11.03.1949
Efri deild: 74. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (3409)

155. mál, réttindi kvenna

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég tel það meginhlutverk Íslendinga að stuðla að því, að jöfnuður allra landsins barna verði sem allra mestur og allir þegnar þjóðfélagsins geti notað krafta sína og hæfileika. Með flutningi þessa frv. vil ég stuðla að því, að stigið verði stórt skref í þá átt, að konur geti notið sín til fullnustu, eins og þær hafa efni og hæfileika til. Ég geri mér góðar vonir um undirtektir hv. þm., því að Íslendingar hafa að jafnaði verið á undan öðrum þjóðum í að veita konum þau réttindi, sem þeim ber. Það hefur stundum kostað harða baráttu að fá þessi réttindi fram, en það hefur aldrei verið séð eftir því eftir á. — Ég vil nú rekja sögu þessara mála í örstuttum dráttum.

Það var fyrir tæpri öld, að stúlkur fengu jafnan erfðarétt við pilta, en höfðu aðeins haft hálfan erfðarétt til þess tíma. Þá er það næst að taka, að fyrir tæpum 70 árum höfðu konur engan kosningarrétt, en þá er þeirri breytingu komið á, að konur, sem veittu búi forstöðu og náð höfðu vissum aldri, fengu atkvæðisrétt um sveitarstjórnarmál. Þá gerist það næst, að fyrir 40 árum fengu allar konur rétt til að kjósa í sveitarstjórn. Sé athugað um menntun kvenna, sést, að nokkur merk skref hafa verið stigin af Alþ. í þeim efnum á undan öðrum þjóðum. Sú var tíðin, að konur höfðu ekki rétt til að ganga undir próf við hina æðri skóla og stunda þar nám, en 1886 kom sú tilskipun, að konur skuli hafa rétt til að ganga undir 4. bekkjarpróf í lærða skólanum í Reykjavík og hafa rétt til að stunda nám í læknaskólanum og að nokkru leyti í prestaskólanum, en þær höfðu þó ekki rétt til að nota þau réttindi, sem prestaskólapróf veitti, og er þar tekið fram, að þær skuli engan rétt hafa til námsstyrkja af opinberu fé. Þessi ákvæði voru í gildi til 1911, að Hannes Hafstein beitti sér fyrir því, að þau væru numin úr gildi og konur hefðu rétt til að stunda nám í öllum menntastofnunum og ganga þar undir próf og fá rétt til embætta og styrkja af opinberu fé. Þessi lög eru enn í gildi og þykir nú hjákátlegt að hafa í l. ákvæði um, að konur megi fá styrki, stunda nám, taka próf og öðlast réttindi til embætta. Er því full ástæða til að nema þau úr gildi og setja önnur í staðinn, sem fullnægja betur kröfum tímans. Það eru allir sammála um, að þessi lög hafi öll stefnt til góðs, og því ástæða til að láta þau standa og halda áfram á sömu braut. Nú segja sumir, að konur hafi jafnrétti við karla, en þó mun vera leitun á konu, sem viðurkennir, að svo sé, og allir réttsýnir karlmenn verða að viðurkenna, að þrátt fyrir ýmsar góðar réttarbætur sé enn alllangt í land, að konur njóti sömu réttinda og karlar. Því fer fjarri, að íslenzka konan hafi sömu aðstæður eða lögtryggðan rétt til að njóta sín á jafnréttisgrundvelli í atvinnulífi þjóðarinnar. Þar eru enn margar hömlur og gamlir fordómar, sem að vísu eru að smáþoka, en betra væri samt sem áður að flýta fyrir með lagasetningu. En þar sem skórinn kreppir allra mest að, er á hinu fjárhagslega sviði, en á því sviði hafa konur langt frá því jafnrétti við karla. Það kann sumum að finnast, að það sé ekki svo mikið. En það var ekki mikið annað, sem á skorti hjá Íslendingum í viðskiptunum við Dani en að okkur skort fjárhagslegt sjálfstæði, og er þeir höfðu fengið það, var eins og allt leystist hér úr læðingi. Á sama hátt er ég sannfærður um, að mörg öfl mundu losna úr