08.11.1948
Efri deild: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (3498)

47. mál, menntaskólar

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta mál, breyt. á l. um menntaskóla, hefur tvívegis verið flutt hér á þingi áður, og er það því hv. þdm. kunnugt. Að vísu er frv. nú í nokkuð breyttri mynd að því er orðalag snertir, og leiðir einnig af því efnisbreyt. Frv., eins og það var áður flutt á Alþingi, var um það, að menntaskólar skyldu vera einn í Reykjavík, einn á Akureyri, einn á Ísafirði o. s. frv., en nú er sagt, að menntaskólar skuli vera í Reykjavík, á Akureyri, Ísafirði o. s. frv. Það er sem sé óbundið, hvort menntaskólar séu fleiri en einn í höfuðborg landsins, enda er svo komið, að þeir eru í raun og veru fleiri en einn. Þessi breyt. á frv. sveigir mjög í þá átt, sem till. komu fram um í sambandi við þetta frv. á síðasta þingi. Að öðru leyti eru orðalagsbreyt. í samræmi við þær brtt., sem menntmn. þessarar d. gerði við frv., þegar hún fjallaði um málið síðast. Undirtektir þær, sem málið hefur fengið hér á þingi, eru þannig, að menntmn. þessarar d. hefur tvívegis mælt með, að frv. verði samþ., en í hvorugt skiptið hefur málið fengið fulla afgreiðslu á Alþingi.

Skipun menntaskóla í landinu er nú þessi: Menntaskóli er í Norðlendingafjórðungi, 3 í Sunnlendingafjórðungi, þ. e. a. s. tveir útskrifa stúdenta í Reykjavík, og menntaskólarekstur var hafinn á Laugarvatni í fyrravetur. Aftur á móti er enginn menntaskóli staðsettur á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Nú þykir okkur flm. þessa frv. hlýða, að næst þegar einhver breyt. yrði gerð á um menntaskóla, þá yrði það ekki á þá lund, að bætt yrði við t. d. fjórða menntaskólanum í Sunnlendingafjórðungi, en Vestfirðinga- og Austfirðingafjórðungar yrðu áfram menntaskólalausir. Þess vegna leggjum við til með þessu frv., að sú stefnuyfirlýsing verði gerð af Alþingi, að menntaskólar verði reistir í öllum landsfjórðungum. Þó kemur það undir Alþingi, hvenær fé skuli veita til stofnunar hinna nýju skóla í fjárl.

Ég hef flutt það áður sem rök fyrir þessu máli, að menntaskólaleysi Vestur- og Austurlands veldur því, að fólk flytur úr þessum landsfjórðungum til Reykjavíkur. Ég hef sýnt fram á, að þessum landsfjórðungum sé það tilfinnanleg blóðtaka, í fyrsta lagi að missa efnilegasta námsfólk sitt burt, oftast fyrir fullt og allt, þegar það fer burt til síns menntaskólanáms, og einkum er það tilfinnanlegt, þegar aðstandendur þessa efnilega fólks flytja oftast með til þess að fyrirbyggja stöðvun á menntabraut barna sinna, en aðstaðan er þannig, að það er ekki fært efnalitlu fólki að kosta, þótt ekki sé nema einn ungling til 4 ára menntaskólanáms í Reykjavík. Ég hef reynslu fyrir, að það kostar 12–15 þús. á ári, þó að ekki sé viðhöfð nein óhófseyðsla. Þetta þýðir 50–60 þús. kr. á fjórum árum. Við teljum því, að með þessu frv. sé stefnt að því, sem stefna ber að, að jafna menningarlega aðstöðu fólksins í öllum landshlutum. Einnig má líta svo á, að í frv. sé stefnuyfirlýsing Alþingis í þá átt, að heppilegra sé, fyrst og fremst menningarlega, að hafa menntaskólana fleiri og smærri.

Ég vil svo aðeins víkja að því að því er Ísafjörð snertir og Vestfirði, að þar eru nú starfandi þrír framhaldsskólar, sem m. a. undirbúa nemendur sína undir miðskólapróf, sem eins og kunnugt er veitir réttindi til framhaldsnáms í kennaraskóla og menntaskóla, ef nemendur ná meðaleinkunninni 6 í landsprófsgreinunum. Nú munu vera um 30 nemendur í miðskóladeildum þessara framhaldsskóla Vesturlands. og ættu þeir þá, ef þeim hlekkist ekki á við próf, að fá rétt til að setjast í menntaskóla. Af þessum hópi eru um 20 í miðskóladeild gagnfræðaskólans á Ísafirði, og verð ég að segja, að það liggur í augum uppi, að það er allt of mikil blóðtaka fyrir Ísafjarðarkaupstað, þegar 20 ungir menn fara á einu ári til framhaldsnáms í Reykjavík með þeim gífurlega kostnaði, sem það hefur í för með sér. Ísafjarðarkaupstaður hefur líka látið til sin taka í þessu máli. Bæjarsjóður Ísafjarðar hefur haft málið til umr. og sent þinginu samþykkt á þá lund, að bæjarstj. Ísafjarðar bjóði fram ókeypis lóð undir menntaskóla í kaupstaðnum. Ég sé, að nýverið hefur sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu einnig sent Alþingi áskorun um það, að frv. þetta verði samþ. Þá er mér einnig kunnugt um, að Vestur-Ísafjarðarsýsla leggur einnig kapp á, að þetta mál nái fram að ganga, og er það ekki nema von.

Ég þarf ekki að eyða að því mörgum orð um, hvílíkur ávinningur það væri fyrir Austfirðinga- og Vestfirðingafjórðung að fá slíkar menningarstofnanir sem menntaskóla innan sinna vébanda. Það skýrir sig sjálft, að slíkar stofnanir mundu hafa margvíslegt menningarlegt gildi fyrir þessa landshluta.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð á þessu stigi. Ég vil aðeins geta þess, að þetta er sameiginlegt mál fyrir Austfirðinga- og Vestfirðingafjórðung, og því verður áreiðanlega fylgt fast fram af málsmetandi mönnum þessara landshluta og lagt mikið kapp á, að það nái fram að ganga, alls ekki fyrir metnaðar sakir eingöngu, heldur fyrst og fremst vegna menningarlegs gildis, sem það hefur fyrir fólkið í þessum byggðarlögum.

Ég legg svo til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og menntmn.