18.12.1948
Efri deild: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gísli Jónsson:

Ég vildi mega óska eftir því, að hæstv. forseti mæltist til þess að einhver af hæstv. ráðherrum væri hér viðstaddur þessa umræðu. (Forseti: Forseti á mjög bágt með það að ráða við það, hverjir eru við og hverjir ekki. En hann gæti náttúrlega frestað fundi, ef þess væri óskað.) Ég vil benda hæstv. forseta á, að ég er að óska eftir þessu af því, að ég tel það nauðsynlegt, að einhver ráðherranna sé hér viðstaddur. Vegna þess að hugað er að ljúka þessu máli hér í nótt og búizt er við því, að brtt. nái ekki fram að ganga, er mér nauðsynlegt að bera fram fyrirspurnir til ráðherra, sem mikilsvarðandi eru í sambandi við afgreiðslu málsins og ég óska eindregið eftir, að ráðherra svari hér í deildinni. Ég sé nú, að hæstv. fjmrh. er kominn, og get ég þá haldið áfram máli mínu.

Já, ég sagði, að ég hefði sérstaklega óskað eftir, að einhver úr hæstv. ríkisstj. væri hér viðstaddur, með tilvísun til þess, hvernig mál þetta ber að og hvernig með það hefur verið farið á s.l. sólarhring og hversu fljótt er ætlazt til, að það gangi í gegnum þessa hv. d. Ég mun því gera fyrirspurnir til hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál, sem ég teldi mikilsvarðandi, að svarað yrði á þann veg, að til bóta mætti vera fyrir málið í heild. Ég vil þá leyfa mér að benda á, að þetta mál er nú fyrst að koma fyrir þessa hv. d. rétt fyrir jólin, eftir að þing hefur setið á þriðja mánuð. Og þó er þetta ekki einasta aðalfrumvarp þingsins, sem öll þjóðin hefur beðið eftir með óþreyju og aðalatvinnuvegur þjóðarinnar veltur á, á næsta ári, heldur er hér um það mál að ræða, sem núverandi ríkisstj. hefur sérstaklega tekið að sér að leysa og hún í upphafi taldi sitt aðalverkefni að glíma við. Það er því í hæsta máta kynlegt, svo að ekki sé meira sagt, að búið skuli vera að ráða málinu til lykta, áður en það kemur til þessarar deildar og þar með útiloka allar breytingar, einkum þó þegar vitað er, að mikil] fjöldi þm. er mjög andvígur því, eins og það var samþ. í neðri deild. Umræður um málið í þessari hv. d. eru með öðrum orðum eingöngu til málamynda, en ekki til að sníða af því auðsýnilega agnúa, sem á því eru. Því vildi ég, að hæstv. sjútvmrh. væri hér viðstaddur umræðurnar, ef hann gæti mildað þessa agnúa eitthvað með yfirlýsingum hér í deildinni um framkvæmd laganna, er til kemur.

Fyrir tveimur árum, eða 28. des. 1946, voru sett hér lög nr. 97, þar sem í fyrsta sinn var farið inn á þá braut að ábyrgjast verð fyrir fisk á Íslandi, aðalútflutningsvöru landsmanna. Þá stóð líkt á og nú. Þá var málinu að miklu ráðið til lykta í hv. Nd. eins og nú. Þessi hv. deild fékk málið að kvöldi til og átti að afgreiða það á einni nóttu, rétt eins og nú. Var þá svo frá málinu gengið í Nd., að ábyrgðarverðið var ekki einasta ákveðið 65 aurar, heldur var þá og jafnframt fyrir harðfylgi Framsfl. tekið út úr frv. ákvæði, er tryggði, að ríkið bæri ekki þungann af ábyrgðinni, heldur útvegsmenn sjálfir, þ.e.a.s. síldarútvegsmenn. Einnig var þar þá sett inn í frv. ákvæði um að taka fulla ábyrgð á landbúnaðarvörum, sem út kynnu að verða fluttar árið 1947 á því verði, sem greitt yrði til bænda fyrir sömu vöru selda innanlands. Og hvort tveggja var þetta gert án þess að tryggja ríkinu nokkrar tekjur, er kæmu í móti. Allur ábyrgðarþunginn var þannig lagður á ríkissjóðinn án þess að tryggja tekjur á móti.

