22.04.1949
Neðri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (3537)

47. mál, menntaskólar

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef nú raunar fáu að bæta við það, sem ég hef áður sagt. Hv. þm. Ísaf. slær því nú fram, að menntmn. hafi eigi vitað, hvað hún var að segja, er hún bar fram þessa rökstuddu dagskrá, en samtímis viðurkennir hann þó, að eigi hafi verið stofnaður menntaskóli á Laugarvatni. Í l. um menntaskóla stendur, að stofna skuli menntaskóla í sveit, þegar veitt sé til þess fé á fjárlögum. Ég hygg, að á fjárlögum hinna síðari ára sjáist hvergi þess konar fjárveiting. Að vísu má deila um, hvað meint sé, þegar rætt er um stofnun menntaskóla, en ég tel rétt að telja þar með allt, sem þarf til slíkra starfa, og ef um heimavistarskóla er að ræða, má telja þar með kennarabústaði samkvæmt nýju skólalöggjöfinni. Hitt er svo annað mál, að auðvitað er heimilt að stofna til hvers konar kennslu hvar sem er án fjárveitingar á fjárlögum til slíkrar kennslu, og vil ég í þessu sambandi minna á, að í Námsflokkum Reykjavíkur fer fram kennsla í ýmsum sömu greinum og í gagnfræða- og menntaskólum. Þá er einnig í Verzlunarskóla Íslands kennt til stúdentsprófs, og að öllu þessu athuguðu sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að á Laugarvatni sé veitt þessi umtalaða kennsla, þar sem engri fjárveitingu er varið til þessara mála á fjárlögum.

Annars hygg ég, að allar upplýsingar, sem þennan hv. þm. vantar, liggi frammi í þingtíðindunum.