læðingi hjá konunum, ef þær fengju fullt fjárhagslegt sjálfstæði. Danir áttu erfitt með að skilja, að þetta stæði okkur fyrir þrifum, og nú eru til karlmenn, sem skilja ekki, að þetta er nauðsynlegt fyrir kvenfólkið. Að vísu hefur mikið áunnizt í þessum efnum. Má t. d. nefna, að um 1890 var kaup karla um það bil 5 sinnum hærra en kaup kvenna. Því fer fjarri nú, að kaupmismunurinn sé svo mikill, og ég hygg, að megi slá því föstu, að enginn teldi rétt nú, að karlar hefðu fimmfalt kaup á við konur, og flestir munu slá því föstu, að þetta stefni í framfaraátt. En hvernig lítur þetta út nú? Það er alveg rétt, að á sumum sviðum hafa konur alveg sömu laun og karlar, og á þetta einkum við í hinum ábyrgðarmeiri stöðum. Það mundi enginn taka í mál, að kvenlæknir hefði lægri taxta en karllæknir. Sama er að segja um sýslumenn, þar mundi vera gengið út frá sömu launum, hvort sem um karl eða konu væri að ræða. Ég held líka, að ríkisféhirðir hafi sömu laun og fyrirrennari hennar hafði, sem var karlmaður. Þegar Alþ. gekk frá launal. síðast, virðist megintilgangurinn hafa verið, að konur nytu sömu launa hjá ríkinu og karlar, en þó er á einum stað mótsögn því að 16. launaflokkur er eingöngu fyrir konur, sem vinna að iðnaði, en þetta virðist vera einhver meinloka og gegn meginanda l. En þótt andi l. hafi verið þessi, hefur framkvæmdin orðið önnur, því að konur hafa verið ráðnar í lægstu launaflokkana, en karlar skipa hærri flokkana, og konur hafa ekki verið færðar upp eftir sömu reglum, og má líta á þetta sem lagabrot. Hjá ýmsum ríkisstofnunum er flokkur sá, sem nefnist 3. flokks skrifarar, nær eingöngu skipaður konum. Hér á Alþ. hafa forráðamenn þingsins greitt körlum og konum, sem eru þingritarar, sömu laun, en sama regla virðist gilda hér um hin lægra launuðu störf, að konur virðast aðallega skipa þau. Þegar komið er niður í anddyrið, hafa konur þær, sem þar annast fatageymslu, svo lág laun, að engum karlmanni mundi vera boðið slíkt, hversu vesall sem hann væri. Og þó að Alþ. hafi margt vel gert í þessum efnum, virðast forráðamenn þess enn haldnir af hinum gömlu hleypidómum. Hið sama virðist gilda hjá einkafyrirtækjum. Hinar færustu konur í vélritun og bókhaldi eru látnar hafa lægra kaup en karlar, sem eru þeim engu fremri á því sviði. Kynferði er látið ráða, en ekki hæfni. Ég er kunnugur vinnu karla og kvenna í hraðfrystihúsum og hef veitt því athygli, hvort karlar væru hæfari en konur. Mér virðast karlmenn vera hæfari til að vinna langan vinnudag, en konur séu hraðvirkari. En ef við athugum afköstin við innpökkun fisksins, þá eru konur stórum afkastameiri, og þegar á allt er litið á frystihúsum, er ekkert réttlæti í því, að karlar hafi stórum hærra kaup. Sama er að segja um aðra staði, t. d. skrifstofur, að erfitt er að sjá, að karlmenn hafi þar nokkra sérstaka yfirburði, og hið sama er að segja um afgreiðslu í verzlunum. En samt sem áður hafa karlar hærra kaup. Geti einhver bent mér á, að karlmenn séu hæfari við sum störf, skal ég óðara benda á, að konur séu hæfari við önnur, og ég sé því ekki, að það sé réttlætanlegt að greiða körlum hærra kaup. Sé litið á iðnaðinn, þar sem mest allt er unnið með vélum, en ekki með kröftum; verður ekki séð, að konur séu lélegri vinnukraftur. En hver er svo kaupgjaldsmismunurinn? Ég skal taka dæmi um það, sem ég þekki og skýrslur liggja fyrir um: Hæsta kaup karla í almennri daglaunavinnu er kr. 8.40 á klst., en hæsta kaup kvenna í almennri daglaunavinnu er hins vegar ekki