25.11.1948
Efri deild: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (3438)

76. mál, jeppabifreiðar

Gísli Jónsson:

Ég vil mjög taka undir það, sem hæstv. ráðh. benti á, að það leiðir auðvitað út í ófæru, ef ætti að taka upp þann hátt að flytja sérstök frv. um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi hér á þingi, í stað þess að um þau mál verði fjallað í þeirri stofnun, sem fjalla á um þessi mál. Ég verð að segja það, að ég er undrandi yfir því, að slíkt frv. skuli hafa komið fram: Að vísu bendir það til þess, að menn séu ekki almennt ánægðir með ráðstafanir í þeim málum, en það er önnur hlið á málinu, og ber að sækja í aðrar áttir til leiðréttingar á því en hér er farið fram á, og mun ég því ekki treysta mér til að fylgja þessu máli eins og það er borið fram. En verði sú stefna tekin upp, þá vil ég leyfa mér að benda þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar, á það, að fyrir Alþ. liggur yfirlit um þetta sama mál frá sýslumanni Barðastrandarsýslu, og vænti ég, að hv. n. taki það til athugunar, ef hún ætlar sér að afgreiða málið. Hins vegar kom hér fram í sambandi við sams konar frv., sem mikið var rætt í sameinuðu þingi um daginn, vantraust á Búnaðarfélag Íslands um réttláta úthlutun á þessum bilum, og það heldur aldrei meiri vantraustsyfirlýsing komið fram á þá stofnun, en kemur fram hjá hv. 1. þm. N-M. í sambandi við þetta mál, þar sem hann treystir ekki þessari stofnun lengur til að úthluta þessum bílum, sem inn yrðu fluttir, og ber fram sérstakt frv. um, að bílar verði tryggðir til þeirrar starfsemi sérstaklega, sem heyrir undir þessa stofnun. Hygg ég, að það hefði verið kallaður kuldagjóstur frá minni hlið, ef ég hefði komið fram með svona till. til að lýsa vantrausti á þá stofnun, sem þessi hv. þm. starfar við.

Ég vildi svo í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. upplýsti í sambandi við dósirnar, aðeins gera stutta fyrirspurn um það, hvort honum er kunnugt um, að verið sé að vinna að því að fá tekna upp brezka samninga um það, að leyfilegt sé að flytja út dósir frá Bretlandi til Íslands á næsta ári, vegna þess að það var ekki tekið upp í samningana síðast. Ég ræddi um þetta m. a. við brezka matvælaráðuneytið í London í sumar, og þá var eina ástæðan fyrir því, að ekki var hægt að fá fluttar dósir frá Bretlandi til Íslands, talin sú, að það hefði ekki verið tekið upp í verzlunarsamninga. Að vísu tjáði skrifstofa ráðuneytisins mér, að það væri ekki alveg útilokað, að þetta fengist, en sagði ennfremur, að það væri ekki hægt að veita þetta, nema í framtíðinni yrði það tekið upp í samninga. Ég fékk því um þokað fyrir sérstaka aðstoð ákveðinna áhrifamanna, að leyfður var útflutningur ákveðinnar tölu niðursuðudósa frá Bretlandi til Íslands. En í heild töldu þeir sig ekki geta sinnt slíkum beiðnum, nema því aðeins að um þetta væri samið. Mér þætti líklegt, að ef hægt væri að taka þetta upp í samninga á næsta ári, væri hægt að fá nægar dósir frá Englandi í stað Ameríku.

Það er sjáanlegt, að þetta mál ætlar að verða svo margþætt, að það er orðið nú þegar landbúnaðarmál, samgöngumál, sjávarútvegsmál og heilbrigðis- og félagsmál eftir þeim umr., sem hér hafa farið fram. Þess vegna vildi ég gera það að minni till., ef þessu máli verður vísað til n., að það fari til hv. allshn., mér finnst það eigi helzt þar heima.