08.11.1948
Efri deild: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (3469)

52. mál, fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Flm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af mér og hv. 1. þm. N-M. Það er ekki nýtt hér á þingi. Það var flutt á síðasta þingi í sama formi og það er nú, og þarf ég ekki að rekja ástæður þess. Ég get að vísu getið þess til skýringar, að frv. er flutt að beiðni hafnarn. og hreppsn. Hafnarhrepps, sem telja að hreppsbúum og öllum Austfirðingum sé það mjög mikils virði, og röksemdir fyrir því eru vitanlega þær sömu og áður, í fyrsta lagi, að Hornafjörður er sá staður, sem auðveldast er að sækja frá á beztu mið Austurlands, einkum á vetrarvertíð. Það má þó geta þess, að það er nokkurn veginn víst, að fiskur er þar oftar en á vetrarvertíð, t. d. hafa nú í haust fiskað dálítið þeir bátar, sem þar eiga heima, þó að aðstaða sé þar slæm til að taka á móti afla. Hér er um að ræða aðalverstöð heils fjórðungs, og ætti það að vera næg sönnun þess, að hér er um nauðsynjamál að ræða, ekki sízt þegar þess er gætt, að á síðustu árum hefur skipafloti landsmanna aukizt verulega, en þá er nauðsynlegt að bæta hafnarskilyrði sem víðast, svo að takast megi að hafa fullt gagn af þessum veiðiskipaflota. Enn fremur er eitt atriði í þessu sambandi, en það er hagnýting fiskimiðanna, þar sem það er viðurkennt, að þar sem búið er að auka veiðiskipaflotann svo mjög, þá getur svo farið, að ýmis góð fiskimið verði upp urin, svo að fiskistofninn útrýmist á þeim slóðum. Hingað til hefur það verið svo, að mikið af vélbátaflotanum hefur stundað veiðar í Faxaflóa með þeim hætti, að slíkt hefur verið um of. Það er því ástæða til að tryggja, að vélbátar geti stundað veiðar á sem flestum fiskimiðum, en það geta þeir ekki, nema þeir hafi sem víðast ekki aðeins nauðsynleg hafnarskilyrði, heldur einnig aðstöðu til að nýta aflann.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.