17.03.1949
Neðri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (3333)

88. mál, húsaleiga

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það voru nokkur ummæli í ræðu hv. þm. Ísaf. fyrir tveimur dögum, sem eru tilefni til nokkurra athugasemda. Hv. þm. ræddi um starfsemi fjárhagsráðs og íbúðabyggingar og komst m. a. svo að orði, að fjárhagsráð hefði veitt öll leyfi, sem sótt hefði verið um, úti á landi og í Reykjavík þau, sem ekki hefðu verið stærri en 130 m2. Mér kom þetta dálítið spánskt fyrir sjónir, þar eð mér er kunnugt um margar íbúðir, sem synjað hefur verið um. Ég vil einkum snúa mér að því, sem snertir Reykjavíkurbæ. Reykjavíkurbær sótti um leyfi til að byggja 80 íbúðir, en fékk aðeins leyfi fyrir helmingnum, og það takmarkað leyfi. Á síðasta ári voru veitt leyfi fyrir 319 íbúðum hér, en 356 var synjað, eða nokkru fleiri en leyfin voru, sem veitt voru, en af leyfunum, sem veitt voru, voru 89 fyrir íbúðum, sem voru stærri en 130 m2, sem hv. þm. talaði um, að öllum hefði verið synjað. Nú vita allir, að mörgum hefur verið neitað um leyfi, og er ég því að velta því fyrir mér, hvernig geti staðið á þessum ummælum hjá hv. þm.

Hugsanlegt er, að þeim, sem ekki höfðu lóðaleyfi, hafi verið neitað, en slíkt væri fjarri öllu lagi, þegar það er athugað, að samningar fóru fram um það milli bæjarstjórnar Reykjavíkur og fjárhagsráðs, hvort fyrst skyldi úthluta byggingarleyfum eða lóðaleyfum, og samkomulag náðist um það, að fyrst skyldi fjárhagsráð úthluta byggingarleyfum. Ef synjun um byggingarleyfi er því byggð á því, að hlutaðeigandi hafi ekki lóð, er það fjarri öllu lagi, þar sem samkomulag hefur náðst um þetta atriði. Ég skal ekki kveða upp neinn dóm yfir fjárhagsráði, en tölurnar tala sínu máli, og vitað er, að aðeins 319 byggingarleyfi voru veitt og sum af þeim aðeins málamyndaleyfi, eins og t. d. leyfin til Reykjavíkurbæjar. — Þá kom hv. þm. Ísaf. að því, að sumir aðilar hefðu ekki notað sér leyfin, þar á meðal Reykjavíkurbær ekki notað leyfi fyrir 40 íbúðum. Þetta þarf að leiðrétta. Bærinn sótti um leyfi fyrir tveimur húsum, hvoru með 40 íbúðum, en fékk aðeins leyfi fyrir öðru og það þó með því skilyrði, að aðeins kjallarinn yrði reistur á árinu. Það hefur oft tekið langan tíma að byggja stórhýsi og þau á þann hátt orðið dýrari. Ráðamenn bæjarins urðu því sammála um að byggja húsið á sem skemmstum tíma, ekki á 4–5 árum, eins og stundum hefur orðið. Og það, sem talað var við nefndarmenn, voru þeir á sama máli. Þvert ofan í öll þessi sjónarmið synjar fjárhagsráð um leyfi fyrir öðru þessara húsa, en leyfir hitt með því skilyrði, að alls ekki megi byggja meira en kjallara þess á árinu 1948 og það gildir sama og enga íbúð þar á því ári, því að ekki mátti hafa íbúðir í kjallaranum. Bærinn leit á þetta leyfi sem raunverulega synjun, annað var ekki hægt.

Í öðru lagi er þess að geta, að bærinn sótti um leyfi fyrir húsbyggingum með tilliti til laga um opinbera aðstoð við íbúðarhúsabyggingar bæjar- og sveitarfélaga og byggði þar á lánum, sem á að veita samkv. þeim lögum. En um leið og fjárhagsráð afgreiðir þetta, gerist það, að Alþ. frestar framkvæmd þessara umræddu laga. Þar með var ekki lengur til staðar sá fjárhagsgrundvöllur, sem bærinn byggði á í þessu efni. Það hefur komið fram hjá hv. þm. Ísaf. oftar en einu sinni, að hann hefur verið að álasa Reykjavíkurbæ fyrir að hamstra leyfum, en ég ætla að öllum sé nú ljóst, hve fjarri lagi slíkar ásakanir eru.

Ég skal að lokum geta þess, að afgreiðsla fjárhagsráðs á umsóknum um byggingar í Reykjavík 1948 var algerlega óviðunandi. Samkvæmt rannsókn hagfræðings bæjarins þarf að byggja a. m. k. 500–600 íbúðir í bænum á ári til að fullnægja eðlilegri fólksfjölgun. Það er lágmarkstala og miðast við fólksfjölgun, en sáralitlu væri hægt að útrýma af heilsuspillandi íbúðum, þótt svo mikið væri byggt sem ég nefndi áðan. En fjárhagsráð synjaði um leyfi fyrir 356 íbúðum hér í bæ 1948, en veitti aðeins leyfi fyrir 319, og ég veit, að nú eru uppi raddir um það í ráðinu að lækka þessa tölu ofan í 200–300 á þessu ári. Ég tel, að þetta megi hreint ekki verða niðurstaðan. Það þekkja allir, hve þörfin er gífurleg. Við hljótum að vera samdóma um, að ef horfið er að því ráði að takmarka íbúðarhúsabyggingar í Reykjavík enn meira í ár en s.l. ár, að þá horfir beinlínis til stórkostlegra vandræða. Ég tel það lágmark, að fjárhagsráð veiti leyfi fyrir 600 nýjum íbúðum í bænum á þessu ári, alls ekki færri íbúðum, og í rauninni er alls ekki hægt að una við 200–300 íbúðir, sem er minna en helmingur þess, sem er alveg nauðsynlegt.