nema kr.. 6,45 á klst. Mismunurinn er þarna, eins og menn sjá, kr. 1,95 á klst., eða fast að 20 kr. mismunur á 10 stunda vinnu. Þetta dregur sig saman yfir árið og getur orðið mörg þúsund krónur á ári, þegar unnar eru jafnmargar klukkustundir. Hér í Reykjavík er þessi mismunur á kaupi verkamanna og verkakvenna þó miklu meiri, eða fast að þremur krónum á klst., og nálgast því munurinn á kaupi verkamanns og verkakonu 30 kr. á 10 klst. Ef við lítum á heildina, hvernig þetta er í landinu að því er verkalýðsfélögin snertir, þá er hlutfallið, þar sem minnstu munar milli karla og kvenna, þannig, að konur hafa 75% af kaupi karla, en það er það bezta hlutfall, sem ég þekki til, en hins vegar stappar nærri því á einstöku stöðum í landinu, að kaup kvenna sé ekki nema 50–60% af kaupi karla. Í iðnaðinum hér í Rvík er kaup karla og kvenna mjög mismunandi, og alls staðar er mismunurinn á þá leið, að kaup karla er miklu hærra en kaup kvenna. Þannig hafa t. d. karlmenn í smjörlíkisgerðunum 1.800 kr. á mánuði, en stúlkur 1.080 kr. Ég hefði þó getað ímyndað mér, að konur gætu lært að búa til smjörlíki með svipuðum afköstum og karlar. Eftir samningum verksmiðjufólks eru byrjunarlaun karla kr. 945,00 á mánuði, en kvenna kr. 585,00. — Við matreiðslustörf, en við þau hafa konur fengizt á Íslandi frá alda öðli, svo að þar ættu þær ekki að vera vankunnandi, ef þær mennta sig á sama hátt og karlar, en samt er kaupmismunur sá, að karlar hafa frá 1.9502.437 kr. á mánuði, en hæsta kaup kvenna við matreiðslustörf mun vera um 1.100 kr. á mánuði, og algengt er, að kaup kvenna sé langt fyrir neðan það. — Klæðskerar í annarra þjónustu hafa um 2.000 kr. mánaðarlaun, en stúlkur, sem lokið hafa sveinsprófi í kápusaumi, hafa 1.050 kr. á mánuði. Mér er tjáð, og hef það fyrir satt þangað til annað kemur í ljós, að konur séu útilokaðar frá iðnréttindum í bókbindara- og prentarafélaginu, en konur fá þó að vinna að bókbands- og prentarastörfum, og er þá kaupgjaldsmismunurinn í þessum iðngreinum á þessa leið: Karlmenn við prentiðn hafa 501–534 kr. á viku, en byrjunarlaun kvenna við þau störf eru 108 kr. á viku. Eftir 5 ár er kaup kvenna komið upp í 309 kr. og eftir 10 ár upp í 360 kr. á viku. Ég get ekki ímyndað mér, að konur séu svo tornæmar við þau störf, sem í prentsmiðjum eru unnin, að þær geti ekki verið fullnuma eftir 4–5 ár, en þær fá þetta kaup ekki fyrr en eftir 10 ár, og við bókbindarastörfin eru þær ekki komnar á fullt kaup fyrr en eftir 12 ár, og þá fá þær 360 kr. á viku, en karlar byrja með 500 kr. á viku.

Ég gæti tekið miklu fleiri dæmi um þetta, en þetta ætti að nægja til að sýna, hvernig mismunurinn er gegnum gangandi um kaup karla og kvenna við ýmiss konar störf í þjóðfélaginu, skrifstofustörf, búðarstörf, iðnaðarstörf og hvar sem borið er niður. Ég hef hér í grg. getið eins furðulegs fyrirbrigðis að því er snertir kaup karla og kvenna, en það er við líksöng. Það er alkunna, að þegar flytja á mann til moldar, þykir hlýða að syngja og láta bæði karla og konur taka þátt í þeim söng. Mér er sagt, að karlmönnunum séu greiddar 50 kr. fyrir að syngja, en konunni 30 kr. Það er auðvitað ekki nema alveg í hlutfalli við önnur dæmi, sem ég nefndi, en dálítið er það þó hjákátlegt. Svipað mun hlutfallið vera, þegar yfirsetukona og læknir eru við þá athöfn saman að taka á móti barni, sem fæðist í heiminn, eins og þegar verið er að syngja til moldar, — þá mun vera svipað um hlutfallið milli kaupgjalds læknisins og ljósmóðurinnar.