Sjálfstæðismenn hér á þingi bentu þá á, að hér væri verið að taka óheillastefnu, sem hlyti að leiða til greiðsluerfiðleika ríkissjóðs, ef frá henni væri ekki horfið. Urðu um þetta töluverð átök hér í hv. Ed. Ég beitti mér þá fyrir því, að ábyrgðin á útfluttu kjöti yrði felld niður, og náði það fram að ganga. Var mér eigi alllítið láð að ganga þannig í berhögg við hagsmuni bænda og því spáð, að bændur mundu muna mér það við næstu kosningar og endurgreiða mér þá frammistöðuna. Einnig var þá hér í hv. Ed. sett inn það skilyrði fyrir ábyrgð ríkissjóðs á fiskverðinu, að kúfurinn af síldarverðinu skyldi tekinn til að standa undir væntanlegum útgjöldum í þessu sambandi. Þá var því lýst yfir hér á Alþ. af sjálfstæðismönnum, að þessi lagasetning væri aðeins tilraun til að koma útgerðinni á stað í það sinn, en ætti ekki að endurtaka sig. En árið eftir tóku nýir menn við stjórn landsins, og nú hefur sagan ekki einasta endurtekið sig hvað snertir fiskverðið, heldur hefur verð gengið miklu lengra inn á þessa braut, þar sem nú hefur verið ákveðið, að einnig skuli veittar uppbætur fyrir útflutt kjöt, og engin trygging er lengur fyrir því, að sjómenn og útvegsmenn beri sjálfir þungann af ábyrgðinni á fiskverðinu, heldur lendir sá þungi allur á ríkinu. Og afleiðingin hefur orðið sú, að með útfluttu kjöti varð að greiða um 4 millj. kr. á síðasta ári, en allar ábyrgðir og uppbætur, sem ríkið varð að greiða vegna atvinnuveganna, voru um 70 millj. kr. Þessi óheillastefna, sem sjálfstæðismenn vöruðu við að ganga inn á 1946, hefur þannig eflzt í tíð núverandi hæstv. ríkisstj., þannig að nú er stefnt í hreina ófæru. Nú sannast það, sem við bentum á 1946, að ríkið getur ekki tekið þessa áhættu og að nauðsynlegt er að fara aðrar leiðir. Ég er ekki að ásaka hæstv. ríkisstj. með þessum orðum mínum, heldur er ég að benda á, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, hefði þurft að taka miklu fastari tökum og undirbúa það betur, en gert hefur verið. Og þó að frv. verði að lögum í nótt, er það skoðun mín, að ríkisstj. beri að taka þessi mál fljótlega til nýrrar yfirvegunar, því að þessi leikur verður tæplega leikinn 1949, nema eitthvert sérstakt happ komi til. Það er ég hárviss um.

Þegar lögin um dýrtíðarráðstafanir voru samþ. hér í fyrra, þá urðu afar hörð átök milli útgerðarmanna og ríkisstj., því að útvegsmönnum þótti þá eins og nú verðið of lágt. Þá var borið sáttarorð á milli á síðustu stundu. Meðal þeirra loforða, sem þá voru gefin, var loforð um aflatryggingasjóðinn, sem komið skyldi á með sérstakri löggjöf og sérstöku fjárframlagi. Nú spyr ég hæstv. fjmrh.: Hvað líður því máli? Standa vonir til þess, að lög um afla- og hlutatryggingasjóð sjómanna verði afgreidd á þessu þingi og þar með uppfyllt það loforð, sem gefið var útgerðarmönnum fyrir ári síðan. Það er ekki lítið atriði fyrir útgerðarmenn að fá að vita alveg ákveðið um, hvers þeir megi vænta um þetta mál, þar sem vitað er, að til-þess var ætlazt, að einmitt þessi væntanlegi sjóður yrði til þess að standast þau áföll, sem kæmu vegna aflaskorts, og að af þeim ástæðum þyrfti ekki að leita til ríkissjóðs til þess að fá eftirgjöf á rekstrarhalla, sem beinlínis stafaði af aflaskorti. Þeim er því mjög umhugað um að fá að vita, hvað líður þessu máli og hvort gengið verði þannig frá því, að þeir megi treysta því að þurfa ekki að gera fleiri göngur til Alþ. eða ríkisstj., þótt aflaskortur verði í framtíðinni, heldur geti sent sínar sjálfsögðu kröfur til þessa sjóðs, sem lofað var, að skyldi settur á stofn með ákveðnum sköttum í sambandi við dýrtíðarráðstafanir í fyrra. Göngur útgerðarmanna til ríkisstj. hafa engan veginn verið léttar, hvorki fyrir hæstv. ríkisstj. né útgerðarmenn, og kannske enn þyngri fyrir útgerðarmenn sjálfa. Ég vænti þess því, að hæstv. ráðherra sjái sér fært að lýsa því yfir hér við þessa umr., að strax og þing kemur saman aftur eftir jólafríið, verði þetta mál svo undirbúið, að það verði hægt að ganga frá því á þann hátt, sem lofað var, sem einum lið í því samkomulagi, sem gert var á síðasta ári.

