13.12.1948
Efri deild: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (3514)

47. mál, menntaskólar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Í umr. um þetta mál síðast minntist hv. form. menntmn. á, að ég hefði ásakað hann sem formann í sambandi við afgreiðslu málsins. Orð mín ber ekki að skilja sem ásökun á form. eða n., heldur voru þau sögð að gefnu tilefni frá hv. frsm. Ég gerði nokkrar spurningar til hv. frsm. í minni fyrri ræðu, og hefur sumum verið svarað. Kem ég aftur að því. Ein spurningin var um það, hvort frv. mundi ekki hafa kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð, og kvað frsm., að svo mundi ekki verða, því að fyrir lægju kröfur um nýjan menntaskóla í Reykjavík, og skildist mér, að frsm. teldi, að með samþykkt þessa frv. væri þeim kröfum bægt í burtu, en ég er ekki á sama máli um það. Hafi það verið rétt, að það, að bæta við einni deild í Laugarvatnsskólanum, hafi kostað 40 þús. kr., þar sem þó voru húsakynni fyrir hendi, þá skil ég ekki annað en þetta, frv., ef að lögum verður, komi allþungt niður á ríkissjóði. Ég tel því æskilegt, að þetta mál verði rætt við hæstv. fjmrh.., en um það gaf hv. frsm. engin svör, og skildist mér, að það hefði enn ekki verið gert. Nú var upplýst og viðurkennt af hv. frsm., að fræðslulögin væru eins og stendur engan veginn uppfyllt vegna fjárskorts, og hann upplýsti einnig, að gömlu fræðslulögin væri ekki hægt að uppfylla með árlegu framlagi ríkissjóðs, eins og það er nú. Eftir að þessar upplýsingar eru fram komnar og viðurkenndar af hv. frsm., þá undrar mig, að hann skuli leggja kapp á að auka við ákvæði fræðslulaganna um byggingu fleiri skóla, sem kosta stórfé, meðan ekki er hægt að uppfylla þau ákvæði, sem fyrir eru. Ég get því ekki verið sammála því að auka þannig stórlega útgjöld ríkissjóðs án þess að benda á leiðir til tekjuöflunar á móti. Hv. frsm. upplýsti einnig, að hv. menntmn. hefði ekki rætt málið við mþn. í skólamálum, og vísaði hann til þess, að mþn. hefði skilað áliti sínu um menntaskóla, og væri því ekki ástæða til að ræða málið frekar við hana. Nú skilst mér, að í till. mþn. hafi ekki verið gert ráð fyrir menntaskólum á Eiðum og Ísafirði, og því var ástæða til að ganga úr skugga um, hvort nefndin hefði skipt um skoðun. Ég ásaka þó ekki form. menntmn. fyrir að hafa ekki gert það, en eðlilegt er, að á þetta sé bent, því að það hefði verið eðlileg málsmeðferð og málinu til styrktar, ef mþn. hefði samþykkt það. Hins vegar ef mþn. var á móti málinu, þá var rétt að fá það fram, og dettur mér ekki í hug, að menntmn. hafi látið undir höfuð leggjast að leita álits mþn. af ótta við afstöðu hennar. — Þá upplýsti hv. frsm. einnig, að n. hefði ekki haft samband við þá aðila, er hugsa sér að reisa menntaskóla á Rafnseyri. Ég geri ráð fyrir, að það stafi af því, að n. hafi talið slíka hugmynd fjarstæðu. Þessi hugmynd hefur þó komið fram hjá heilu sýslufélagi, og legg ég ekki dóm á hana, en það hefði ekki verið óeðlilegt, að n. spyrði þá, sem skólann vilja á Rafnseyri, hvort þeir gætu ekki sameinað hugmynd sína hugmyndinni um menntaskóla á Ísafirði, því að líkurnar fyrir skólabyggingu á Rafnseyri minnka stórum, ef skóli er reistur á Ísafirði. Í sambandi við þetta minntist hv. frsm. á, að Rafnseyri væri komin í eyði fyrir aðgerðaleysi þeirra manna, sem reisa áttu staðinn við. Ég mótmæli þessu sem fjarstæðu. Það er algerlega ósæmilegt að bera fram ómaklegar fullyrðingar sem þessar. Ég get fullvissað hv. frsm. um það, að áður en hugmyndin um skólabyggingu á Rafnseyri kom fram, þá var presti veitt þar brauðið, án þess að hann tæki við jörðinni. Leigði hann jörðina til bónda, en hann var farinn, þegar till. um skólabygginguna kom fram. Þessi prestur kom beint frá prófborðinu og var settur um stund án þess að hugsa sér að staðfestast þarna, og það var ekki hugmyndin um að reisa skólann, sem flæmdi hann burt. Hugmyndin hefði einmitt frekar átt að ýta undir hann að vera kyrran, því að áformað var, að Rafnseyrarprestur veitti skólanum forstöðu, eins og sr. Böðvar Bjarnason hafði gert, er hann um mörg ár kenndi unglingum gagnfræði, um leið og hann þjónaði Rafnseyrarprestakalli. Það er því hrein fjarstæða, að Rafnseyri hafi farið í eyði af þeim sökum, er hv. frsm. vildi vera láta. Bóndinn, sem var þar, hætti búskap af heimilisástæðum, ekki af því, að reisa ætti Rafnseyri við, heldur af því, að hann treystist ekki til að búa.

