03.02.1949
Efri deild: 53. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (3452)

76. mál, jeppabifreiðar

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið athugað af fjhn., og varð sú niðurstaðan hjá n., að hún treystist ekki til og sá ekki ástæðu til, eins og nú standa sakir, að fara að ívilna nokkrum jeppabeiðendum fram yfir aðra. Sérstaklega þótti henni ekki ástæða til þessa nú, þegar fram er komið í Nd. frv. um innflutning og úthlutun jeppa til landbúnaðarþarfa, sem hefur það fylgi, að það mun komast í gegnum þá hv. deild og þessa hv. deild lítið breytt eða óbreytt, og verður þar með komið skipulagi á úthlutun jeppabifreiða í þarfir bænda og landbúnaðarins yfirleitt, stofnana hans og starfsmanna. Því var n. alveg sammála um, að ekki bæri að afgreiða þetta frv. eins og það lá fyrir. Frv. það um jeppainnflutning, sem ég nefndi áðan, að væri í Nd., kom fram síðar en þetta frv. hér, og geri ég ráð fyrir, að þetta frv. hefði aldrei verið látið koma fram, ef hitt hefði verið komið fram á undan. Það skal ég þó ekki fullyrða um. En sem sagt þótti n. réttast að leggja til, að frv, væri vísað frá með svo hljóðandi rökst. dagskrá:

„Í trausti þess, að stofnanir þær, sem frv. ræðir um, fái réttláta afgreiðslu, er úthlutun jeppabifreiða til landbúnaðarþarfa fer fram, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Við sem sagt treystum því, að við úthlutun jeppanna verði, er þar að kemur, tekið hæfilegt tillit til þarfa þeirra aðila, er frv, þetta ræðir um, nautgriparæktarsambanda í Eyjafirði, Borgarfirði, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum og loks rannsóknarstöðvarinnar á Keldum, án þess að við nm. tækjum nokkra afstöðu til þessa máls. Við vorum allir 5 sammála um þessa afgreiðslu málsins, og er hún ekki í óþökk flytjanda þess, hygg ég, eins og viðhorfið er í þessum málum.