11.03.1949
Neðri deild: 79. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (3319)

88. mál, húsaleiga

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Þegar mál þetta var til 1. umr. hér í þessari hv. d., gat ég þess, að félmrn. hefði gengizt fyrir talsverðum athugunum um, hvaða breyt. gera ætti á húsaleigulöggjöfinni í þessum efnum. Ég gat þess, að ég væri hræddur við að taka frá allar lokur, sem settar eru til tryggingar leigutökum í notkun húsnæðis, til þess að þeir geti búið í húsnæði við hæfileg og viðunandi kjör. Ég hef bæði lesið það og heyrt, að æði mikill dráttur þykir hafa orðið á þeirri athugun af hálfu félmrn., og má segja, að það sé rétt, og skal það viðurkennt af minni hálfu. Þó má geta þess, að málið er, bæði almennt sem félagsmál og einnig með tilliti til þeirra tíma, sem nú eru, ekki eins auðvelt mál og sumir vilja vera láta. Og í öðru lagi, sem er kannske ekki minna atriði, þá skortir það algerlega, að í íslenzkri löggjöf séu nokkur fullkomin fyrirmæli um viðskiptin milli leigusala og leigutaka almennt. Við höfum hins vegar ábúðarlög, sem gilt hafa hér á landi um langan tíma og hefur verið breytt ekki alls fyrir löngu. En við höfum ekki haft hér á Íslandi nokkurn tíma neina fullkomna löggjöf, sem setji reglur um sambandið á milli leigusala og leigutaka, jafnmikið þó eins og þetta samband er tíðkað og er almennt í öllum kaupstöðum landsins og nær til allt að því meiri hlutans af þjóðinni. Þess er líka að geta, að einmitt í nágrannalöndum okkar, þar sem komið hafa á stríðstímum upp svipuð vandkvæði varðandi húsaleigumál eins og hér á landi, þá hefur verið hnigið að því ráði á seinni árum, ekki aðeins að setja ákvæði um þessi mál, sem væru hæfileg og viðeigandi á óvenjulegum tímum, eins og alltaf á stríðstímum og einnig nokkurn tíma eftir að styrjöldum er lokið, jafnmikið eins og fer úr skorðum, þegar slíkir voveiflegir hlutir gerast, heldur hefur einnig á Norðurlöndum nú ekki alls fyrir löngu verið lögð í það mjög mikil vinna að semja frumvörp og afgreiða lög, sem setja nokkuð nákvæmar og æði mikið tæmandi reglur um afstöðuna milli leigusala og leigutaka. Þau húsaleigulög, sem sett hafa verið á Íslandi og einkum hafa verið bundin við heimsstyrjaldir þær, sem verið hafa á þessari öld, frá 1914 til 1918 og frá 1939 til 1945, hafa að verulegu leyti miðazt við það óeðlilega ástand, sem skapazt hefur af völdum styrjaldanna. Þannig hefur aldrei tekizt að setja á fullkomna löggjöf í landinu varðandi þetta mikilsverða atriði, sambandið og sambúðina milli leigusala og leigutaka. Mér fannst því eðlilegt, þegar þetta mál var á döfinni og þar sem búast mátti við því, — enda er það í samræmi við mína skoðun, — að ákvæði núgildandi húsaleigulaga mundu ekki verða til langframa, þó að ég vilji taka fram, að sumt í þeim, þó með breytingum, verður að vera áfram, að þá sé ástæða til að setja almenna löggjöf um þetta efni og setja þá inn bráðabirgðaákvæði í slíka löggjöf, sem gildi á meðan löggjafinn sér sér ekki fært að afnema öll þau ákvæði, er að ýmsu leyti binda húsaleiguna og vernda leigjendurna vegna vandkvæðanna í sambandi við húsnæðisvandræðin. Ég hef þess vegna fyrir alllöngu gert ráðstafanir til þess að setja þar til hæfa og fróða menn til þess að athuga þessi málefni., Vinnu þeirra er nú að mestu lokið og frv. um þetta samið. Þetta frv., sem ég vonast til, að hægt verði að leggja fyrir hæstv. Alþ. nú innan mjög skamms tíma, er mikill lagabálkur, um 90 greinar, þar sem reynt er að lögfesta reglur, nokkuð tæmandi, út af sambandinu milli leigusala og leigutaka. Er þar að verulegu leyti stuðzt við fyrirmyndar löggjöf, sem sett hefur verið á Norðurlöndum, og má segja, að Vinding Kruse, danskur prófessor, sé höfundur þeirrar löggjafar í Danmörku og hafi mótað reglurnar, sem í þeim gilda, einnig í öðrum Norðurlöndum. Það má segja, að heildarlöggjöf hafi ekki verið til um húsaleigu hér á landi, þó að í skyndi hafi verið varpað upp vegna óvenjulegs ástands húsaleigulögum í sambandi við tvær heimsstyrjaldir. Með frv. því, sem nú er samið og vænta má, að lagt verði fyrir Alþ. innan skamms, er gerð tilraun til þess að setja heildarlöggjöf um skipti leigusala og leigjenda, og er frv. sniðið eftir norrænni löggjöf um þessi efni, en miðað við íslenzka landshætti og lögfestar þjóðarvenjur, er myndazt hafa í þessum efnum á liðnum árum. Það hefur verið horfið að því ráði að setja aftan við sjálfa heildarlöggjöfina — eða ég vildi leggja það til — ákvæði til bráðabirgða, þar sem viðhaldið væri nokkru af þeim takmörkunum, sem nú gilda í húsaleigulögunum, og að þetta væri sett sem bráðabirgðaákvæði til þess að undirstrika það, að þetta sé aðeins sett til bráðabirgða, þangað til tímarnir kynnu að breytast meir til þess að vera venjulegir tímar. Það er þó gert ráð fyrir því í þessu frv., að ýmislegt af því, sem nú fellur undir húsaleigunefndir, sem skipaðar hafa verið í kaupstöðum og hafa með höndum framkvæmd húsaleigulaganna, það eigi að fara undir einn sérstakan dómstól, sem gildir fyrst og fremst fyrir Reykjavík og Hafnarfjörð, en að öðru leyti hafi sveitarstjórnirnar með þessi málefni að gera og venjulegir dómarar, þó með tveimur meðdómendum, sem skipaðir séu hverju sinni. Það verður þess vegna höfuðbreyt. í sjálfu frv., sem samið er, að húsaleigunefndirnar hverfa úr sögunni. Sveitarstjórnir taka við ýmsum verkefnum, sem húsaleigunefndir hafa nú, og valdsvið þeirra til afskipta af húsnæðismálum er verulega aukið frá því, sem nú er, og er það í samræmi við það, sem annars staðar er á Norðurlöndum. Aðalverkefni húsaleigunefndar færist þá til húsaleigudóms, sem leigusalar og leigutakar geta skotið málum sínum til, og fellir hann úrskurð um ágreining í samræmi við lögin. Húsaleigudómstóll verður þó hvergi fastur dómstóll nema í Reykjavík, og fellur Hafnarfjörður undir lögsögu hans. Annars staðar er dómurinn laus, þannig að héraðsdómari dæmir um þessi mál, með tveimur meðdómendum, sem hann kveður til hverju sinni. — Á fjárlagafrv. er áætlað, að kostnaður við húsaleigunefndir sé 250 þús. kr. úr ríkissjóði, og ætla má, að þessi breyt. yrði sízt til þess að auka kostnað, heldur mætti gera ráð fyrir, að með þessu mætti draga úr kostnaði þeim, sem ríkið hefur haft í sambandi við framkvæmdir þessara mála. Það er gert ráð fyrir því í frv., að dómum húsaleigudóms megi áfrýja til hæstaréttar, öðrum en þeim, sem snerta matsatriði.