Hv. frsm. færði það eitt sem rök fyrir skóla á Ísafirði, að kostnaðurinn fyrir námsfólk, sem færi í Menntaskólann í Reykjavík, væri svo gífurlegur, að foreldrarnir færu með þeim þangað. Einmitt af því, hve uppihaldið er dýrt hér í Reykjavík, þá var stungið upp á heimavist við menntaskólann hér, en það gat hv. frsm. ekki fallizt á. En ef sami háttur er hafður á Ísafirði, að þar verði ekki heimavist, þá verður kostnaðurinn hlutfallslega jafnmikill fyrir þá, sem ekki eiga heima í sjálfum Ísafjarðarbæ. Þeir, sem eiga heima í Dýrafirði, Grundarfirði, við Djúp o. s. frv., yrðu að leigja sér herbergi og þjónustu úti í bæ, og það yrði ekki mikill kostnaðarmunur á Ísafirði og í Reykjavík. Það yrði bitamunur, en ekki fjár. Þess vegna er það lausnin, ef menn vilja draga úr kostnaði nemenda, að byggja heimavist. Það hefur verið gert á Akureyri og Laugarvatni og verður gert á Eiðum. Ég hygg því lítil rök fyrir því, að þeir, sem ekki eiga heima í Ísafjarðarbæ, mundu frekar leita þangað en til Akureyrar eða Reykjavíkur, því að kostnaðurinn verður nánast hinn sami, ef ekki er heimavist. En hv. frsm. kom inn á það, að heimavist væri ekki aðalatriðið, heldur hitt, að þeir staðir, sem nefndir eru í frv., nytu sömu menningarlegrar aðstöðu og aðrir staðir. Það má segja, að þetta sé sjónarmið út af fyrir sig, og í þessu ber okkur ekki mikið á milli. Aðeins það, að ég vil í staðinn fyrir að reisa þarna nýja skóla, láta halda áfram að bæta við nýjum bekkjum, og þannig gætu staðir þessir náð sömu menningaraðstöðu og aðrir staðir. Þó að ég vilji ekki fylgja því að ákveðnar séu með l. tvær nýjar stofnanir og þeirri þriðju sé ákveðinn sérstakur staður, þá er ég fús til að fylgja því, að sú eðlilega þróun geti átt sér stað, m. a. á Ísafirði, þegar skilyrði eru fyrir hendi til þess, eins og sagt er, að séu þar nú, og kostar ríkissjóð miklu minna fé og kemur fljótar að gagni en þó að það sé ákveðið í l., að skóli skuli byggður.