Ég skal þá fara hér nokkrum orðum um sjálft frv., eins og það nú liggur fyrir, og benda á, að enn þá er ekkert samkomulag á milli hæstv. ríkisstj. og þeirra útgerðarmanna, sem aðallega eiga að búa við þessi lög. Það er miklu meira bil á milli þessara tveggja aðila nú en var á sama tíma í fyrra, þegar gengið var frá dýrtíðarlögunum, sem er m.a. vegna þess, að í viðbót við þann ótta, sem þá var hjá útgerðarmönnum um, að ekki væri hægt að reka útgerðina með því verði, sem ákveðið var í fyrra, er nú komin vissan fyrir því, að það er ekki hægt að gera það. Ég vil því vænta þess, að þrátt fyrir alla erfiðleika, sem hæstv. ríkisstj. á í sambandi við þetta mál, þá taki hún til athugunar kröfur og óskir þessara manna, þótt sumar þeirra hafi komið fram á elleftu stundu, og reyni að draga úr þeim verstu agnúum, sem nú eru á frv., ef ekki með breyt. á frv. hér, sem ég býst ekki við, að næðu fram að ganga, þá a.m.k. með yfirlýsingu um sérbætur í framkvæmd laganna, þar sem hæstv. ríkisstj. getur bætt fyrir hinum illa stöddu útgerðarmönnum, ef fé er til þess í dýrtíðarsjóði, því að það eitt gæti leyst þennan vanda, sem nú er framundan. Þá vil ég einnig benda á, að í 2. gr. frv. er nú ákveðið, eins og á tveim undanförnum árum, að greiða skuli kr. 1,33 fyrir hvert enskt pund af hraðfrystum fiski, sem fluttur er út. En það þykir, sem vonlegt er nú orðið, frystihúsunum allt of lágt. Þau eiga því ekki annars kost en annaðhvort að hætta starfrækslu eða að fá einhverjar breyt. á þessu verði, því að þau eiga enga sjóði lengur til þess að standa undir þeim rekstrarhalla, sem vitanlega kemur til með að leiða af verði því, sem skammtað er hér af hæstv. Alþ. og ríkisstj. Til stuðnings máli mínu vil ég leyfa mér að benda hæstv. ráðh. á, að verð á hráefninu til framleiðslunnar til frystihúsanna var árið 1944 45 aurar. En framleiðsluverðið var þá á hraðfrystum fiski 98 aurar fyrir hvert pund. Þá var fiskurinn frystur með þunnildum og afkoma frystihúsanna því sæmileg. Árið 1945 er fiskverðið enn 45 aurar. Þá er framleiðsluverðið 98 aurar. En þá var ekki leyft að hafa þunnildin með í frystingunni. Og það gerði þann mismun, að frystihúsin urðu þá fyrir töluverðum rekstrarhalla og urðu að taka af sjóðum sinum, sem þau áður höfðu safnað, til þess að mæta rekstrarhallanum. Það varð þó að samkomulagi, að þessu verði skyldi ekki raska á því ári, frystihúsin skyldu ekki hækka kröfur sínar það ár, í trausti þess, að þetta yrði lagað í framtíðinni. Árið 1947 var fiskverðið 65 aurar og þá 1,33 kr. ábyrgð á verði afurðanna.

Frystihúsin sýndu þá fram á það með rökum, að þau þyrftu þá að fá kr. 1,43 fyrir pundið til þess að geta haft sams konar rekstrarafkomu eins og þau höfðu reiknað með að þurfa að hafa árið áður, og sérstaklega miðað við árið 1944. Þetta vildi hæstv. Alþ. þá ekki fallast á og ákvað gegn mótmælum frystihúsaeigenda, að fiskútflutningsverðið skyldi vera kr. 1,33 fyrir pundið. Þetta var svo enn endurtekið á s.l. ári, þegar fiskverðið var einnig ákveðið 65 aurar fyrir kg. til frystihúsanna og fiskverðið til útflutnings kr. 1,33 fyrir enskt pund. Nú hafa þessir menn farið fram á, að fiskverðið verði ákveðið kr. 1,50 til útflutnings, enda sé það það lægsta, sem þeir treysti sér til að reka sín frystihús fyrir. Þau rök, sem þeir hafa fært fyrir þessu máli, eru fyrst og fremst þau, að þeir hafa á undanförnum árum verið af ríkisvaldinu og hæstv. Alþ. þvingaðir til að gera annað tveggja að hætta rekstrinum eða eyða sínum sjóðum, safna skuldum og komast í raun og veru í greiðsluþrot. Þess vegna er nú svo komið, að ekki minna en 80% af öllum frystihúsum á landinu, sem starfa eingöngu við fiskframleiðslu, eru komin í greiðsluþrot, eiga ekki orðið fyrir skuldum. Þetta er orðið svo alvarlegt mál, að þess er ekki að vænta, að menn, sem standa að þessum atvinnurekstri, geti tekið við slíkri jólagjöf eins og þeirri, sem hér er rétt að þeim frá hæstv. Alþ. og ríkisstj. — Önnur rök þeirra fyrir því, að þeir vilja fá hækkað ábyrgðarverðið úr kr. 1,33 upp í kr. 1,50, eru þau, að síðan rætt var um málið á Alþ. síðast, hafa umbúðir til frystihúsanna hækkað í verði sem svarar átta aurum á hvert kg. af fiski. Að vísu má segja, að móti þessu komi það, að vinnulaun hafa lækkað frá því, sem þá var, þar sem nú er greitt aðeins 300 ofan á grunnlaun vísitöluna 315 í stað 315 áður, og hefur það náttúrlega nokkur áhrif á starfrækslu frystihúsanna. En hinu er þá heldur ekki að neita, að í sumum frystihúsum hafa einnig orðið grunnkaupshækkanir. Það má kannske segja, að það sé þeirra sök. En það má þá kannske einnig skipta þeirri sök nokkuð á hæstv. ríkisstj., sem beinlínis tók að sér að sjá um, að verðlagið í landinu og dýrtíðin yxi ekki frá því, sem var, er stj. tók við völdum, enda hennar meginverkefni að sporna við hækkandi launum og vaxandi dýrtíð. En þótt reiknað sé með nokkurri kauphækkun þarna, þá vegur hinn aukni kostnaður vegna hækkunar á verði umbúða meira en sparast með þeim 15 stigum í vísitölunni, sem kaupið lækkaði um. Það er að vísu hægt enn, þrátt fyrir það að þetta frv. verði samþ., að bæta úr þessu með velvilja hæstv. ríkisstj., ef til þess er fé hjá ríkissjóði eða í dýrtíðarsjóði, eins og nú skal bent á.

