26.11.1948
Efri deild: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (3446)

76. mál, jeppabifreiðar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vildi gjarna, að hæstv. viðskmrh. mætti hér í d., ef hann er í Nd. og sér sér fært. Vildi ekki einhver segja honum þetta? — Ekki við. Jæja, jú, þarna er hann.

Í sambandi við ummæli þau, er hér voru í gær látin falla um bíla, þá segir hæstv. viðskmrh. þau ósönn og stj. hafi aldrei haft nein afskipti af úthlutuninni, nema fyrir skömmu hefði farið listi yfir 6 menn frá stjórninni upp í viðskiptanefnd, sem stjórnin hefði óskað eftir, að fengju innflutningsleyfi hjá nefndinni. Þá er ég heyrði þetta, hugsaði ég: Ljótur er nú bærinn, og góð er nú stj. Síðan fer ég til starfa í sparnaðarnefndinni, en sú n. á að gera tillögur um sparnað í ríkisrekstrinum. Hefur hún sent frá sér nokkrar till. um notkun bíla og m. a. lagt til, að hæstiréttur hefði eigi lengur bíl. En á fundi, sem n. hélt í gær, var lagt fram bréf frá hæstarétti, þar sem hann skýrir frá því, að nefndin muni ekki hafa kynnt sér allar aðstæður, en býst við, að hún hafi séð, að rekstrarkostnaðurinn við bíl réttarins væri óvenjulega hár. Hann kveður í þessu bréfi, að þetta stafi af því, að þeir hafi haft gamlan Buick-bílgarm. En í aprílmánuði s. l. hafi þeir fengið nýjan bíl fyrir atbeina ríkisstjórnarinnar, og sé nú kostnaðurinn um 5 þús. kr. Er ég frétti tíðindi þessi, hugsaði ég með mér, að þá hefði þó alltaf verið um fleiri bíla að ræða, sem ríkisstjórnin hefði hlutazt til um innflutning á, en þessa 6. Hæstv. ráðh. hefur því farið með ósannindi. Hann tók munninn fullan, þegar hann kvað orðróminn í bænum hafa við ekkert að styðjast. Ég vænti því, að hæstv. ráðh. komi auga á þetta. Mætti svo fara, að stj. hefði verið viðriðin fleiri bíla en hæstaréttarbílinn, og ég veit með vissu, að svo er.