Hv. frsm. segir í sambandi við þetta, að hann fari ekki fram á annað en stefnuyfirlýsingu um, að þessi menningarlega aðstaða verði gefin héruðunum, sem hér um ræðir, eins og Reykjavík. En frv. er allt annað en stefnuyfirlýsing. Í því felst fyrirskipun, í fyrsta lagi um, að menntaskólar skuli verða reistir á Ísafirði, á Eiðum og að menntaskóli, sem áður hefur verið ákveðinn í l. á Suðurlandsundirlendi, skuli verða settur á ákveðinn stað. Það er að vísu tekið fram í frv., að þetta skuli ekki gert fyrr en jafnóðum og fé sé til þess veitt á fjárl. Ég vil nú benda hv. þm. á það, að ef núverandi menntmrh. hefur talið það sæma sér að taka fé úr ríkissjóði, án þess að heimild væri til þess, til þess að starfrækja menntaskóladeild á Laugarvatni, eins og hann hefur viðurkennt hér á Alþ. að hafa gert, hversu miklu frekar hann mundi fara ofan í ríkiskassann, ef frv. það, sem hér liggur fyrir, yrði samþ. Það er því alveg öruggt, að menn, sem hafa slíka tilhneigingu til eyðslu úr ríkissjóði, mundu telja sér heimilt, án þess að bera kinnroða fyrir það, að eyða ekki aðeins smáupphæðum, heldur svo tugum eða hundruðum þúsunda skipti, þó að það væri ekki ákveðið í fjárl. Svo að, eins og áður er fram tekið, þá er þetta allt annað en stefnuyfirlýsing, sem hér er farið fram á. Hv. frsm. gat þess, að ákvæðið um staðsetningu menntaskólans á Laugarvatni væri sett inn vegna þeirra mannvirkja, sem þegar væru byggð þar. Nú vil ég upplýsa það fyrir hv. frsm., að þær byggingar, sem eru til nú í dag á Laugarvatni. geta á engan hátt uppfyllt eftirspurn fyrir kennslu handa unglingum, sem vilja fara á héraðsskóla. Þess vegna er byrjað þar á nýrri byggingu, sem talið er að muni kosta 6 millj. króna. Það er ekki hægt að halda þar áfram þeirri kennslu, sem lögboðin er, eða uppfylla þá eftirspurn, sem fram kemur um skólavist frá nemendum, sem vilja ljúka sínu námi á héraðsskólum, nema að byggja til viðbótar á staðnum, og er því ekki ástæða til að setja menntaskólann að Laugarvatni af þeim ástæðum, að þar séu til byggingar fyrir hann. Í þessu sambandi vil ég líka benda á merkilegar upplýsingar, sem fengust við heimsókn fjvn. að Laugarvatni. Þar er til fyrir stór og mikill matsalur, sem á sínum tíma var gerður fyrir héraðsskólann. Honum fylgir tilheyrandi eldhús. Fyrir utan þetta er svo í hinni nýju byggingu verið að byggja annan matsal, jafnstóran eða stærri, fyrir nýja skólann. Þriðji skólinn, húsmæðraskóli, er svo til á Laugarvatni líka. Nú gerðum við fjvnm. fyrirspurn um það til þeirra manna, sem ráða þessum málum þar eystra, hvort ekki væri skynsamlegra að hafa eitt eldhús, sem notað væri fyrir alla þessa skóla, sem standa þarna saman í einum hnapp, þar sem með því mætti spara bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað. Svarið var, að það væri ekki hægt að hafa sameiginlegan matsal og sameiginlegt eldhús, vegna þess að ekki væri hægt að hafa svo gott samkomulag milli skólanna, að slíkt væri mögulegt. Að fenginni slíkri yfirlýsingu, get ég ekki séð, að menntaskólinn ætti frekar að vera á Laugarvatni en annars staðar. Ef samkomulagið er svo lélegt á ekki stærri stað, að ekki sé hægt að spara stórkostlegan kostnað við að hafa jafnsjálfsagt samstarf og ætti að vera á því, sem hér er um að ræða, þá held ég, að bezt sé að hafa millibilið milli skólanna meira en svo, að þeir séu báðir í sama húsi.

Hv. frsm. sagði, að það hefði verið aðaláhugamál afturhaldsins í Reykjavík að koma ekki upp heimavist við menntaskólann í þau 25 ár, sem liðin væru síðan það var hugsað. Ég skal ekki um það segja, hvaða menn hann á hér við. Ég vil leyfa mér að benda á það, að mestallan þennan tíma hefur þetta mál fyrst og fremst verið undir stjórn rektors menntaskólans hér, og þá hefur það líka verið hans að berjast fyrir því, að byggður yrði heimavistarskóli hér, eins og rektor menntaskólans á Akureyri hefur talið það skyldu sína að berjast fyrir þessu máli þar og hefur orðið mikið ágengt. Ég veit ekki, hvort meðflutningsmaður hans að þessu frv. er á sama máli um það, að rektor menntaskólans hér eigi mesta sök á því ófremdarástandi, sem hv. frsm. segir, að sé á skólanum. Mér dettur ekki í hug, að á þeim peningatímum, sem hafa verið hér í landinu, hefði ekki verið hægt að bæta húsakost menntaskólans, eins og ýmissa annarra skóla hér, ef rektor hefði sótt það fast. Þá væri alveg áreiðanlega öðruvísi umhorfs hér við Menntaskólann í Reykjavík.