Í 2. gr. frv. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Ákveða má með reglugerð, að greiða megi úr dýrtíðarsjóði hluta af geymslukostnaði hraðfrysts vetrarvertíðarfisks, sem fluttur er út eftir 1. ágúst, og tilsvarandi geymslukostnað vegna fisks, sem veiddur er á öðrum tíma.

Ábyrgð ríkissjóðs samkvæmt 1. mgr. skal einungis taka til fisks, er seldur verður til landa, er ríkisstj. ákveður með hliðsjón af markaðshorfum á hverjum tíma.“ — Ef hæstv. ríkisstj. treystir sér til þess að nota þessa heimild til hins ýtrasta og mæta hér erfiðleikum frystihúsanna með því að greiða fyrir þessa geymslu svo ríflega, að það geti eitthvað hjálpað þeim í rekstrinum, þá mundi það að sjálfsögðu mjög milda marga agnúa á frv. Ég vildi því vænta þess, að hæstv. sjútvmrh. vildi lýsa hér yfir, að hann vildi mæta þessu með velvilja og gera sitt ýtrasta til þess að bæta hér frystihúsunum upp á þennan hátt, sem hér er heimilað í 2. gr. frv., eftir að hann hefði fullvissað sig um það, að frystihúsin þyrftu þess með vegna rekstrar síns, svo framarlega sem fé er fyrir hendi til þessara útgjalda, annaðhvort í ríkissjóði eða í dýrtíðarsjóði. Í fullu trausti þess, að hæstv. ráðh. láti alveg sérstaklega rannsaka þessi mál, — því að það er ein af mótbárunum, og hefur komið fram hjá hæstv. ríkisstj., að þessi mál hafa ekki verið rannsökuð eins vel og rekstur bátaútvegsins, — og að þeirri rannsókn lokinni noti heimildina í lögunum, ef sýnt er að þess sé þörf, mun ég fylgja þessu frv. eins og það er þrátt fyrir þá galla, sem á því eru, svo framarlega sem yfirlýsing kemur hér fram af hálfu hæstv. ráðherra, eins og ég hef áður minnzt á.

Þá vil ég einnig benda á, að í 3. gr. frv. er nú ákveðið, að útflutningssöluverð á fullsöltuðum fiski verði kr. 2,25 fyrir kg. fob. Í þeim umr., sem fram hafa farið hér milli útvegsmanna og hæstv. ríkisstj., hafa engir umboðsmenn komið frá þeim útvegsmönnum, sem hér eiga hlut að máli, til þess að ræða um verð á saltfiski eða til þess að óska eftir hækkun á því. Ég veit ekki ástæðuna fyrir því, að svo hefur til tekizt. Þessir menn eiga þó sín samtök, og hygg ég að hæstv. sjútvmrh. sé í stjórn þeirra samtaka. Og mér er óskiljanlegt, að enn skuli ekki hafa komið fram rök fyrir því, að þetta verð fær ekki staðizt. Það er útilokað, að hægt sé að salta fisk á Íslandi, eins og nú er, fyrir þetta verð. Reynsla tveggja undanfarinna ára hefur sýnt, að jafnvel á engu öðru hefur verið eins mikill taprekstur eins og einmitt á saltfiskverkun. Fyrir fjvn. liggja nú kröfur frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda um að fá greiddar stórar fjárfúlgur úr ríkissjóði til þess að mæta því tapi, sem varð á útfluttum saltfiski árið 1947. Mér er sagt, að afkoman hjá þessum atvinnurekstri 1948 sé engan veginn skárri en árið 1947. Er þetta talið liggja að nokkru í því, hve mikið fiskurinn hafi rýrnað við geymslu. En það er einmitt ákvæði í þessari gr., sem heimilar að bæta úr ríkissjóði eða dýrtíðarsjóði tap, sem verður vegna rýrnunar fyrir langa geymslu á saltfiski. Fer það þá nokkuð eftir framkvæmd ríkisstj., hvernig þetta verður gert, hvort t.d. hér verði sýnd full sanngirni í þessu máli og raunverulegt tjón bætt eða hvort það verður greitt á þann hátt einan, sem ríkisstj. gott þykir, hvernig svo sem hagur útgerðarinnar kann að verða. — Þá er og önnur ástæða fyrir hinni lélegu afkomu hjá þessum atvinnuvegi, en það er reglugerðin, sem ákveður, hve mikið magn skuli reikna af nýjum fiski í skippund af saltfiski, og það er eingöngu á valdi ríkisstj. að bæta úr þessu atriði, og þarf ekki að setja ákvæði um það inn í lögin. Það er alveg á valdi hæstv. ráðh. að fyrirskipa, hversu mikið magn skuli áætlað af hráefni af nýjum fiski í eitt skippund af saltfiski. Áður fyrr var það almennt talið, að það þyrfti 600 kg. af fiski með haus og hala í 250 kg. af fullstöðnum fiski upp úr salti. Nú hefur, að mér skilst, þessum hlutföllum verið raskað með gilandi reglugerð til mikils hagræðis fyrir þá, sem salta fiskinn og fá aðeins ábyrgðarverð, en verða jafnframt að greiða hið lögbundna lágmarksverð, fyrir nýja fiskinn. Og það er að sjálfsögðu á valdi hæstv. ráðh. að láta rannsaka þetta og bæta hér um, ef það sýnir sig, að þess sé þörf.