Ég hef bent á þessi höfuðatriði í frv. að þeim langa lagabálki, sem samið hefur verið um húsaleigumál, og frv. þetta er nú í prentun og er verið að rita grg. fyrir því. En það, sem ég hef fyrirhugað sem ákvæði til bráðabirgða í sambandi við frv. að slíkri heildarlöggjöf, er í fyrsta lagi það, að atvinnuhúsnæði sé ekki lengur látið vera háð þeim reglum, sem nú gilda, heldur sé það frjálst og megi segja því upp, en þó er gert ráð fyrir því í frv., að um það gildi nokkuð sérstakar reglur, sem ég sé ekki ástæðu til að fara inn á. Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að íbúðarhúsnæði sé áfram háð lögþvingaðri leigu, meðan bráðabirgðaákvæðin séu í gildi, en þetta rýmkað þannig, að einstök herbergi séu tekin undan bráðabirgðaákvæðunum og falli undir heildarlöggjöfina. Enn fremur er gert ráð fyrir, að réttur eigenda til að segja upp húsnæði vegna sjálfs sín eða ættingja sinna verði rýmkaður, þannig að þann rétt öðlizt nú þeir, sem eignazt hafa íbúð fyrir 1. jan. 1945, í staðinn fyrir að í núgildandi l. er miðað við 9. sept. 1941. Það er ætlazt til þess, að þessi bráðabirgðaákvæði gildi fyrst og fremst fyrir Reykjavík og Hafnarfjörð, en þó sé sveitarstjórnum kaupstaða og kauptúna með 500 íbúum eða fleiri heimilt að ákveða með sérstakri samþykkt, að þau skuli einnig gilda þar. Ég get tekið fram fyrir mitt leyti, að ég hef ekki, vegna þess að málið er ekki komið lengra áleiðis, rætt um það innan ríkisstj., þó að ég hafi sagt hæstv. ráðh. frá því, að ég hafi í undirbúningi frv. að heildarlöggjöf um þessi efni. Ég get því ekki sagt um það nú, að hverju leyti öll ríkisstj. vildi að málinu standa. En ég tel rétt og líka skyldu mína að koma nú á framfæri á Alþ. frv. að almennri löggjöf um þetta efni, sem gæti orðið til frambúðar, jafnmikil vandkvæði eins og nú ríkja um reglur og skýringar á þeim um samband og sambúð milli leigusala og leigutaka.

