25.11.1948
Efri deild: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (3443)

76. mál, jeppabifreiðar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég tek aftur till. um allshn. Það er ákaflega eðlilegt, að málið fari til hv. fjhn., ef það fer í n. á annað borð.

Ég stóð aðallega upp til þess að gera grein fyrir því hér, af því að mér skildist það koma fram í ræðu hæstv. ráðh., að ég hefði borið ásökun á ríkisstj., að það hefði ekki verið tekið upp í samningana atriði, sem ég nefndi áðan, um dósir og efni í þær. (Samgmrh.: Ég var bara að svara fyrirspurninni. ) Ég tók það aðeins fram, að reynt skyldi að taka þetta upp í samninginn. Það lá ekki í minni fyrirspurn nokkur ásökun til hæstv. ríkisstj. eða til þeirra manna, sem um það mál hafa fjallað. En ég gat þess aðeins af því, eins og ég sagði áðan, að ég hafði átt tal um þetta við matvælaráðuneytið brezka, sem taldi sig ekki geta leyft nú útflutning á dósum, sem ættu að vera utan um þær vörur, sem ætti að flytja til Englands.

En það var annað atriði, sem mig langaði til að spyrja hæstv. ráðh. um — í sambandi við þær upplýsingar, sem hann gaf um innflutning á bifreiðum, sem hann sagði, að hefðu verið fluttar inn vegna þess, að þær hefðu verið greiddar áður af því fé, sem viðkomandi aðilar hefðu annaðhvort fengið yfirfært eða aflað á annan löglegan hátt, hvort slík greiðsla muni hafa farið fram að einhverjum hluta eða að öllu leyti með umboðslaunum, sem fyrirtæki eða einstakir menn eignast úti og hafa ekki flutt inn í landið. Og vil ég í sambandi við þessa fyrirspurn mína minna á, að það var upplýst í Sþ. nýlega, að Samband ísl. samvinnufélaga hefði ekki skilað sínum umboðslaunum á annan hátt en að skila innflutningsleyfum fyrir innflutningi, sem það hefur fengið. Nú væri ákaflega fróðlegt að fá að vita, hvort S.Í.S., sem mun vera stærsti bifreiðainnflytjandi, hefði fengið leyfi til þess að nota þetta fé til greiðslu á bifreiðum á þennan hátt. Það er þegar upplýst, að S.Í.S. hefur ekki skilað sínum umboðslaunum og hefur notað þau sumpart til þess að standa undir skrifstofukostnaði erlendis og sumpart til þess að greiða vörur frá útlöndum. Mér finnst sjálfsagt, ef slíkir peningar hafa verið notaðir til greiðslu á bifreiðum, þá sé látin falla niður endurnýjun, því að slíkt ætti ekki að sitja fyrir öðrum innflutningi. Ég hef haft með gjaldeyri að gera vegna fisksölu erlendis, og ef það er rétt, að þetta hafi átt sér stað, að ekki hafi verið skilað slíkum gjaldeyri, þá er þar gefið fordæmi, sem kannske mætti ætla, að aðrir vildu fara eftir. Hins vegar hefur mér ekki fundizt nema sjálfsagt, að þessum gjaldeyri væri skilað til bankanna hér, en það er þá engin sanngirni í því, að aðrir komist upp með það að kaupa vörur fyrir sig fyrir þess konar gjaldeyri.