Þessar tvær leiðir hefur ríkisstj. enn til lagfæringar á málum útvegsmanna, þó að frv. þetta verði samþ. óbreytt. Ég vil einnig leyfa mér að benda hæstv. ráðh. á, að því nauðsynlegra er að hlutast til um hag þeirra, er saltfisk hyggja að framleiða, sem meiri óvissa ríkir um afkomu frystihúsanna og möguleika þeirra til þess að starfa, og þá eigi síður þegar þess er minnzt, sem hæstv. ráðh. gaf upplýsingar um í sinni ræðu, að auðveldara væri í dag að selja saltfisk, en frystan fisk, enda þótt það væri ekki fyrir dollara eða sterlingspund. Ég hygg því, að það sé alveg óhjákvæmilegt, að hæstv. ríkisstj. taki þetta mál alveg sérstaklega til athugunar. Ég sé ekki, að það sé neinum vandkvæðum bundið fyrir hæstv. ríkisstj. að láta rannsaka þetta atriði nú þegar og gera á því nauðsynlegar umbætur.

Ég vil þá fara nokkrum orðum hér um 5. gr. frv., en hún var sett inn í það í hv. Nd. Á síðastliðinni nóttu sat meiri hl. fjhn. Nd. á fundum með hæstv. ríkisstj. og útgerðarmönnum og ræddi þá öll þessi mál. Varð þar að samkomulagi, að ákvæði skyldi sett inn í frv. um, að varið skyldi allt að 5 millj. kr. til þess að lækka kostnað við framleiðslu sjávarafurða. Ég var við þessar umr., ekki sem fjhn.- maður Ed., því að þar á ég ekki sæti, heldur sem sá þm. hér frá Ed., sem mest hef haft með þessi mál að gera m.a. verið form. í þeirri n., sein hæstv. ríkisstj. skipaði til þess að athuga þessi mál. Og mér er því kunnugt um,hvað um þetta var rætt á þessum fundi s.l. nótt. Hér í frv. er ekkert um það sagt, hvernig þessu fé skuli skipt milli bátaútvegsins annars vegar og frystihúsanna hins vegar. En ég vil leyfa mér að upplýsa, að lágmarksþörf bátanna var talin að vera 8 millj. kr., til þess að unnt væri að tryggja þeim hallalausan rekstur. Og með tilvísun til þess vænti ég, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að láta allar þessar 5 millj. kr. ganga til niðurgreiðslu kostnaðar við bátaútveginn til þess að tryggja hann fyrst um sinn, en geti eftir öðrum leiðum, sem ég hef minnzt á, greitt svo úr erfiðleikum frystihúsanna, að þau þurfi ekki að draga saman eða stöðva sína starfrækslu, heldur geti tekið á móti þeim fiski, sem að þeim berst. — Ég veit ekki, hvort hæstv. sjútvmrh. treystir sér til þess að lýsa yfir nokkru um þetta atriði. En það er afdráttarlaus ósk útvegsmanna, að þannig mætti þetta mál leysast, ef yfirleitt er hægt að koma nokkru samkomulagi á milli útvegsmanna og hæstv. ríkisstj. um framhaldandi rekstur, eftir að frv. það, sem hér er til umræðu, verður að lögum.

Ég benti á það í upphafi ræðu minnar, hvernig barizt hafði verið fyrir því á síðasta þingi, að sett voru inn ákvæði 6. gr. þessa frv. í dýrtíðarlöggjöfina 1947. Mig undrar nokkuð, að þessi gr. skuli enn vera í þessu frv. Mig undraði það, þegar hún var borin fram fyrir tveimur árum. Og mig undraði það enn meir, þegar hún var sett inn í lögin í fyrra, þegar vitað var, að laun allra launþega í landinu voru skorin niður um 15 stig eða jafnvel meira. En þetta var einasta stéttin í landinu, sem fékk þá bætt kjör sín frá því, sem áður hafði verið. Ég segi þetta ekki af neinni andúð gagnvart bændastéttinni. Síður en svo. Ég er alveg óhræddur að segja þetta, þó að þeir menn, sem sent hafa mig á þing, hafi af því stundarhagnað, að ákvæðið sé í lögunum. Ég hef aldrei orðið þess var, að ég geti ekki rætt við þá menn um sanngirnismál. Og það er í dag sanngirnismál, að þegar þarf að fara að fórna, þá sé ekki um það togstreita, að ein stétt leggi það á sig, en ekki önnur. Og þetta ákvæði er því undraverðara, þegar því er beinlínis lýst yfir af viðkomandi ráðh. í ríkisstj. eða ríkisstj. allri, að það sé ekkert fé ætlað í fjárlögum til þess að mæta þessum útgjöldum, hvorki úr ríkissjóði né dýrtíðarsjóði, vegna þess að ekkert kjöt þurfi að flytja út á árinu 1949. En hvers vegna er þá verið að hafa þessa gr. nú í frv.? Er það til þess að láta hana vera sem hnefahögg framan í þá menn, sem þurfa að berjast harðri baráttu til þess að halda uppi sinum atvinnuvegi og líta svo á — og það með fullum rétti, að fyrr beri að leysa þann vanda, sem fyrir er, en hinn, sem víst er talið, að aldrei verði fyrir dyrum? Ég fæ ekki skilið svona vinnubrögð. Þau hljóta að hefna sín, vegna þess að þau eru sýnilegt tákn þess, að á bak við liggur eitthvað annað en að leysa stórt vandamál, eins og hér er ætlazt til, að gert verði.

