta mál, því að lítum við á það, sjáum við, að húsaleigul. voru sett til að mæta vissum örðugleikum, sem gert var ráð fyrir, að stæðu aðeins um takmarkaðan tíma. Langflestir eru þeirrar skoðunar, að hin mikla skerðing, sem í l. er, megi ekki vera ævarandi. Það ætti heldur að létta henni af eins fljótt og unnt yrði. Við rekum okkur á það enn í dag, að sumir halda því fram, að nægileg rök séu til fyrir gildi l. áfram, og styðja þeir þá skoðun sína með því, að ýmsir erfiðleikar yrðu af afnámi l. Raunar er það rétt. En ég tel, að afnema eigi l. í dag og mæta síðan þeim afleiðingum, sem reynslan kann að leiða í ljós, — fremur en að lappa upp á þau með nýjum bótum. M. ö. o., það sé betra að afnema l. nú og gera síðan ráðstafanir á eftir, en eigi miða nýjar endurbætur við það ástand, sem nú ríkir. (Forseti: Það er of mikil ókyrrð í d.) Ég er því fylgjandi þessu frv., enda þótt mér séu ljósir margs konar annmarkar, sem snúast þyrfti við, en reynslan skæri síðar úr um, hver háttur yrði á þessu, þegar menn sæju afleiðingarnar af afnámi l. Nú væri hægt að segja, að ráðstafanir væru eðlilega gerðar til að mæta erfiðleikunum, sem sköpuðust af löggjöfinni. Ég yrði meðmæltur samkomulagi um einhverjar slíkar ráðstafanir, — þ. e. a. s., ef menn vildu afnema l., — því að það er eðlilegt, að menn vildu gera einhverjar ráðstafanir til að létta undir með fólki sökum erfiðleika þess. Sama skoðun held ég, að sé yfirleitt ríkjandi, sérstaklega hjá 1. flm. þessa frv., sem hefur lagt mikla vinnu í málið. Þó er eigi miðað þar við afnám l., heldur samkomulag um þær breytingar, er drægu úr göllum l. og því ástandi, sem ríkir í skjóli þeirra. M. ö. o. er meginálit okkar hv. 2. þm. Eyf. það, að rétt sé að afnema l. nú. En sjálfsagt verðum við viðmælandi um aðrar ráðstafanir til að mæta erfiðleikunum, aðeins ef menn fallast á meginprinsippið, en það er, að l. voru miðuð við gerbreytt ástand í landinu og áttu aðeins að gilda um takmarkaðan tíma. En menn gerðu sér vonir um frjálsari viðhorf og eðlilegri farveg málanna hvað liði.

Ég skal svo eigi fara fleiri orðum um málið á þessu stigi þess, varðandi álit okkar.