Samkv. því, sem ég nú hef tekið fram, get ég ekki fallizt á, að öllu sé sleppt lausu í þessum húsaleigumálum, eins og þó er gert ráð fyrir í þessu frv., sem hér liggur fyrir, heldur vildi ég fyrir mitt leyti, að sett yrðu bráðabirgðaákvæði, sem héldu gildi um skeið, með nokkrum lögþvinguðum reglum út af húsaleigunni, en að undan þessum lögþvingunarákvæðum væri tekið atvinnuhúsnæði og einhleypingsherbergi og nokkur ákvæði væru sett ný um það, þegar menn eignast hús.

Ég vildi skjóta því til hv. þd. að hraða ekki afgreiðslu þessa máls, sem hér liggur fyrir, svo að hv. þd. geti ekki athugað fyrir sitt leyti það heildarlagafrv. um húsaleigumál, sem ég hygg, að unnt verði að leggja fyrir hv. d. nú alveg á næstunni. Ég teldi vera mikla nauðsyn á því og að því mikla endurbót, ef hægt væri að fá afgr. á þessu þingi heildarlöggjöf um húsaleigu eða sambandið á milli eigenda húsnæðis og leigutaka og setja um það eðlilegar og réttlátar og tæmandi reglur og halda þó um skeið nokkru af ákvæðum gömlu húsaleigulaganna, þó nokkuð breyttum, og að breyta öllu skipulagi í sambandi við húsaleigunefndir. Ég vildi mega vænta þess, þó að afgreiðsla þessa máls, sem hér liggur fyrir, hafi nokkuð dregizt hér í hv. þd., að hv. þd. teldi þó rétt að afgreiða það ekki frá sér fyrr en til athugunar Alþ. kemur það stóra frv. um húsaleigumálin, sem ég hef getið og ég hygg, að verði lagt fyrir hv. d. nú alveg á næstunni.