11. gr., sem áður var 10. gr., hefur verið orðuð um. Var það fyrir ábendingu frá mér, að hv. fjhn. breytti henni. Ég vil vænta þess, og vildi gjarna heyra það staðfest af hæstv. ráðh., að þegar eftir að þessi lög eru komin í gildi, verði snúið sér að því að rannsaka þetta atriði, að „endurskoða reglur um verðlag á viðgerðum á skipum, vélum, veiðarfærum og öðrum útgerðarvörum.“ Og ég vænti, að til þessa starfs verði valdir góðir og sanngjarnir menn.

Það hafa verið uppi mjög háværar raddir um það, að þetta verðlag væri allt of hátt. Og það er ekki að ófyrirsynju, eftir upplýsingum, sem komið hafa fram frá nefnd, sem falið var að athuga þessi mál, að þessi gr. hefur verið sett inn í þetta frv. En það væri einn þátturinn í að hjálpa útgerðarmönnum, ef hægt væri að laga þessi atriði.

Ég vil þá fara hér nokkrum orðum um Il. kafla frv. Það hefur nú verið rætt um það nokkuð af hálfu hv. 6. landsk. þm., að hér sé um endurgreiðslur til útvegsins að ræða. Ég skal ekki frekar fara inn á það atriði. En ég vil benda hæstv. ráðh. á, að það kemur fleirum en mér undarlega fyrir sjónir, að nýlega er búið að samþ. hér lög, sem áttu að tryggja ríkissjóði með forgangsrétti fyrir öllum öðrum skuldum bátanna 6 millj kr., sem hann tók að sér að greiða vegna áfallinna sjóveðskrafna. Ég held, að það hafi verið 16. des., þ.e. í fyrradag, sem það frv. var samþ. En nú, fáum dögum síðar, er verið að gefa þessar skuldir eftir. Og það er ekki einu sinni gerð tilraun til þess, að þessar skuldir séu gerðar að áhættuskuldum, sem ég þó hef minnzt á og hefði talið miklu sjálfsagðara og hyggilegra. Ég tel, að það hefði verið miklu réttara að gera allar þessar skuldir að áhættuskuldum, þannig að ef hagur útgerðarinnar batnaði, þá yrðu þær greiddar til aflatryggingasjóðs, en yrðu hins vegar látnar standa vaxtalausar, þar til útséð væri um það, hvort þær greiddust eða væru tapaðar að fullu. Og batni ekki hagur útvegsins frá því, sem nú er, þá er sá grundvöllur, sem verið er að leggja að öruggri starfrækslu hans, algerlega rangur og barátta hans þá jafnframt vonlaus, en það mun ekki vera tilætlunin með þessum ráðstöfunum. Ég álít því, að breyta ætti þessum kafla þannig að gefa ekki eftir skuldirnar, heldur gera ráð fyrir því, að þær greiddust, og láta það fé síðan renna til útgerðarinnar í aflatryggingasjóð. Það er ekki hægt að taka málið upp aftur, þegar búið er að ákveða 16 millj. kr. eftirgjöf, þá er of seint að breyta því ákvæði. Greiðsla skuldanna í aflatryggingasjóðinn kæmi að betra haldi síðar meir fyrir útgerðina, en að þessar fjárfúlgur séu strikaðar út í dag. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða frekar um þennan kafla frv.

