07.12.1948
Efri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (3501)

47. mál, menntaskólar

Frsm. meiri hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 163 ber með sér hefur n. rætt þetta frv. á nokkrum fundum og mælir með því, að það verði samþ. óbreytt.

Það er nú orðið nokkuð langt síðan málið kom hér fram, en drætti þess hjá menntmn. veldur einkum það, að hv. 1. þm. Reykv. er nýr maður í nefndinni, og því var hann ekki kunnugur málinu og áskildi sér rétt til að fá nokkurt tóm til að athuga það og mynda sér skoðun á því, og auðvitað var orðið við þeirri ósk hans. En er n. tók málið aftur fyrir, var hv. 1. þm. Reykv. farinn af landi burt, og bað einn nm., hv. 2. þm. Árn., um, að málið yrði enn ekki tekið fyrir, fyrr en varamaður hv. 1. þm. Reykv. tæki sæti í n. Það var enn fremur orðið við þeirri ósk um frestun á málinu, en nokkru síðar var enn þá boðað til nefndarfundar, og var varamaður hv. 1. þm. Reykv., frú Auður Auðuns, boðuð á þann fund. En hvorki hún né hv. 2. þm. Árn. komu á fundinn, og sá nefndin sér nú ekki annað fært en afgreiða málið, enda höfðu allir, sem hlut áttu að máli, verið boðaðir á hann, og meiri hl. n. var mættur, eða 3 á fundi og 2 fjarstaddir. Niðurstaðan varð svo sú, eins og áður er sagt, að allir nm., sem mættir voru, urðu sammála um að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt.

Ég hygg, að ég hafi gert nokkra grein fyrir því við 1. umr. þessa máls, að frv. er nokkuð breytt frá því, sem það var flutt hér í fyrra. Þá kom fram brtt. frá hæstv. dómsmrh., og gerði hann bæði aðaltillögu og varatillögu, og hefur nú, frv. verið breytt allnákvæmlega í samræmi við varatill, hæstv. ráðh. Enn fremur gerði nefndin sjálf brtt. við málið á síðasta þingi, og var ákveðið, að hinir nýju menntaskólar skyldu þá fyrst koma til framkvæmda, er fjárveiting væri fyrir hendi í því skyni, og var sú till. n. nú tekin upp í frv.

Þessi er þá búningur málsins orðinn, og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða mjög um það, eftir að ég hef gert grein fyrir málinu við 1. umr., þar eð ekki hafa verið gerðar alvarlegar tilraunir til að hnekkja því. Hins vegar er það ljóst af því, sem ég áðan sagði, að einstakir menn hafa gert nokkrar tilraunir til að tefja og þvæla málið, og tel ég það miður farið og óviðkunnanlegra, en að berjast þá heldur opinskátt gegn því. Ég kann alltaf betur við þá aðferð.

Eins og kunnugt er hafa margir rétt til menntaskólanáms hér á landi, en allir, sem hafa öðlazt þann rétt og vilja neyta hans, verða annaðhvort að leggja leið sína til Reykjavíkur eða Akureyrar, hvaðan sem þeir eru af landinu. Á Akureyri er einn menntaskóli og tveir í Reykjavík, þ. e. a. s. gamli menntaskólinn og verzlunarskólinn, sem nú hefur öðlazt rétt til að brautskrá stúdenta. Og nú mun vera að opnast sá möguleiki að stunda menntaskólanám á Laugarvatni, þar sem örlítill vísir að lærdómsdeild hefur vaxið upp í fyrra og í ár. Þannig er að koma upp vísir að þriðja menntaskólanum í Sunnlendingafjórðungi. Einn menntaskóli er í Norðlendingafjórðungi, en enginn á Vesturlandi og enginn á Austurlandi.

