02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (3413)

155. mál, réttindi kvenna

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið til meðferðar í heilbr.- og félmn., en eins og segir í nál., hefur n. ekki orðið sammála um það. Minni hl. mun gera grein fyrir afstöðu sinni hér, en hann leggur til, að frv. verði samþ., en við í meiri hl. viljum vísa málinu frá með rökst. dagskrá. Nú er ég ekkert viss um, hvort sömu „mótiv“ eru fyrir þessu hjá okkur þremur í meiri hl., en við höfum komizt að sömu niðurstöðu. Hvað mig snertir, er ég ákveðið með því, að konur og karlar hafi sömu réttindi og skyldur, og tel að, að því beri að stefna ákveðið. En ég tel ekki mögulegt að leysa þetta mál með einu frv. eins og þessu, þar sem þessu er þannig varið nú, að stundum eru konur réttlægri, en stundum rétthærri. Ef t. d. kona verður prestur, eins og hún hefur heimild til, og giftist og deyr, þá á maðurinn ekki rétt til eftirlauna. En ef karlmaður verður prestur, giftist og deyr, þá á konan rétt til eftirlauna. Þarna eru konur því rétthærri, en karlmenn. Á öðrum sviðum eru þær aftur á móti réttlægri, t. d. varðandi sifjal. og l. um ríkisborgararétt. Ég álít því, að þetta mál snerti svo mörg önnur l., að ekki sé hægt að afgreiða það með einu frv. Það verður að breyta l. í hverju tilfelli. Ef t. d. kona giftist, fær hún ríkisborgararétt mannsins og heldur honum meðan hjónabandinu er ekki slitið. Maðurinn fær ekki ríkisborgararétt konunnar, heldur konan ríkisborgararétt mannsins, og maður og kona geta ekki haft sinn réttinn hvort. Þegar svo kemur fyrir, að kona giftist erlendum manni, er ekki hægt að veita henni ríkisborgararétt — þó að Alþ. hafi gert það — fyrr en hún hefur afsalað sér þeim ríkisborgararétti, sem maðurinn hefur. Þó að Alþ. samþ. að veita henni ríkisborgararétt, er það lögum samkvæmt ekki hægt, nema hún skilji við mann sinn eða losi sig á annan hátt við erlenda ríkisborgararéttinn. Ef um karlmann er að ræða, getur hann strax fengið ríkisborgararétt, og þarf ekki skilnað til þess. Á þessu sviði er því ekki jafnrétti. Ég vil, að svo sé, en í þessu frv. er ekki stafur um þetta, t. d. hvort taka ætti upp rétt eins og að hjón geti haft sitt hvorn ríkisborgararétt eins og í Englandi og Ameríku. Þetta er eitt dæmi, en þannig er það á fleiri sviðum. Það er heill hópur af l., er þyrfti að breyta, og það er ekki ætið svo, að réttur konunnar þurfi að vaxa, sums staðar er það gagnstætt. Ég hef farið yfir lagasafnið og hef 10–20 tilvitnanir, er sýna, að það er sitt á hvað, hvors réttur er meiri.

Vegna þess að frv. nær ekki því marki, sem því er ætlað, legg ég til, að því verði vísað til stj. með ákveðnum fyrirmælum um, að málið í heild verði rannsakað og athugað, hvað þurfi að gera til þess að jafnrétti skapist. Ég veit, að þessi stj. hefur í mörgum tilfellum kastað höndunum til þess, sem hún hefur átt að gera, eða ekki snert það, sem hún hefur þurft að gera eða að láta gera. Það kann því að virðast ósamræmi hjá mér að vilja vísa málinu til stj. En þess ber að gæta, að málið tilheyrir almennum mannréttindamálum og að forsrh., sem fer með þessi mál, telur sig til flokks, er mest talar um mannréttindi og gildi lýðræðisins. Þrátt fyrir vantraust mitt á stj. verð ég því að ætla, að hæstv. forsrh., er hefur jafnlipran og áhugasaman mann og Jónas Guðmundsson fyrir skrifstofustjóra, muni geta haft mannskap til þess að fela Jónasi Guðmundssyni að athuga málið og leggja fram frambærilegar till. um lausn þess fyrir næsta þing. Til þess ætlast ég. Ég er viss um, að skrifstofustjórinn mundi hafa gaman af því að leysa málið og leggja fram till. um það, og vænti þess, að við getum á næsta þingi fengið málið svo vel undirbúið, að sú niðurstaða náist, sem hv. flm. vill fá.