Um III. kafla vil ég segja það, að mér sýnist það nokkuð einkennilegt, að á sama tíma og gefnar eru eftir 16 millj. kr. fyrir útveginn, er ákveðið að leggja 70 millj. kr. gjöld á landslýðinn til þess að standa undir rekstrargjöldum ríkisins vegna útgerðarinnar og dýrtíðarinnar, án þess að rekstur bátaflotans sé tryggður og útgerðarmenn hafi undirritað eða samþykkt slíka meðferð málanna. Þetta hefur þær afleiðingar, að þungur baggi mun lenda á útgerðinni. Það má að vísu teljast virðingarvert að gera tilraun til að bæta aðstöðu útvegsmanna og þar með útgerðarinnar, en það er því miður bersýnilegt, að hér hlýtur mikill þungi að lenda á útveginum sjálfum. Ef litið er á það, ofan á allt annað, sem steðjar að útgerðinni, þá eru vonir útgerðarmanna um áhættulausan rekstur ekki miklar. Ég er því undrandi, að hæstv. fjmrh. skyldi segja hér áðan, að með þessu frv. væri gerð tilraun til þess að forðast, að útvegurinn stöðvaðist. Ég vil fullvissa hæstv. ráðh. um það, að þær vonir hans hljóta að bregðast, nema greitt verði úr þeim vandræðum, sem ég benti á. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að lesa hér upp bréf, sem Alþ. hefur borizt frá útgerðarmönnum, þar sem þeir tjá alþm. skoðun sína á þessu frv., ef það verður samþ. í þeirri mynd, sem það nú liggur fyrir. Bréfið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér leyfum oss hér með að vísa til bréfs vors til hins háa Alþingis, dagsetts í gær, um óskir vorar í sambandi við framkomið frv. á Alþingi til l. um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna. Þar sem hið háa Alþingi hefur ekki séð sér fært að taka til greina nema að litlu leyti óskir útvegsmanna og hraðfrystihúsanna í sambandi við umrætt frv., sjáum vér oss ekki annað fært en að tilkynna hinu háa Alþingi, að frv., í þeirri mynd sem það er nú, tryggir á engan hátt, að útgerð vélbátaflotans og rekstur hraðfrystihúsanna geti hafizt, og hljóti því að leiða til stöðvunar þessara framleiðslutækja. Munum vér þess vegna kalla saman fulltrúaráðsfund útvegsmanna svo fljótt sem unnt er til þess að ganga endanlega frá afstöðu útvegsmanna og hraðfrystihúsaeigenda til frv.“ (SÁÓ: Þetta er verkfall.) Hv. 1. landsk. ætti manna sízt að minnast á verkföll, sem hefur lifað á verkföllum allt sitt líf, og þetta minnir að því leyti á söguna um kölska á fjósbitanum, sem sagt er, að hafi fitnað við hvert ljótt orð, sem haft var yfir í návist hans.

Ég á bágt með að trúa því, að hæstv. fjmrh. sé svo vongóður, að hann haldi, að útgerðin muni ekki stöðvast. Er málin eru rannsökuð niður í kjölinn, þá mun hæstv. ráðh. komast að raun um, að ekki sé unnt að reka áfram þennan atvinnuveg, nema honum komi frekari aðstoð, kannske með lánum út á ótrygg veð, í trausti þess, að er Alþingi kemur aftur saman á næsta ári, þá taki ríkissjóður á sig þær byrðar, sem af því kynni að leiða, að ekki er þegar skapaður traustur starfsgrundvöllur fyrir útgerðina, en þessi stefna virðist mér vera alveg röng. Það er ekkert bjargráð, þótt ríkið taki á sig að greiða vissar upphæðir vegna taprekstrar útgerðarinnar. Það greiðir á engan hátt úr vanda útgerðarinnar, að bankarnir verji fé sínu til útlána til þessa undirstöðuatvinnuvegar þjóðarinnar með þeim hætti. Verði þessari stefnu haldið áfram á Alþ., mun það leiða til nýrra kreppulána, einna kreppulánanna enn á Alþ. Ég vil enn einu sinni leyfa mér að benda á, ef hv. 1. landsk. kynni að kalla fram í fyrir mér, að nú er fyrirsjáanlegt, að 15 af gömlu togurunum verði lagt, sem hafa starfað með miklum árangri fyrir landið og ríkissjóðinn. Þessi skip hafa á undanförnum árum skapað 2 — 3 millj. kr. í gjaldeyri hvert um sig í útflutningsvörum. En nú er búið að binda sum þessara skipa og leggja þeim, en verið er að binda önnur við hlið þeirra. Sjóðir þeirrar útgerðar eru líka að verða upp étnir. Sjóðir þessir voru settir til hliðar með l. frá Alþ., en þeir eru nú þurrausnir, búnir og lánstraust bankanna líka búið, og er því viðbúið, að ríkið verði að taka á sig þann vanda að leysa einnig þeirra vandræði eða að útflutningsverðmætið minnki um 30 millj. kr. á ári sökum þess, að þessir togarar hafa enga möguleika til þess að sinna því hlutverki sínu að framleiða gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Hæstv. ráðh. mun vera kunnugt um það, að sterkar kröfur hafa borizt frá togaraútgerðinni að taka einnig ákvæði um aðstoð henni til handa inn í þetta frv. og að Alþ. gerði sitt til að leitast við að reyna að forða þeirri útgerð frá algerðri stöðvun. Ég hef ekki sótt fast, að sá háttur yrði upp tekinn, en vil leyfa mér að benda hæstv. ráðh. á þessa miklu hættu. Hæstv. ráðh. hefur byggt tekjur ríkisins til þess að standa straum af þessum málum með tilliti til 30. gr. frv. á því.

