12.11.1948
Neðri deild: 16. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (3428)

56. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hefur því verið þannig háttað, frá því að sá siður var upp tekinn að reikna út vísitölu, að skattur hefur ekki verið tekinn til greina í þeim útreikningi, þannig að þótt skattar hafi hækkað, hefur ekki verið reiknað með því í vísitölunni. Þær skattahækkanir, sem orðið hafa undanfarin ár, hafa komið við einstaklingana í vaxandi mæli og einkum síðan laun manna almennt voru skert með festingu vísitölunnar; svo hafa útsvör hækkað mjög, og er nú svo komið, að óeðlilega hár hluti meðallauna fer nú í skatta og útsvör. Þegar svo ríkisstj. hefur hindrað, að menn fái uppbót á laun sín eftir vísitölu, þá er það sanngirniskrafa, að ríkið að sínu leyti reyni að draga nokkuð úr skattþyngslunum. Ég hef því ásamt hv. 11. landsk. lagt þetta frv. fram til þess að vita, hvort möguleikar væru á, að ákvæðin um persónufrádrátt yrðu endurskoðuð. En upphaflega hugsunin, sem lá honum að baki var sú, að hann skyldi samsvara tekjum þeim, sem nauðsynlegar teljast einstaklingunum til lífsviðurhalds.

Nú er það svo, að fyrir stríðið var miðað við 3.800 kr. í grunn fyrir 5 manna fjölskyldu, og með þeirri vísitölu, sem nú er reiknað með, nemur það um 12–13 þús. kr. En hins vegar er vitað af þeim mönnum, sem gerst mega vita, svo sem hagfræðingum, að vísitalan er mjög misvísandi — svo að ekki sé ríkar að orði kveðið — og ég hef séð útreikninga, er sýna það, að hún er nær því að vera 400 stig, ef tillit er tekið til raunverulegs verðs á húsaleigu t. d. Og þá er þó gengið út frá sams konar lífsafkomu og fyrir stríð, en við vitum, að þar er allur annar mælikvarði nú orðið. En þótt það væri ekki tekið með í reikninginn og aðeins miðað við 400 stiga vísitölu á þau grunnlaun sem reiknað er með nú, þá yrðu það þó 16 þús. kr. Með þessari till. mundi skattfrjáls persónufrádráttur nema 16 þús. kr. fyrir 5 manna fjölskyldu. Og ég þykist mega fullyrða, að þar er sanngjarnlega í hlutina farið. Ég tel hins vegar rétt að drepa á þá hlið þessa máls, að þegar hæstv. ríkisstj. hefur gert þær kröfur til einstaklinga, sem af því leiðir, að vísitalan er bundin við 300 stig, en með því er hverjum einstaklingi sagt, að nú verði hann að spara við sig nauðþurftir, — þá er ekki óeðlilegt, að einstaklingarnir geri þá kröfu, að ríkið spari svolítið líka. En nú er þvert á móti, — og það ástand hefur versnað síðan það hætti að þurfa samþykki fjmrh. til að ráða menn í þjónustu ríkisins, — að ríkið eykur stöðugt eyðslu sína. Það er því tímabært, að ríkisstj. sé áminnt um að spara nokkuð eyðslu sína eða þá að taka nokkuð af þeim gróða, sem ekki er snert við á ýmsum sviðum. Þá skal ég enn geta þess, að ég er ekki alveg viss um, að ég hefði borið þetta frv. strax fram, ef ég hefði ekki heyrt, að það stæði tæpt, að álit milliþn. í skattamálum kæmi fyrir þingið nú.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn. að loknum þessum umr.