03.03.1949
Neðri deild: 74. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (3358)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Fyrir nokkru síðan hreyfði ég því hér í d., utan dagskrár, að frv., sem ég og hv. 8. þm. Reykv. flytjum og útbýtt var í d. 3. nóv. og nál. hefur komið um frá minni hl. fjhn., hefði eigi verið tekið fyrir enn og allar líkur mundu benda til þess, að hv. meiri hl. fjhn. mundi ekki skila nál. Ég beindi þeirri áskorun til hæstv. forseta, þar sem svo langt er liðið frá útbýtingu nál. minni hl., að málið yrði tekið fyrir hér í d. Það hefur ekki verið tekið fyrir enn. Ég vil ítreka þessa ósk, og það því fremur, þar sem form. þeirrar n., sem um málið hefur fjallað, er mættur hér. Ég vænti þess, að hv. form. n. geri grein fyrir þessum drætti eða skýri frá því, hvort hv. meiri hl. n. hugsar sér að skila áliti. Í öllu falli finnst mér það réttlát ósk, að hæstv. forseti taki málið fyrir svo fljótt sem verða má.