17.03.1949
Neðri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (3334)

88. mál, húsaleiga

Frsm. 3. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég hefði í sjálfu sér ekki þurft að taka hér mikið til máls, ef hv. þm. S-Þ. hefði ekki látið svoleiðis ummæli falla um brtt. mínar, að þær væru alger banaráð við málið og ég hefði í engu falli gengið til móts við óskir húseigenda í bænum. Ég sé, að hv. þm. er hér ekki viðstaddur, og þykir nú miður að svara honum á meðan. Hann er líklega ekki hér í námunda við þingsalinn? Ef það væri athugað, vík ég örfáum orðum að öðrum á meðan.

Hv. 3. þm. Reykv., sem vék að till. mínum lítið eitt, virtist finna þeim það helzt til foráttu, að bæjar- og sveitastjórnir skuli eiga að ákveða um gildi laganna, hvað þau séu lengi í gildi á hverjum stað. Taldi hann, að Alþ. ætti að ákveða, hvenær lögin skyldu ganga úr gildi, eins og það ákvað um gildistöku þeirra á sínum tíma. En þegar lög þessi voru sett, voru alveg sérstakar kringumstæður. Þá var heimsstyrjöldin byrjuð og ýmsar truflanir í húsnæðismálunum og meiri truflanir þóttust menn sjá fyrir, og því voru lög sett um þetta eins og svo margt annað í þjóðfélaginu. Ég hygg, að það hafi fyrst og fremst verið gert vegna íbúa Reykjavíkur, ekki kannske vegna húseigenda, það skal ég viðurkenna. Nú hafa aðstæður breytzt nokkuð í þessum efnum, þannig að ætla mætti, að hægt væri að fara að nema þessi lög aftur úr gildi, eða þannig lít ég á málið, eins og hv. flm., að sá tími fari að nálgast og sé vonandi ekki langt fram undan, að hægt sé að afnema lögin. Mínar brtt. bera vott um, að ég lít svipað á þetta og flutningsmennirnir. Þó er sá munur á, að ég er ekki alveg eins öruggur að ákveða, að eftir rúmt ár skuli lögin upphafin, svo sannfærður er ég ekki um, að kominn verði þá á jöfnuður um þetta hér í Reykjavík. Því vil ég, að bæjaryfirvöldin ákveði á hverjum stað, hvort gerlegt sé að nema lögin úr gildi, er þar að kemur. Þeim bæjaryfirvöldum er eða ætti að vera bezt treystandi til að þekkja þörfina, hverjum á sínum stað, og þess vegna sé ákvörðunarrétturinn um það, hvort lögin skuli vera í gildi áfram eða ekki, í höndum bæjaryfirvalda eftir 14. maí 1951 og að miklu leyti, þ. e. varðandi leiguhúsnæði, þegar eftir 14. maí 1950. Það er að vísu svo, að samkv. mínum till. fellur þessi þáttur laganna ekki úr gildi fyrr en ári síðar en flm. leggja til í sínum tillögum. En það held ég geti ekki skoðazt svo mikilvægt út af fyrir sig, að ekki væri vert á það að líta af flm. Ég held, að það sé ekki sanngjarnt að heimta það af þm., sem allmargir eru utan af landi, að þeir gerist dómarar í þessu efni og ákveði nú, að vorið 1950 skuli húsaleigulögin að fullu og öllu falla úr gildi. Áreiðanlega hefur bæjarstjórnin betri aðstöðu og yfirsýn yfir þessi mál til að taka endanlega ákvörðun um þetta. Og það er ekkert sérstakt um þetta atriði, þó að það gilti eitthvað lengur, því að enn er ekki fyrirsjáanlegt, hvenær ýmiss konar löggjöf, sem sett var á stríðsárunum, verður numin úr gildi, t. d. afurðasölulögin, og sama má segja um verðlag á ýmiss konar varningi í landinu. Sama er að segja um innflutningsverzlunina og fleira, svo að það eimir eftir af þessari löggjöf frá stríðstímunum í ýmsum greinum enn þá, og það er sökum þess, að öllum er ljóst, að ekki er, því miður, komið á það jafnvægi í þjóðfélaginu eftir stríðið, sem æskilegt væri.

Ég sé, að hv. þm. S-Þ. er enn ókominn hingað í þingsalinn. Nú, það sakar málið í sjálfu sér ekki, þótt ég láti niður falla að svara honum mörgu. Mér fannst af ræðu hans, að hann hefði ekki lesið till. mínar, eða þá lesið þær eins og viss persóna biblíuna, því að sannleikurinn er sá, að það er tímatakmarkið eitt, sem er annað hjá mér en flm., og ákvörðunarrétturinn um það, hvenær lögin skuli úr gildi falla, er færður yfir á bæjarstjórn Reykjavíkur, eða bæjar- og sveitarstjórnir nánar tiltekið. Það er allur munurinn. Og þetta finnst mér harla einkennilegt, að hv. þm. skuli líta svo á, að það skuli muna svo miklu, að ég geri ráð fyrir, að nokkur atriði laganna séu ári lengur í gildi en frv. gerir ráð fyrir, að málið sé bara gersamlega eyðilagt með því. Ég undrast, hve seint ég heyri rödd þessa hv. þm., því að ég minnist ekki, að hann hafi nokkru sinni talað um þessa löggjöf hér áður. Ég varð að hafa afskipti af þessum málum fyrir tveimur árum hér á þinginu og lét þá í ljós undrun mína yfir því, hve lítið hefði rætzt úr þessum málum í Reykjavík og hve lítið væri hægt að rýmka lögin. En málið hélt þá ekki áfram í þinginu.

