14.03.1949
Efri deild: 77. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (3487)

75. mál, stjórnarskipunarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig furðar mjög á því, að meiri hl. n. skuli ekki hafa komið auga á það, að þetta atriði er allt annars eðlis en öll önnur atriði varðandi stjskr. Hér er um það að ræða, á hvern hátt stjskr. skuli breytt, og þess vegna á þetta ekkert erindi til n., sem endurskoðar stjskr. Fyrst er að gera sér það ljóst, þegar þetta er rætt, hvort haga skuli breyt. á stjskr. eins og nú er gert eða hvort fela skuli sérstöku stjórnlagaþingi að breyta henni. Allir eru sammála um það að gera stjskr. hærra undir höfði, en öðrum l., og þess vegna er reynt að tryggja það, að hún sé meira í samræmi við vilja fólksins en önnur l. Eins og nú er, eru breyt. á stjskr. samþ. tvisvar og þurfa að samþykkjast óbreyttar í seinna skiptið, en á milli hafa kjósendur kosið um stjskr. og um leið þm. til fjögurra ára. Þetta gerir, að þeir geta ekki kosið um stjskr. út af fyrir sig. Þeir þurfa um leið að segja, hvort þeir vilja hafa þm. til þess að fara með umboð sitt. Þetta er mergurinn málsins. Það getur t. d. farið svo, að hv. þm. Dal. lendi í þeirri „situation“, að hann verði sammála Einari Olgeirssyni, en ósammála Ólafi Thors, um breyt. á stjskr., og komist í vandræði með það, hvorn þeirra hann á að kjósa, ef þeir væru nú báðir í kjöri í því kjördæmi, sem hann ætti kosningarrétt í. Á hann þá að kjósa Einar Olgeirsson, sem væri sammála honum um stjskr., eða á hann að kjósa eftir því, hvernig hann vill hafa gang þingmálanna næstu 4 ár og kjósa Ólaf Thors? Þannig er þessu ætið varið, þegar kosið er um stjskr. — Og því þarf að afgreiða málið á sérstöku stjórnlagaþ. Þetta er aðalatriði málsins. En hitt er aukaatriði, þó að ein n. hafi lengi unnið að endurskoðun á stjskr., önnur langt komin, þótt nú sé hún komin til himnaríkis, og hin þriðja langt komin með að gefa málið alveg á bátinn. Aðalatriðið er, að þannig sé búið um hnútana, að stjskr. sé sett í samráði við vilja þjóðarinnar. Þar næst ber að ákveða þetta svo snemma, að frá því, er það er ákveðið að kjósa skuli til stjórnlagaþ., og til þess er kosið er, líði svo langur tími, að ræða megi málið í blöðum og á mannfundum og um það, hverju eigi að breyta, geti myndazt ákveðnar skoðanir, og þjóðin skipzt um þær. Þegar ég í till. minni get þess, að ég geti sætt mig við að tímamarkið verði fært til, felst það í henni, að þjóðin þurfi að fá að átta sig á þessu máli. Hún verður að fá að ákveða, hvort vera skuli með öllu valdalaus forseti eða forseti með takmarkað eða mikið vald, hvort stjskr. eigi að kveða á um, að einmenningskjördæmi verði í landinu, það allt eitt kjördæmi eða haldast skuli framvegis núverandi óskapnaður í kjördæmaskipuninni. Þjóðin þarf að fá að átta sig á þessu, frá því er stjskr. er breytt þar til að kosið er til stjórnlagaþ. Mér er annars ekkert kappsmál annað en svo verði kosið, að meiri hl. komi fram í gegnum kosninguna. Síðan, þegar stjórnlagaþ. er sett, er kosningin er afstaðin, verði stjskr. breytt í samræmi við vilja kjósendanna. Að öðru leyti gæti ég komið inn á hvaða samkomulag sem vera skal.

Hv. n. hefur eigi tekið neina afstöðu til breyt. á stjskr. Hún skilur ekki, að það, hvernig breyta eigi stjskr., snertir eigi önnur atvik. En hv. n. veit, að meiri hl. þjóðarinnar er ákveðinn í að heimta stjórnlagaþ. Hv. form. ætti að vita, að á búnaðarþ., þar sem sitja 25 fulltrúar, hefur verið samþ. áskorun um að breyta stjskr. á sérstöku stjórnlagaþ. Og hv. n. veit einnig, að víða um landið hefur þetta mál verið rætt og gerðar samþykktir í því. Hún þorir ekki að ganga í berhögg við þjóðina. Annar tilgangur hennar er ekki nema draga málið á langinn. En ekkert er enn komið frá þeirri n., sem setið hefur nú í tvö ár. Þetta er lítilmannlegt. Betra hefði verið, ef hv. n. hefði komið hreint til dyranna og sagt: Við skulum bara fella frv., og hér er verið að draga vald úr höndum Alþ., eins og hv. þm. segja undir fjögur augu. Hv. n. leggur engan dóm á það, hverjar leiðir eigi að fara. Hún bara vísar málinu frá álitslaust. Annars geri ég ekki ráð fyrir, að það þýði mikið að tala um málið á þessu stigi þess. Mér þykir miklu verra að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá, af því að mér er annt um það. En annað kemur hér einnig til greina. (Forseti: Ég bið hv. þm. að afsaka, vil spyrja hann, hvort ekki eigi að hringja, til þess að fleiri hv. dm. geti verið viðstaddir.) Það er, að enginn veit, þó að við sitjum nú í dag hér á þ., hve lengi við sitjum. Þingið getur haft þann endi, að kosið verði í vor. Og ef sú vending kemur í málið, þá gæti komið fjörkippur í stjskrn., þá kann að verða flaustrað af breytingum á stjskr. til að spara kosningar. Og þá væri verra, að þ. er búið að vísa þessu máli frá, því að þá er erfiðara að taka það upp að nýju. Þótt þessi afgreiðsla málsins sé skv. meiri hl. þ. nú, þá er eigi vist, að svo verði síðar. Og þá er verr farið að hafa vísað því frá nú.

Ég þarf ekki að segja meira, hef nú dregið fram aðalatriðin í málinu og aukaatriðin líka, sem gjarnan má breyta mín vegna. Aðalatriðin eru þessi: 1) að meiri hl. þjóðarinnar fái að ráða og 2) tíminn, frá því er stjskr. er breytt og stjórnlagaþ. ákveðið, til þess er kosið er til þess, sé svo langur, að ákveðnar stefnur nái að myndast, en þær eru engar til núna.