Samkvæmt skýrslum, sem fræðslumálastjóri lét taka saman s.l. vetur, kemur skýrt í ljós, að hundraðstala nemenda við framhaldsnám hefur farið mjög eftir nágrenni þeirra við skólana. Hundraðstalan er mjög há í Reykjavík, miðað við heildartöluna, en á Akureyri er hundraðstalan næst. Næst koma kaupstaðir og byggðir í grennd við Akureyri og kaupstaðir í grennd við Reykjavík og aðrir staðir í nágrenni bæjarins. Hundraðstala Vestfirðinga og Austfirðinga var lægst. Þessar tölur sýna glöggt, hve miklu örðugra er fyrir ungmenni úr þessum landshlutum að stunda framhaldsnám, og kemur þessi niðurstaða engum á óvart, sem nokkuð þekkir til. Meiningin með þessu frv. er að gera þær breytingar á þessum hluta núverandi skólakerfis, að menningarleg aðstaða til framhaldsnáms sé sem jöfnust, hvar sem er á landinu, og vil ég ekki trúa því, að óreyndu, að slíkt réttlætismál mæti andstöðu hv. þingmanna. Þetta hefur verið þrautrætt hér áður, og þar sem svo er, vil ég snúa máli mínu til Ísafjarðarkaupstaðar sérstaklega, þar sem ég er kunnugastur.

Á Ísafirði var stofnaður unglingaskóli árið 1906, og var það eins vetrar skóli fyrst í stað. En 1920 var honum breytt í tveggja vetra skóla, og starfaði sá unglingaskóli til 1930, en þá var hann gerður að gagnfræðaskóla með þriggja vetra námi, er starfaði í samræmi við löggjöf um gagnfræðaskóla þar til í ársbyrjun 1946, að hann byrjaði að starfa eftir nýju skólalöggjöfinni og verður 4 vetra skóli, og áður en langt um líður verður skólinn til fulls starfandi eftir nýju skólalöggjöfinni. Aðsókn að honum fer sívaxandi, og eru þar nú á þriðja hundrað nemendur, og þegar fjórði árgangurinn bætist við, er sýnt, að um 300, eða líklega á fjórða hundrað, nemendur verða í þessum skóla, þar sem nú eru 80–90 í hverjum árgangi.

Gagnfræðaskólinn á Ísafirði hefur allra skóla mest lagt áherzlu á verklegt nám og varð fyrstur allra gagnfræðaskóla til að stofna verknámsdeild og framkvæma nýju skólalöggjöfina s.l. skólaár á fyllri hátt en nokkur annar framhaldsskóli í landinu. Skólinn hefur lagt og leggur megináherzlu á að veita öllum þorra nemenda sinna, eða fjórum af hverjum fimm, fyrst og fremst menntun á hinu verklega sviði. En nokkur hluti nemenda er bezt fallinn til bóklegs náms, eins og gengur, og einn af þremur flokkum í hverjum árgangi er bóknámsdeild. Og þetta unga fólk, sem er á bóklega sviðinu, eða úrval þess, vill leggja leið sína í menntaskólana eða í kennaraskólann. Nú eru aðeins 20 nemendur í bóknámsdeild skólans, og takist þeim að ná miðskólaprófi, liggur leið þeirra til framhaldsnáms, en jafnframt burt úr átthögum sinum. Ég veit raunar að mikill hluti þessa ungmennahóps stöðvast á menntabrautinni af fjárhagsástæðum einum, ef Alþingi sér sér ekki fært að láta hefja menntaskólanám á Ísafirði næsta vetur. Og ég veit, að það yrði of mikil blóðtaka fyrir staðinn, ef svo mörg af efnilegustu ungmennum hans hyrfu þaðan árlega til Reykjavíkur eða annað til framhaldsnáms, og ef unglingarnir kæmust ekki burt af fjárhagsástæðum, sem margir stranda á, þá væru þeir þar með stöðvaðir á menntabrautinni, og þetta er hvort tveggja þungt á metunum.

Í framkvæmd yrði þetta mál þannig, að ef frv. þetta væri samþ., væri þar með slegið föstu, að menntaskóli skuli rísa upp á Ísafirði og eins á Austurlandi, jafnóðum og fé er veitt til þeirra á fjárlögum. Ég vænti þess nú, að svo verði og að kennsla geti hafizt í fyrsta bekk lærdómsdeildar menntaskóla á Ísafirði næsta vetur, og yrði þá líklega að bæta við einum kennara, og síðan verði einum bekk bætt við á ári í fjögur ár, þar til menntaskólinn væri að fullu tekinn til starfa. Hvort framkvæmd málsins bæri þannig eða jafnbrátt að á Austurlandi, skal ég ekki segja um, og mun hv. meðflm. minn gera þá grein fyrir því, sem honum sýnist.

