10.12.1948
Neðri deild: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (3457)

97. mál, almannatryggingar

Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Eins og hv. þm. sjá, þá er þetta ekki fyrirferðarmikið frv., en ég vildi þó skýra tilgang þess og tilefni með örfáum orðum. Í l. um almannatryggingar er talað um frádrátt frá elli- og örorkulífeyri á tveim stöðum. Í fyrsta lagi í 13. gr., þar sem segir, að „þeir, sem við gildistöku laga þessara njóta lífeyris eða eftirlauna af opinberu fé eða úr opinberum sjóðum, er sé að minnsta kosti jafnmikill og lífeyrir skv. 15. gr., eiga ekki rétt á ellilífeyri. Ef ellilífeyrir eða eftirlaun ná eigi þeirri fjárhæð, á hlutaðeigandi rétt á því, að Tryggingastofnunin greiði það; sem á vantar, enda hafi hann náð tilskildum aldri.“ Nánari reglur eru svo í ákvæðum til bráðabirgða um þennan frádrátt frá tekjum almennt, en þar segir, að umframtekjur skuli dragast frá lífeyri að helmingi, þangað til þreföldum lífeyri er náð. Þá skal enginn lífeyrir greiddur. Við flm. lítum svo á, að ákvæðin um frádrátt frá lífeyri eigi að vera á einum stað og það hafi ekki neina þýðingu, hvernig teknanna er aflað, hvort heldur um er að ræða heiðurslaun eða eftirlaun o. s. frv., heldur sé það aðalatriðið, að elli- og örorkubæturnar komi því aðeins, að viðkomandi sé í þörf fyrir þær. Ef menn eru starfhæfir eða efnaðir eða hafa há eftirlaun, þá er ekki ástæða til að greiða þeim elli- og örorkulífeyri. En þegar maður athugar bráðabirgðaákvæðin, þá sér maður, að þar er ákaflega smálega í sakirnar farið, þar sem elli- og örorkubæturnar eru 100 krónur í grunn á mánuði, og sjá allir, að enginn getur lifað af því einvörðungu, þegar dýrtíð fer vaxandi. Nú hefur okkur flm. sýnzt, að varla væri hægt að segja, að maður hafi nægar tekjur til lífsviðurværis, ef hann hefur minna en 500 krónur í grunn á mánuði, og fyrr en tekjur hans væru komnar yfir það mark, væri ekki rétt að svipta hann lífeyri. Krónutalan er auðvitað matsatriði, og má þar um deila, en það verður væntanlega athugað við umr. og í n. Að lokum vil ég geta þess, að á fjárlögum eru jafnan allmargir menn, sem fengið hafa örlítil heiðurslaun fyrir langa þjónustu í almennings þágu, en vilji þessir menn njóta elli- og örorkustyrks samkvæmt núgildandi l., eru þeir algerlega sviptir þessum launum. Ég óska þess svo að lokum, að frv. verði vísað til 2. umr. og n.