07.12.1948
Efri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (3504)

47. mál, menntaskólar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnishlið málsins, því að frsm. menntmn. mun nú hafa orð fyrir þeim hluta n., er afgreitt hefur málið. En orð féllu á þá leið hjá hv. þm. Barð., að skilja má þau sem ásakanir á n. eða þá nm., sem afgreitt hafa málið. Gerði hann það að vísu ekki beinlínis að sínum orðum. En þann skilning vildi hann leggja í orð hv. frsm., að þrír nm. hefðu gripið tækifærið, þegar hinir voru fjarverandi, til að afgreiða málið, hefðu laumazt til þess. Ég lagði allt annan skilning í þetta. En vitaskuld verður hver og einn að skilja hlutina sem honum þykir bezt við eiga. Við hv. þm. Barð. höfum áður rætt um það, hvernig skilja beri, hvað sé nefnd. Og nú ætla ég aðeins að leyfa mér að koma fram með einn skilning á þessu máli. — Ég held, að það sé nefnd, þegar meiri hl. nefndarmanna er á fundi og hann hefur verið löglega boðaður. Er svo ástatt um mörg nál., að allir nm. skrifa ekki undir, en þá er getið fjarveru þeirra, sem eigi eru viðstaddir, og er það gert á þskj. 163: „Á þeim fundi nefndarinnar, þegar málið var afgreitt, voru tveir nefndarmenn, þeir Eiríkur Einarsson og Björn Ólafsson, fjarstaddir.“ Þessi hv. samkoma heitir efri deild Alþingis, þó að einhverja dm. vanti á fund. Um það efast enginn maður. Og n. var ályktunarfær, þegar hún afgreiddi málið. En þá kemur til greina hitt, hvort við þrír höfum viljað komast hjá því, að félagar okkar tveir í n. greiddu atkv. Þann 9. nóv. er málið tekið fyrir á fundi í n. Þar eru 4 nm. mættir og á meðal þeirra hv. 1. þm. Reykv., er tók þátt í athugun málsins með okkur. Hins vegar stóð hv. 2. þm. Árn. svo sem ekkert við. Frv. með grg. var lesið upp, rætt var um málið og það athugað. Þann 29. nóv. er málið tekið fyrir að nýju, en í millitíðinni hafði verið minnzt á málið, án þess að það væri tekið hreinlega fyrir. Þá stendur þannig á, að hv. 1. þm. Reykv. er farinn af landi brott, og hv. 2. þm. Árn. biður um, að málinu sé frestað, þar til er varamaður hv. þm. geti mætt. Ég sem formaður n. samþykkti það og frestaði afgreiðslu þess, en tók jafnframt fram, að hv. 2. þm. Árn. yrði að sjá um, að varamaðurinn mætti á næsta fundi í n. Þetta mál hafði verið til meðferðar í hv. d. í fyrra, og var meira að segja búið að koma frv. í það horf, er helzt mátti vænta, að menn yrðu ánægðir með. Þótti þetta því nægileg málsmeðferð í n. Þann 3. des. er málið svo afgr. Sá fundur var skriflega boðaður öllum nm., þeim er á þingi voru, og bað ég starfsfólk Alþ. að boða varamanni hv. 1. þm. Reykv. þennan fund. En mér bárust þau boð, að frúin hefði eigi enn tekið sæti á þingi og mundi ekki koma. Skildi ég þetta á þá lund, að hennar væri ekki frekara að vænta. Mér virðist því sem eina ásökunarefnið sé það að slá ekki afgreiðslu málsins á frest, þar til að hv. 1. þm. Reykv. er kominn til þings aftur. En skrýtið þykir mér, ef n. má ekki afgreiða mál, þó að einn nm. sé í útlöndum, heldur eigi að bíða komu hans. En hefði hv. þm. verið á landinu, veit ég, að hann hefði tekið fullan þátt í afgreiðslu málsins. Um hv. 2. þm. Árn. er það að segja, að þann 3. des. vissi hann áreiðanlega um fundinn, því að hann merkti við á fundarboðið, að hann hefði séð það. Gruna ég hann fastlega um að hafa verið staddan allnærri, jafnvel í þinghúsinu sjálfu, þá er fundur var haldinn. (PZ: Þar get ég borið vitni.) Við þrír höfum ekki farið á bak við meðnefndarmenn okkar, enda haft viðleitni þá í frammi, að þeir tækju þátt í afgreiðslu málsins með okkur. — Ég sagði í upphafi, að ég ætlaði eigi að ræða efnishlið málsins. En ég tek það fram, að ég álit vafasamt það, sem hefur verið látið uppi um kostnaðarhliðina. Svo var gengið frá hér um árið, að kalla má, að hvert það ungmenni, er náð hefur miðskólaprófi, eigi heimtingu á að mega halda áfram námi. Aðsókn að slíku námi fer því sívaxandi. En m. a. hefur krafa komið fram um nýjan menntaskóla í Reykjavík. Tel ég efasamt, hvort dýrara sé að reisa menntaskóla með einni bekksögn úti á landi, en ráðast í stórbyggingu hér í Reykjavík. Eins og hv. frsm. n. sagði, er leið sú, sem þrædd er í frv., ódýrari fyrir borgara í fjarlægum landsfjórðungum, þá er börn eiga að námi eða unga menn, sem eru að ryðja sér braut af eigin rammleik, — hvað sem því líður hvort sé dýrara fyrir ríkissjóð. Mun ég svo eigi fjölyrða frekar um málið.