Nú er menntaskólinn í Reykjavík fullsetinn, og ef hann á að taka við miðskólaprófsmönnum utan af landi, þarf að bæta við hann húsakynnum og kennslukröftum og leggja þar með fram miklu meira fé til hans en áður. Ég sé því ekki, að annar munur sé á því að koma upp menntaskólum á Ísafirði og Austurlandi annars vegar eða efla menntaskólann í Reykjavík með fjárframlögum hins vegar, — ég sé ekki að munurinn sé annar en sá að velja um það, hvort hin óhjákvæmilega útþensla menntaskólanámsins verði öll í Reykjavík og unga fólkið knúið þangað til framhaldsnáms, eins og lengst af hefur verið, eða stofnað skuli til nauðsynlegrar aukningar á menntaskólanámi í landinu í þeim landshlutum, sem örðugast eiga og hafa átt um að koma ungu fólki til framhaldsnáms. Um þetta er að velja. Í báðum tilfellum þarf ríkið að leggja fram fé. Aðstreymi unga fólksins til Reykjavíkur er ærið íhugunarefni, þótt ekki sé verið að knýja efnilegasta skólafólkið þangað fyrr en nauðsyn krefur.

Nú eru líkur til þess, að ég hygg, að verzlunarskólinn geti um sinn tekið við aukningu nemenda úr Reykjavík við menntaskólanám, svo að nokkurt tóm gefist til að rannsaka þessi mál, sem virðast vera deilumál meðal Reykvíkinga. Og það er hollt að athuga þau vel. Ýmsir álíta, að endurbyggja eigi menntaskólann í Reykjavík á sama stað og stækka hann, aðrir, að reisa eigi nýjan menntaskóla og leggja þann gamla niður o. s. frv., og um þetta er mikið rætt og deilt. Enn aðrir segja, að stækka eigi menntaskólann í Reykjavík og hafa hann áfram á sama stað og byggja til viðbótar nýjan skóla hér, en Vestfirðingar og Austfirðingar eiga þá engan skóla að fá. En ég hygg nú, að þeir séu fáir, sem vilja í alvöru sníða jafnréttishugsjón æðri menntunar svo þröngan stakk.

Það þarf enginn að óttast, að það mundi fjölga óeðlilega tölu nemenda í menntaskólum landsins yfirleitt, þótt stofnað yrði til menntaskólanáms í Vestfirðinga- og Austfirðingafjórðungi, þótt einhverjir kæmust til framhaldsnáms, sem ella hefðu ekki klofið það af fjárhagsástæðum. Hitt er víst, að ef ekki væru stofnaðir menntaskólar í þessum landshlutum, þá væru allir, sem til menntaskólanáms komast knúðir til að sækja námið til Reykjavíkur eða Akureyrar og óréttlæti og ójöfnuður í sambandi við aðstöðu til æðri menntunar eftir landshlutum héldist áfram, og enginn getur reiknað út þau verðmæti, sem við það fara forgörðum.

Ísfirðingar hafa, án tillits til allra innbyrðis deilna og flokkadrátta, fylkt sér einhuga um, að þar verði stofnsettur menntaskóli. Bærinn hefur boðið fram ókeypis lóð undir skólann, sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu gert sérstaka áskorun um framkvæmd þessa máls, og nú síðast hafa 60 áhrifa- og forustumenn úr öllum flokkum á Ísafirði skorað á hv. Alþ. að afgreiða þetta mál sem lög á þessu þingi. Af þessu er ljóst, að Ísfirðingar leggja mjög mikið kapp á þetta mál, af því að þeir vilja gefa sem flestu ungu fólki, sem rétt hefur til menntaskólanáms, færi á að stunda það og halda þessu unga fólki í sínum bæ og sínum átthögum svo lengi sem auðið er.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en vona aðeins, að málið fái skjóta afgreiðslu, eftir að það hefur verið athugað, og verði að lögum í vetur.