14.02.1949
Neðri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (3464)

97. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um ummæli hv. flm. Ég gat þess greinilega, í hverju breytingarnar væru fólgnar. Hv. n. taldi þær ekki ósanngjarnar. En ég vil benda á, að fjölda ákvæða í l. þarf að athuga. Á Alþ. hafa verið gerðar tilraunir til, að ýmsum ákvæðum verði beitt, þeim er frestað hefur verið. En fallizt var á að bíða með þetta, þar til endurskoðun l. er lokið, en henni mun í orði kveðnu verða lokið í lok þessa árs. — Varðandi 18. gr. fjárl. er það svo, að ég fullyrði ekkert um heiðurslaunin, hvort fólk það, sem þeirra nýtur nú, eigi þau skilið fremur en aðrir. Menn geta komizt þarna inn vegna dugnaðar aðstandenda og vina. Mætti nefna menn, er ættu heima á 18. gr., en hafa aldrei verið skráðir þar. Það er því ekki hægt að tala um misrétti varðandi þær sakir. En hart er það aðgöngu fyrir uppgjafaekkjur, að sumar þeirra fá ekkert úr tryggingunum, þó að þær hafi greitt til Tryggingastofnunarinnar. Þetta verður þó tekið til athugunar og ráðin bót á því, sem ábótavant þykir. Rétt er hjá hv. flm., að varðandi 18. gr., var samið svo um við hæstv. ríkisstj., þegar l. voru sett árið 1946, að ákvæðin skyldu standa í 5 ár. En ég fer ekki fleiri orðum um þetta mál. Ég held, að hin rökstudda dagskrá sé í anda l., og má vel bíða eftir endurskoðun þeirra.