19.12.1948
Efri deild: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Ég hef ekki lagt fram nál. og ætla því að gera það munnlega. Ég hef alltaf verið á móti þeirri leið, sem hér er farin, og er það enn, og ég tel hana sízt betri, sem hún er oftar farin. Ég tel það ekki fært að gera aðalatvinnuveg landsmanna að ómaga, enda er með þessum ráðstöfunum tjaldað til einnar nætur og ekki til frambúðar, og vafasamt, hve langt þessar ráðstafanir ná. Margar þjóðir halda niðri dýrtíð með því að greiða niður verðlag, en fáar þjóðir greiða niður sinn aðalatvinnuveg. Ég er á móti því, að aðalatvinnuvegur landsmanna og sá, sem gefur af sér allar gjaldeyristekjurnar, sé gerður að ómaga. Slíkt getur ekki gengið til lengdar, það. fælir þjóðina frá þeim atvinnuvegi, sem mest þarf að stunda. Fjármagnið leitar frá framleiðslunni og yfir í innflutningsverzlunina. Fyrir hvern dollara, sem útgerðin aflar, fær hún greiddar kr. 6,50, en á svörtum markaði er dollarinn seldur fyrir þrefalt verð. Aðstaða útflutningsframleiðslunnar verður aldrei lagfærð, nema framleiðslan fái það verð fyrir þann gjaldeyri, sem hún framleiðir, sem innlendur markaður er fús til að greiða fyrir erlend gæði. Nú fær þessi framleiðsla ekki nema nokkurn hluta af því, sem hennar gjaldeyrir er verður. Þess vegna er það, að svona lækning eins og þessi getur ekki læknað. Meðan svona hagar til, hlýtur að hallast því meira á ógæfuhliðina sem lengur gengur í þessa átt. Með frv. þessu er stofnaður dýrtíðarsjóður, sem á að standa undir greiðslum til dýrtíðarráðstafana. Það út af fyrir sig er kannske gott form, en það er engin lausn á þessu máli fengin með myndun dýrtíðarsjóðs. Það er bara um formsbreytingu að ræða, vegna þess að ríkissjóður hlýtur áframhaldandi að standa að hálfu leyti undir þessum greiðslum, eftir sem áður, ef dýrtíðarsjóður hrekkur ekki til. En þá kem ég líka að öðru meginatriðinu í þessu máli, sem er það, að ríkissjóður er með þessu að taka á sig byrðar, sem hann hefur ekki hugmynd um, hverjar eru og við höfum ekki hugmynd um, hvort hann getur staðið undir. Árangurinn verður svo sá, að þegar ríkissjóður getur ekki staðið undir þeim byrðum, sem honum eru bundnar, þá sekkur hann dýpra og dýpra í skuldafenið. Ríkissjóður hefur safnað undanfarin 2 ár 100 millj. kr. skuldum, og mjög veruleg upphæð af því er komið af ráðstöfunum eins og þessum, sem nú er verið að gera. Þó að lítið sé fram hjá þessum tveimur meginástæðum, að það er verið að halda uppi framleiðslu landsins, sem í raun og veru er svipt því verðmæti, sem hún vinnur inn, og í öðru lagi, að ríkissjóði eru bundnir baggar, sem enginn veit, hversu þungir verða eða hvort ríkissjóður getur staðið undir, þá er óvissan það mest áberandi við frv., óvissan um, hvað þetta kostar allt saman og hvort við getum staðið undir því, og óvissan um það, hvort útgerðin fer af stað, þó að frv. verði samþ. Og þó að ekki sé alltaf tekið mark á bréfum eins og þessu, sem hér hefur verið lagt inn frá útgerðarmönnum, þá verð ég þó að segja það, að mér finnst bréfið vera þannig stílað, að þeir mundu varla senda það inn, eins og það nú liggur fyrir, ef þeir meintu ekki neitt með því, sem þeir eru að segja þar. Eins og áður er tekið fram, er það óvissan, sem er mest áberandi við frv., á báðar hliðar, og mér finnst þá sú óvissa vera mest áberandi, ef frv., þegar samþ. verður, gerir ekki það gagn sem því er ætlað. Svo er það með tekjurnar samkv. 29.–30. gr. frv., sem mér skilst, að eigi að gefa af sér 14 millj. kr. Ég get ekki séð, hvernig hægt er að reikna út summur af þeim liðum, sem þar eru. Óvissan um þá liði er svo mikil, að enginn getur sagt um, hvaða áhrif þeir hafa til þess að geta gefið þær tekjur, sem þeim er ætlað. Ef svo væri, að þessir liðir ættu að gefa þessar tekjur, þá verður að álíta, að ætlun yfirvaldanna sé að gefa út gjaldeyrisleyfi fyrir bifreiðum, heimilistækjum og til ferðalaga erlendis. Ef ekki verða gefin leyfi fyrir þessum liðum, þá koma heldur engar tekjur vegna þeirra. Ég bendi aðeins á þessi atriði til þess að sýna óvissuna í þeim, en ætla ekki að fara frekar út í frv., vegna þess að ég tel þess ekki neina þörf. Ég hef ætlað að gera grein fyrir minni afstöðu, og hún er þessi, sem ég hef lýst. Ég þykist ganga út frá því gefnu, að sú leið, sem mest hefur verið rætt um undanfarin ár, sem sumir kalla verðjöfnunarleiðina, sé ófarandi eins og komið er. Ég álít, að sá tími sé liðinn, sem sú leið hafi verið fær. En sú leið, sem er nú farin, er ekki til frambúðar og ekki til eilífðar, heldur er hér tjaldað til einnar nætur. En hvað tekur þá við? Ég hef aldrei verið forsvarsmaður gengislækkunar, en tel, að hún sé síðasta neyðarúrræðið, sem verði að fara. En hvaða ráð eru eftir fyrir þing og stj. og þjóðina alla til þess að taka, svo að það verði eitthvað fast undir fæti í framtíðinni? Ég væri ekkert hissa á því, þó að ekki yrði langt þangað til við kæmumst að þeirri niðurstöðu, að við verðum að borga framleiðslunni það verð fyrir þann gjaldeyri, sem hún vinnur inn, sem gjaldeyririnn er verður.