Ég er sannfærður um það, að þessi gífurlegi munur á verðlagi vinnu karla og kvenna í þjóðfélaginu helgast fyrst og fremst af hefðbundnum vana. Það dettur engum í hug, að þessi munur sé löghelgað réttlæti eða nákvæmt mat. En viðurkenni menn þetta, þá ætti mönnum að vera ljúft að veita fylgi sitt til þess, að þessu verði breytt þannig, að báðum kynjum séu goldin laun fyrir framlag við vinnu og þjónustu í þjóðfélaginu í samræmi við það, sem rétt er. Ég hef slegið því föstu hér í þessu frv., að rétt sé að láta allt sérstakt kvennakaup niður falla og að algerlega verði greitt sama kaup körlum og konum. Þetta veldur aðeins því, að þar, sem vinnuafl kvenfólksins verður talið koma að eins góðum notum eða betri en vinnuafl karla, yrðu konur teknar til starfa, en við þau störf, þar sem karlar eru betri vinnukraftur, þá yrðu þeir teknir til starfa umfram konur, og það álít ég einu réttmætu ástæðuna til þess að ráða því, hvernig konur skipast í störf og hvernig karlmenn. Þetta er sums staðar orðað á þann hátt, að það beri að gjalda konunni sama kaup fyrir sömu vinnu, en ég sé ekki, að það hafi neinn kost í för með sér, því að val atvinnurekandans ætti að geta skorið úr um það, og konur yrðu þá aðeins teknar til starfa þar, sem þær afkasta eins miklu og karlar, og það tel ég eðlilegri grundvöll heldur en að fara að vega og meta, hvort kvenmaður komi að sama gagni og karlmaðurinn og gæti orðið úr því eintómur hráskinnaleikur.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, þá vil ég treysta því, að á sama hátt og Alþ. Íslendinga var á undan löggjafarsamkomum flestra annarra þjóða um að færa rétt kvenna til samræmis við rétt karla, þá vilji Alþ. nú einnig stíga lokaskrefið á þann hátt að gera rétt kvenna í þjóðfélaginu að öllu leyti jafnan rétti karla, í atvinnumálum, fjármálum, á sviði fjölskyldulífsins, rétt til náms og menntunar, rétt til embætta og sýslana og allra starfa í þjóðfélaginu og síðast, en ekki sízt, á fjárhagssviðinu. Á síðustu árum hafa Íslendingar og stigið það skref í samstarfi við aðrar þjóðir að vinna að því, að konum sé skapaður sami réttur í hvívetna og körlum. Þetta tel ég, að Íslendingar hafi tekizt á hendur með aðild sinni að Bandalagi sameinuðu þjóðanna. Það eitt með öðru tel ég benda á, að það sé sjálfsagt og rétt, að Alþ. samþykki frv. eins og þetta. Íslendingar hafa stigið mörg myndarleg skref í áttina til þess að jafna rétt karla og kvenna í þjóðfélaginu, og nú er ekkert annað eftir en að stíga lokaskrefið, sem leiði til algers jafnréttis karla og kvenna. Með því mundi verða skapað réttlátt og betra þjóðfélag. Ég er sannfærður um það, að á sama hátt og íslenzka þjóðin fór fyrst að taka verulegum framförum eftir að hún hafði öðlazt sitt fjárhagslega sjálfstæði, eins mundu kraftar kvenfólksins koma betur í ljós og leysast úr læðingi, ef löggjöfin veitti þeim algerlega fjárhagslegt sjálfstæði og jafnrétti á við karla á því sviði eins og öðrum.

Ég vil svo vona, að þetta frv. fái greiðan gang gegnum þingið og allir hv. alþm. veiti því brautargengi. Legg ég til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og félmn.