Annars var ekki eitt, heldur margt furðulegt í ræðu hv., þm. S-Þ. Hann veitti þm. utan af landi ákúrur, og af því að við hv. þm. Ísaf. höfðum sagt nokkur orð, þá taldi hann, að við værum að greiða fyrir fólksflutningum til Reykjavíkur. Mér skildist jafnvel helzt á honum, að till. mínar opnuðu öllum Árnesingum leið til að setjast að hér, af því að ég vildi færa tímatakmark laganna fram um eitt ár. Sjálfur er hann því fylgjandi að afnema húsaleigulögin fyrr, þannig að hægt væri að losa allar leiguíbúðir í Reykjavík og þá fyrst væntanlega opna aðkomufólki leið hingað, en í mínum till. er gert ráð fyrir að afnema lögin í áföngum og til fulls 1951, það skal ég viðurkenna. En ef menn vilja endilega flytja til Reykjavíkur og útvega sér þar húsnæði, þá skilst mér, að auðveldara sé að verða sér úti um húsaskjól, þegar búið er að losa allt leiguhúsnæði með afnámi húsaleigulaganna, í stað þess að það er bundið, á meðan lögin eru í gildi. Ég held, að hann sé þá sjálfur manna óðfúsastur á að koma fólki til Reykjavíkur með því að vilja afnema lögin sem fyrst, ef húsnæði verður þá svo laust fyrir sem hann vill vera láta og fólk sólgið í að flytja hingað, og tel ég þá ekki mitt hlutverk að greiða sérstaklega fyrir afnámi laganna. Hins vegar skal ég viðurkenna, að mínar till. eru ekki miðaðar við þennan hugsanagang, því að það hefur sýnt sig, að menn hafa flutt til Reykjavíkur eftir vild að kalla, meðan lögin hafa verið í gildi, svo að afnám þeirra mun ekki hafa svo mikið að segja í því efni. Mér finnst öll þessi röksemdafærsla hjá hv. þm. S-Þ. afar kyndug.

Þá minntist hann á, að ég hefði verið 1. flm. að togaravökulögunum á sinni tíð og taldi mér það til tekna. Sjálfur hef ég einnig gert það, enda var um mikið réttlætismál að ræða. En mér skildist á hv. þm., að tillögur mínar nú í húsnæðismálunum væru eins og hrein andstæða samanborið við afstöðu mína til vökulaganna, þá hefði ég verið að verja rétt lítilmagnans, en nú væri ég að ganga á rétt lítilmagnans, þ. e. húseigenda, með því að vera ekki með því, að húsaleigulögin væru afnumin samkv. frv. Ætli þetta sé nú alveg víst? Mér dettur ekki í hug að mótmæla því, að bundið húsnæði hafi orðið til þess, að sumir húseigendur hafi orðið hart úti og orðið fyrir ýmiss konar óþægindum í sambúð við leigjendur. Það getur meira en verið. En er það þá alveg víst, að einhverjir leigjendur, t. d. barnafjölskyldur, hafi haft eða muni hafa betri aðstöðu, þegar þeim er kastað út á götuna. Þá má ætla, að menn séu nokkuð við aldur yfirleitt, sem átt hafa hús áður en eða þegar lögin gengu í gildi, og hafi því ekki yfirleitt ungbörn á sínu framfæri. Miklu fremur mætti ætla, að þeir, sem sitja í leiguhúsnæði, hafi börn á framfæri sínu. Og ætli það sé þá ekki dálítill skyldleiki milli framkomu minnar gagnvart togaravökulögunum og nú gagnvart þessu máli og að þetta sé þá eitthvað öðruvísi en hv. þm. vill vera láta?

Hv. þm. taldi, að þessi lög snertu ¼ Reykvíkinga, og fannst ekki ástæða til að hafa þau í gildi. Eftir frv. falla lögin að fullu úr gildi 1950, en einu ári seinna eftir mínum tillögum, og ætti að vera hægt að þreyja það eina ár. En úr því að lögunum fylgir svo mikil rangsleitni að hans dómi og sumra annarra, hví þá ekki að nema þau úr gildi strax á þessu ári? Það væri meira samræmi þar á milli, frá því sjónarmiði séð.

Ég hef „nóterað“ hér hjá mér ýmis fleiri atriði, sem ég hafði hugsað mér að minnast á, en úr því að hv. þm. S-Þ. er hér ekki viðstaddur, kæri ég mig ekki um að fjölyrða um þau. En mér skildist hann fyrst og fremst telja sig málsvara þeirra, sem eiga hús, og ekki fór hann dult með óvilja sinn gagnvart mínum till., og kann ég ekki að vita, hve margir vilja drepa þær. Ég vil því sjá hug manna til þeirra hér við 2. umr. Hv. flm., 5. þm. Reykv., hefur tekið vel í mínar till., en ég get því miður ekki orðið við þeirri ósk að taka þær aftur til 3. umr. og láta þær þá fyrst koma til atkvæða, því að verði þær þá felldar, er ekkert ráðrúm fyrir mig að reyna að fá einhverja lagfæringu. Ég get því ekki átt undir því að láta þær ekki koma fyrr til atkvæða. Verði þær hins vegar felldar nú við þessa umræðu, get ég þó alltaf reynt að fá einhverja lagfæringu við 3 umr. Ég get því ekki tekið till. mínar aftur til 3. umr. samkv. ósk hv. 5. þm. Reykv., þó að ég hefði viljað gera það hans vegna, ef hægt hefði verið. Ég bendi líka á, að ekki er skaði skeður fyrir hann, þó að atkv. gangi nú einnig um mínar till., því að honum gefst þá tóm til við 3. umr. að leitast við að fá lagfæringu, ef hann er ekki ánægður með afgreiðslu málsins við þessa umr.