Þá ræddi hv. frsm. nokkuð um þá nauðsyn að draga úr aukningu Menntaskólans í Reykjavík og taldi það óhollt fyrir þjóðina, að þangað væri hrúgað öllum menntastofnunum, og jafnvel líka, að hlúð væri að þeim menntastofnunum, sem fyrir væru. Hv. frsm. segir, að þegar menntaskólinn á Akureyri hafi verið byggður, þá hafi hluti þjóðarinnar verið í Reykjavík, en nú muni nær helmingur þjóðarinnar vera þar. Ég fullyrði, að þessi aukning Reykjavíkur stendur ekkert í sambandi við menntaskóla. Kröfurnar um byggingu nýrra menntaskóla í Reykjavík koma fyrir það, að aðstreymi fólksins hefur verið til Reykjavíkur, af því að hér eru betri skilyrði til góðrar lífsafkomu, betri atvinnuskilyrði. Það á svo að hegna þessum mönnum með því að gefa ekki börnum þeirra tækifæri til þess að fara á menntaskóla. Þau eiga þá heldur að fara til Ísafjarðar eða eitthvað annað til þess að læra þar. Það leiðir af sjálfu sér, að sá staður, hvar sem hann er á landinu, sem nú hefur yfir 50 þús. manns, þarf miklu stærri menntaskóla en hann þurfti, meðan íbúarnir voru aðeins 25 þúsundir. Það væri því rangt, án þess að ég vilji á nokkurn hátt draga taum Reykjavíkur, að neita þeim 25 þúsundum, sem við hafa bætzt, um nýjan menntaskóla, ef á sama tíma ætti að byggja nýja menntaskóla á öðrum stöðum, sem ekki hafa nema 3–4 þús. íbúa. Til sönnunar sínu máli segir svo hv. frsm., að þjóðin, með Reykjavík svo stóra, sé orðin eins og stórt höfuð með visinn líkama. Væri þá betra að snúa þessu við og gera líkamann stóran og sterkan, en höfuðið visið? Ég hef heyrt talað um, að menn með visinn líkama og heilbrigt höfuð hafi orðið þjóð sinni að meira gagni, en miklir skrokkar með léleg og visin höfuð. Það er það, sem hv. frsm. stefnir að, að þjóðin verði ekki neinn krypplingur, eins og hann talar um, með vel gefið höfuð, heldur mikill líkami með ónýtt höfuð, ef fólkinu fjölgar jafnmikið og verið hefur í Reykjavík, en á sama tíma er kippt burtu menntastofnunum. Hv. frsm. segir einnig, að Reykjavík sé versti staður til náms fyrir unglinga. Ég mótmæli þessum fullyrðingum. Við Menntaskólann í Reykjavík hafa verið valdir einhverjir allra beztu kennarar, sem völ er á, og þar með talinn núverandi rektor. Hann mun hafa bezt skilyrði af öllum skólum á landinu til þess að geta veitt góða kennslu, og er það ekki sagt til neins ámælis fyrir aðra skóla. Hvað er það þá, sem gerir það að verkum, að Reykjavík er versti staður til að nema í? Ég veit það ekki. Er Reykjavík slík Sódóma, að ekki sé hægt að vera í henni við nám á menntaskóla án þess að gerspillast, andlega og líkamlega. Ég mótmæli þeirri ósvífni, sem hv. frsm. hefur haldið fram hér um Reykjavík sem alveg rangri. Og ef borinn væri saman menningarbragur þess bæjar, sem hv. frsm. er frá, og Reykjavikur, þá er ég hræddur um, að Ísafjörður yrði ekki númer 1.

Ég hef þá rætt nokkuð ummæli hv. frsm. Ég tel, að sá háttur, sem hann hefur haft til þess að ná samúð með þessu máli, hafi verið rangur og að gott málefni þurfi ekki að nota ósanngjarnar fullyrðingar sér til stuðnings, það skemmi frekar en bæti. Mér virðist, þó að það kunni að hafa verið að einhverju leyti hugsun hv. frsm. að bjarga hér góðu máli, þá séu fléttaðar saman við það aðrar óskyldar og ljótar kenndir, sem ekki er sæmandi að flytja inn í umr. hér.