— og á því einu, að útflutningurinn minnki ekki. En ef sú von rennur út í sandinn og bregzt og útflutningur næsta árs verður undir 400 millj. kr., þá bregðast einnig tekjustofnar ríkisins. Það er því lífsskilyrði, að ef það á að vera hægt að ná inn þeim tekjum, sem 30. gr. frv. gerir ráð fyrir, er nauðsynlegt, að flotinn stöðvist ekki. Það kann að koma til kasta hv. 1. landsk. að glíma við þetta. En það er þá líka rétt, að ég minni hann á það, að ekki var Alþýðusambandið fyrr komið í hendur Alþfl. en þeir komu því til leiðar, að grunnkaup var hækkað á Suðurnesjum um 15 aura á klst., og þetta eina atriði skapaði meiri erfiðleika til samkomulags um þessi mál en margt annað. Mér er vel kunnugt um þá erfiðleika, sem af því mundu stafa, ef enn á nú að fara að hlaupa til og hækka laun manna í landinu. Mér er vel ljóst, hverjar afleiðingar það mundi hafa fyrir útgerðina og atvinnulíf landsmanna yfirleitt. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það í þessu sambandi, að þær 70 milljónir, sem hann talaði um áðan, sem munu nú vera 75 samkvæmt útreikningi, að af þessari upphæð eru útveginum ætlaðar 25 milljónir. Nú er mér ljóst, að útvegsmenn áttu hugmyndina að hinu tvöfalda gengi á afurðum, og jafnframt, að þetta var hugsað til þess eingöngu að bæta hag útgerðarinnar, en ekki til þess að standa undir öðrum gjöldum, sem snerta þeirra eigin rekstur, en nú hafa þessar nýju tekjur verið ætlaðar til þess að 2/3 að standa undir öðrum útgjöldum, en aðeins 1/3 undir sjávarútveginum. Er engin von til þess, að útgerðarmenn uni því, um leið og hagur þeirra er ekki bættur sem skyldi. Dýrtíðin snertir að vísu sjómenn og sjávarútveginn sem aðra, en hún er ekkert sérmál útvegsins, og má þungi hennar því ekki hvíla mest á hennar herðum.

Ég er sammála þeim hluta ríkisstj., sem ekki vildi fallast á, að tekið verði upp svonefnt tvöfalt gengi. Það atriði eða sú leið var gaumgæfilega athuguð, er málið var rætt í fjhn. Nd., og var talin leiða út í hreina ófæru. Það mundi hafa leitt af sér mjög fljótlega algera gengisbreytingu og þá eðlilegra að fara hreinlega þá leið nú þegar. Gert var ráð fyrir að taka um 80 milljónir af útflutningsframleiðslunni, sem greiðast ætti með hærra verði, en við töldum ekki hægt að taka 20% af útflutningsframleiðslu landsmanna og selja hana með tvöföldu verði. Það hefði verið rask, sem reyndist ófært. Hitt er annað mál, hvaða úrbætur ætti að hafa. Mín skoðun er sú, að um 3–4 leiðir sé að ræða til að bæta úr ástandinu:

I. Verðstöðvun. Hún hefur ekki tekizt og mun vart takast, nema gerðar verði sérstakar ráðstafanir fram yfir það, sem hér er gert í þessu frv.

II. Verðhjöðnun. Sú aðferð mundi hafa í för með sér svo stórkostlegt fjárhagslegt hrun, að allt fjármálakerfi þjóðarinnar mundi fara úr skorðum, svo framarlega sem verðhjöðnunin yrði það mikil, að hún ein dygði til þess að atvinnuvegirnir gætu stuðningslaust staðið undir kostnaðinum.

III. Gengisfall. ríkisstj. og þjóðin kallar yfir sig gengisfall, ef ekki verður snúið við af þessari braut, sem farin hefur verið undanfarið. Þegar dýrtíðarlögin voru til umræðu 1946, benti ég á, að ríkissjóður hefði enga aðra möguleika en gengisfall til þess að komast hjá að greiða ábyrgðarverðið, ef varan seldist ekki á því verði. Enn þá hefur verið farin sú leið að taka mismuninn af þjóðinni í sköttum, en þessi leið er nú að lokast, og stendur þá gengisfallið fyrir dyrum, ef ekkert er aðhafzt, enda flýtir það hröðum skrefum fyrir því að lögfesta tvenns konar gengi í landinu, eins og ætlazt er til með þessu frv.

Meiri vinna fyrir sömu laun. Það er sú leið, sem ég tel færasta, að halda uppi föstum launum og afkastameiri vinnu. En það virðist þjóðin því miður ekki vilja. Það er eina færa leiðin til að halda atvinnulífinu gangandi að minnka rekstrarkostnaðinn, en reyna um leið að halda uppi viðunandi launakjörum fyrir fólkið í landinu. En til þess að vel vegni, verður fólkið að leggja eitthvað meira á sig. Í stað þess að vinna 51/2 klst. á dag, eiga menn að vinna 10 klst. daglega. — Og ef satt skal segja, hefur enginn gott af minni vinnu. Það kann vel að vera, að mönnum finnst þetta vera kjaraskerðing, en svo er þó ekki, ef það er athugað nánar. Þessi leið mundi hækka verðmæti peninganna, skapa meiri ánægju meðal almennings og halda uppi þeim lífskjörum, sem þjóðin hefur kosið sér og hvorki vill né á að hverfa frá aftur, en henni ber að fórna vinnu fyrir, ef hún vill, að öllum vegni vel.