05.04.1949
Neðri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (3383)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Það var talað um það undir þeim löngu umr., sem áður urðu um þetta mál, að ríkisstj., og þá sérstaklega ég, hefði lítið látið frá mér heyra um þetta mál og jafnvel ekki hlustað nema á lítinn hluta umr. Það er að vísu satt, enda held ég, að ég hafi fyrir fram getað gert mér nokkurn veginn ljósa grein fyrir því, hvað sagt yrði um málið, og þyrfti því ekki að eyða tíma mínum til að hlusta nákvæmlega á öll þau orð, sem féllu. En mér þykir rétt, áður en komið er að atkvgr. í þessu máli, að geta þess, að ég sé mér ekki fært fyrir mitt leyti að mæla með því. Það er svo, að þegar sett voru þau l., sem ætlað er að breyta með frv., en það var um áramótin 1947–1948, þá var það tilraun, sem að mínu viti var mjög merkileg og nokkuð árangursrík, til þess að hefta, ef unnt væri, áframhaldandi skrúfugang verðbólgunnar. Ég tel, að löggjöf þessari hafi hjá miklum meiri hl. launastéttanna verið tekið með skynsemi og að þetta fólk hafi játað, að það var kannske ekki síður þeirra hagur, en annarra að gera slíkar ráðstafanir. Hitt er annað mál, að því miður hefur ekki tekizt að hefta vöxt verðbólgunnar eins mikið og vonast var eftir og tilgangurinn var með löggjöfinni. Þó er rétt að geta þess, að nú, einu ári og þrem mánuðum eftir að l. öðluðust gildi, er vísitalan þó ekki nema 9 stigum hærri, en hún var eftir að l. fóru að verka á verðlag í landinu. En ýmislegt hefur valdið því, og óviðráðanlegt flest, að þessi hækkun hefur orðið. Einna mestan þáttinn átti verðlagshækkunin á landbúnaðarafurðum eftir reglum þeirra l., sem Alþ. setti. Er það að sjálfsögðu umdeilanlegt. eins og allir dómar, hve réttur sá dómur var, sem kveðinn var upp um verðlag á landbúnaðarafurðum á sinum tíma. Einnig má geta þess, að vegna sölu á ýmsum íslenzkum afurðum til landa, þar sem verðlag er mjög hátt, hefur þurft að gera clearing-samninga, sem hafa fært okkur dýrari vörur ýmsar, en frá mörgum öðrum löndum. Hafa þær haft sín áhrif á vísitöluna. Ég minnist þess, að vegna viðskipta við Ítalíu kom dálítið af sápuspónum til landsins, sem voru miklu dýrari en íslenzkir eða þeir, sem fluttust frá Noregi. Ef til vill man hæstv. viðskmrh., hverju þetta orkar, en ég veit, að það er meira en eitt stig, aðeins þetta eina atriði. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi. En sömu sögu er að segja frá fleiri löndum, þar sem verðlag er hátt, einkum austan til á meginlandi álfunnar og í Bandaríkjunum, ekki hvað sízt í sambandi við sölu íslenzkra afurða.

En þrátt fyrir þetta, og þó að ég játi hispurslaust, að launamenn í lægri launaflokkum megi sízt í missa, þá álít ég, að þegar til lengdar lætur sé þeim jafnvel það heppilegra, sem nú er, heldur en að taka þeim afleiðingum, sem í ljós kynnu að koma, ef aftur hæfist sami skrúfugangurinn, sem óhjákvæmilega mundi leiða til þess, að margur atvinnurekstur í landinu stöðvaðist eða drægi verulega úr honum. Það leiddi aftur til atvinnuleysis. Það hefur verið og er meðal þroskaðra verkalýðssamtaka víða um heim fullur skilningur á því, að verstu örlög, sem bíða verkalýðsins, eru þau, ef verðbólgan kemst út í slíkan algleyming, að það hefur í för með sér stöðvun eða stórkostlegan samdrátt atvinnulífsins, sem aftur leiðir til atvinnuleysis. Af þessum ástæðum, sem ég nú hef nefnt, get ég ekki lagt með því að frv. verði samþ. Mun ég óhikað segja það hvar sem er, ekki síður þar, sem fulltrúar verkalýðssamtakanna eru mættir, enda hef ég þegar rætt við fulltrúa íslenzkra verkalýðssamtaka og sagt hispurslaust mína skoðun í þessu efni. Þetta kemur að engu leyti til af því, að ég óski eftir, að kjör íslenzks verkalýðs verði rýrð. Þvert á móti. Ég vildi mega stuðla að því, að kjör verkalýðsins yrðu svo góð sem frekast væri hægt. En ég met alla málavexti á þá lund, að þegar til lengdar léti yrði verra fyrir verkalýð og launastéttir, að skrúfugangurinn hæfist á ný, sem mundi leiða til aukinnar verðbólgu og meira eða minna atvinnuleysis, heldur en þó er með því ástandi, sem nú ríkir í höfuðatriðum, þegar reynt er að halda uppi sem fyllstri og öruggastri vinnu og hafa kjörin svo góð sem frekast er unnt eftir öllum aðstæðum. Að þessu vill ríkisstj. styðja. Og einn liður í því er löggjöf sú, sem sett var um áramótin 1947–48. Það má hver maður, sem vill, leggja ríkisstj. til lasts, þótt hún ráði ekki við og geti ekki borgað niður allt það háa vöruverð á þeim innfluttu óhjákvæmilegu nauðsynjavörum, sem öðru hvoru orka nokkuð á vísitöluna og draga þá einnig úr kaupmætti launanna. Það verður áfram stefnt að því af þessari ríkisstj. að reyna að halda verðlaginu svo mikið niðri sem unnt er og með því móti reyna að skapa sem allra tryggasta og öruggasta atvinnu í landinu, tryggja það, að áfram verði haldið með framleiðsluna með sem fyllstu afli, til þess að við getum aflað okkur nauðsynja frá öðrum löndum.