18.03.1949
Neðri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (3337)

88. mál, húsaleiga

Frsm. 2. minni hl. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Í sambandi við það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ekki hefði verið veitt leyfi til samvinnubygginga á Norðfirði, þá er rétt að athuga, hvenær leyfisumsókn þar að lútandi barst fjárhagsráði í hendur. Umsóknin barst fjárhagsráði ekki fyrr en eftir að umsóknarfresturinn var útrunninn, þó að 4 íbúðir hafi verið leyfðar. Annars er þarflaust að vera að elta ólar við 2. þm. Reykv. Hann heldur því fram, að ég hafi búið frv. til og komið því fram með einhverjum mökum við kommúnista, en sannleikurinn í málinu er sá, að kommúnistar komu þar hvergi nærri. Ég lagði frv. fram í samráði við fyrrv. fjmrh., Pétur heitinn Magnússon. Forsrh. þáverandi, sem er form. Sjálfstfl., óskaði þess, að ég hefði samráð við fjmrh., en hins vegar komu kommúnistar þar hvergi nærri. Þó að búið sé að takmarka framkvæmdaheimild þessara laga, þá er langt frá því, að þeim sé spillt að neinu leyti. Það vita allir, að þau loforð, sem ríkissjóður gefur, þau hafa lítið að segja, nema fé sé veitt á fjárl. til þess að uppfylla þau loforð. En lögin eru að öllu leyti í gildi, aðeins með þeim fyrirvara, að fé sé veitt á fjárl. Það er búið að sýna sig í ýmsum framkvæmdum, að ríkið stendur ekki við skuldbindingar, þó að þær hafi verið ákveðnar í lögum, nema fé sé veitt á fjárl.

Það, að hv. 2. þm. Reykv. er að bera í bætifláka fyrir það, að hann heimtar ótakmörkuð völd handa fjárhagsráði, það kemur að litlu haldi, því að einmitt í þessari sömu ræðu sinni er hann að kvarta yfir, að það hafi of mikil völd. Hann segir, að það hafi of mikil völd, en svo segir hann rétt á eftir, að það sé leitt, að þessi vesæla stofnun skuli ekki hafa vald yfir lánsstofnunum. Þó að ég sé farinn úr fjárhagsráði, þá treysti ég því samt vel til þess að leysa starf sitt af hendi, en þó held ég, að það yrði æði mikið og of mikið verk, ef ein stofnun ætti bæði að hafa með höndum fjárfestingarleyfi og reka þar að auki útlánastarfsemi. Með fjárfestingarleyfi er verið að ákveða, hvað gera megi, en lánsstofnanirnar hafa eins konar neitunarvald, ef einstaklingarnir hafa ekki nægilegt fjármagn sjálfir. Hv. 2. þm. Reykv. spurði að því, við hvað fjárfestingarleyfi væru miðuð. Þetta er barnaleg spurning, en ég skal þó svara honum. Fjárfestingarleyfi eru miðuð við full not vinnuaflsins, eða að nota það eins og mögulegt er. Hins vegar hlýtur innflutningurinn að miðast við gjaldeyrisöflun eða möguleika á henni, og þó að starfsemi fjárhagsráðs sé á byrjunarstigi og mjög skorti á hagfræðiskýrslur, þá verður því ekki neitað, að það hefur komizt furðanlega vel út úr því, svo að það hafa ekki aðrir gert betur sem gert hafa áætlanir.

Hvað því viðvíkur að mjög hafi dregið úr byggingarframkvæmdum í vetur, þá er það ekki allt vegna skorts á byggingarefni, heldur kemur þar einnig fleira til, — það sjá allir þeir, sem koma út fyrir hússins dyr. Mér er kunnugt um það, að mörg hús hafa orðið að bíða vegna veðurs, en ekki vegna efnisskorts, og þó að fjárhagsráð sé almáttugt í augum hv. 2. þm. Reykv., þá ræður það þó ekki yfir veðrinu.

Að síðustu kom hv. 2. þm. Reykv. að því að ræða um eyðslu og möguleika til bygginga. Hann heldur því fram, að það eigi að fara saman að eyða miklu í byggingar, ef hægt er að eyða einhverju í annað. Hv. 2. þm. Reykv. hefur staðið fyrir því að heimta aukna eyðslu á öllum sviðum. Ég hef reynt að sporna á móti því eins og hægt er, ég hefði viljað láta draga úr ónauðsynlegum innflutningi, til þess að hægt sé að auka fjárfestingar. En þetta hefur ekki átt náð hjá hv. 2. þm. Reykv. og öðrum kommúnistum, því að þeir heimta alltaf aukna neyzlu. Hins vegar hef ég engar slíkar till. séð frá kommúnistum, sem miða að því að draga úr óþarfaneyzlu. Það, sem ég benti á, það var, að það þarf að draga úr eyðslu og neyzlu eins og frekast er unnt, til þess að hægt sé að hafa meira fé til fjárfestingar, en hv. 2. þm. Reykv. heldur því fram, að ef varið er meira fé til neyzlu og eyðslu, þá sé hægt að auka fjárfestingar.