03.02.1949
Efri deild: 53. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (3453)

76. mál, jeppabifreiðar

Páll Zóphóníasson: Ég gat þess, er ég lagði þetta frv. fram, að ég gæti hugsað mér tvenns konar afgreiðslu á því. Í fyrsta lagi, að bílarnir væru fluttir inn til þessara stofnana, sem hér um ræðir, eða í öðru lagi, að því væri lýst yfir, að stofnanir þessar fengju hlutdeild í eða forgangsrétt að jeppum, þegar að innflutningi þeirra kæmi. Ég get nú eftir atvikum sætt mig við afgreiðslu hv. fjhn. En ég bendi þó á, að með öllu er óvíst, hve margir jeppar verða fluttir til landsins, þótt frv. það verði að lögum, sem nú er komið fram í Nd., um jeppainnflutning. Ég held, að það hafi orðið að samkomulagi þar, m. a. milli viðskmrh. og n., að innflutningurinn færi eftir því, hvað gjaldeyririnn tilléti. Nú virðist mér eftir innflutningsáætlun fjárhagsráðs að dæma, að ekki rúmist nema hátt á annað hundrað jeppar á henni, og ekki nærri svo margir, ef þeir eru fluttir inn frá Englandi. Þar kosta slíkir bílar um 13–14 þús. kr. íslenzkar í innkaupi, en ekki nema um 4.000 krónur íslenzkar í innkaupi frá Ameríku, því að þar hefur verð á þeim lækkað. Eins og áætlun fjárhagsráðs er, virðist mér þetta líta svona út, en ekki er búið að ganga frá henni alveg endanlega. En varðandi þann takmarkaða jeppainnflutning, sem rúmast á áætluninni, kemur og annað til greina, og það eru þau leyfi fyrir jeppum, sem nýbyggingarráð veitti á sínum tíma og menn ganga enn með upp á vasann. Það eru 91 eða 93 leyfi, þótt sumir af þessum mönnum séu nú búnir að fá bíla, og um tvo veit ég með vissu, að þeir eru látnir. Nú er spurningin með þessi leyfi, hvort þau verða látin gilda nú, ef farið verður að flytja inn jeppa. Ég fyrir mitt leyti tel dálítið vafasamt, að þau eigi að vera í gildi. En verði þessum leyfum dæmdur forgangsréttur, þá eru eftir um 100 bílar, sem rúmast á innflutningsáætlun fjárhagsráðs, og verði frv. það, sem er í Nd., samþ. óbreytt, eiga 25 bílar á móti hverjum einum að fara beint til bænda, og verður þá æði þröngt fyrir dyrum með að fullnægja þörf þeirra stofnana, sem ég ber hér fyrir brjósti. En þó geri ég þetta ekki að ágreiningsatriði, í von um, að úr rætist með einhverjum hætti, annaðhvort með því, að hlutfallið 1:25 verði rýmkað, eða að gömlu leyfin verði ekki látin hafa forgangsrétt. Og loks gæti greiðzt úr þessu á þann hátt, að fleiri jeppar yrðu fluttir inn en mér sýnast nú rúmast á áætlun fjárhagsráðs. Ég sætti mig því við afgreiðslu fjhn. á þessu máli eftir atvikum, en ég treysti því, að þörfum þessara stofnana, sem nefndar eru í frv. mínu, verði fullnægt strax og hægt er að flytja inn þessa bíla. Allt eru þetta þjóðþrifastofnanir, sem eiga tvímælalaust að ganga fyrir einstökum mönnum.