29.04.1949
Neðri deild: 95. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (3550)

159. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Mér þykir ástæða til þess, þar sem ég er skráður sem flm. frv., að skýra nokkuð frá afstöðu minni til till. allshn. Ég vil í fyrsta lagi leiðrétta þann misskilning, að við flm. séum nokkur nefnd, sem hafi búið málið til flutnings. Málið hefur borið þannig að, að skipuð var mþn. fyrir 4–5 árum til þess að rannsaka kaupgreiðslur þingmanna og gera ákveðnar till. Það eru fjögur ár síðan n. lauk störfum, og þarf ég ekki að endurtaka það, sem ég sagði í minni framsöguræðu, að n. lagði verulega vinnu í að afla sér upplýsinga um kaup þingmanna í Norðurálfu og í Ameríku, en það var erfiðleikum bundið af því að þá stóð styrjöldin yfir, og varð að styðjast við skýrslur um kjör þm. fyrir stríð. En n. lauk störfum á ekki mjög löngum tíma og skilaði ríkisstj. gaumgæfilegu áliti. Síðan hafa setið 2 ríkisstjórnir og hvorug þeirra séð sér fært að bera fram frv., veit ég ekki um ástæðuna. Með samþykki þáltill. í þá átt á sínum tíma kom sá vilji fram, að lagðar yrðu fyrir þingið í frv.-formi till. n. um það, hver kjör þm. ættu að verða framvegis. Síðan eru liðin 4 ár. Þingfararkaupsn. hefur allan þann tíma verið í vanda stödd út af kaupi þingmanna, þar sem það er fjarri því að vera í samræmi við það, sem tíðkast annars staðar um þetta, og í algeru ósamræmi við kaupgreiðslur aðrar hér á landi. Þingfararkaupsn. hefur séð, að þingmenn — og þá einkum þeir, sem búsettir eru utan bæjar — hafa alls ekki getað lifað hér af launum sínum eins og sæmir mönnum í þeirra stöðu; en hins vegar hefur n. ekki getað vikið frá lögum, er um þetta gilda. Af þessum sökum er það, að þegar ríkisstj. sá sér ekki fært að leggja fyrir þetta frv., né heldur annað, er hún hafði sjálf látið semja, þá urðu umræður um það í þingfararkaupsn., hvernig snúast skyldi við málinu. N. hefur viljað koma sér út úr þeim vandræðum að þurfa að skammta þm. greiðslur sem alls ekki geta talizt sæmandi. Hvað eftir annað hefur verið grennslazt eftir því hjá forsrh., hvort frv. um þetta mundi verða lagt fyrir, og talið, að svo mundi verða, en ekkert orðið úr. Því varð að ráði, að hluti n. legði frv. fram í þeirri deild, þar sem þeir nm. áttu sæti, og var samþ. að leggja það fram í Nd. Hugsun okkar var sú, að þar sem fyrir lá þingsamþykkt um það, þá væri rétt, að þingið fengi frv. til athugunar og ætti þess kost að samþ. það eða fella, en það lægi ekki í handraða hjá forsrh. Við vildum koma því rétta boðleið til þingsins og töldum sjálfsagt að gera það. Vitanlega er upphaflega frv. orðið úrelt nú og því vitanlega ástæða til að breyta því í samræmi við tímann, þar sem liðin eru 4–5 ár síðan það var samið, og mér datt aldrei í hug, að það yrði óumbreytanlegt, þótt að lögum yrði.

Ég gat þess við framsögu, að við vorum ekki allir sammála, t. d. um eftirlaun eftir 10 ára þingsetu, það þótti mér of skammur tími til þess að miða eftirlaun við hann. Eins lagði ég til, þótt ekki gerði ég ágreining um það, að þingfararkaup yrði miðað við 14 mánuði, svo að þm. hefðu aðhald um að sitja hér ekki lon og don við þingstörf. Um málið að öðru leyti er það viðurkennt í nál. meiri hl., að þingfararkaupið sé ekki viðunanlegt, og er víst enginn ágreiningur um það. En ég vil taka það fram í þessu sambandi, að það er áberandi, hve illa er talað um Alþ. utan þings, og það er ekkert undarlegt í sjálfu sér, þar sem löggjöf þingsins snertir mjög almenning og ýmislegar ráðstafanir hljóta að verða óvinsælar. En að þessu níði um Alþ. standa líka margir, sem gjarna vildu eiga sæti í þessari virðulegu samkundu, en ekki hafa átt þess kost og fyllzt því gremju. En hverjar sem orsakirnar eru, þá er það staðreynd, að talað er um Alþ. með lítilsvirðingu og flutt um það hið leiðinlegasta níð, og ekki er laust við, að virðulegir þjóðfélagsborgarar hafi tekið þátt í þessu, og það er útbreidd skoðun, að þingmenn séu eiginlega engir menn. Nú verður það að teljast mjög óheppilegt, að þm. taki sjálfir þátt í þessu tali og örvi og ýti undir vantraust fólksins á Alþ. En því verður ekki neitað, að með því að meta sjálfa sig ákaflega lágt í öllum greinum, þá staðfesta þm. þennan dóm almennings, sem kann að eiga nokkurn sannleika í sér fólginn, en er þó ranglátur.

Ég segi þessi orð ekki í þeim tilgangi, að ég vilji sérstaklega krefjast þess, að þetta frv. verði samþ. Þingfararkaupið er það sama nú og venjulega hefur verið — verkamannakaup, eða því sem næst. En þar sem af þm. er krafizt víðtækrar þekkingar á fjölmörgum sviðum, er ekki óeðlilegt, að vinna þeirra sé metin eitthvað líkt og annarra, sem svipaðar kröfur eru gerðar til.

Ég vil að lokum aðeins bæta því við, að þingfararkaupið er nú eins og verkamannakaup í dagvinnu, eða 73 kr. á dag, en eftir frv. er lagt til, að það hækki í tæpar 100 kr. á dag. En ég vil lýsa því yfir, að hvort heldur sem dagskrártill. verður samþykkt eða ekki, þá mun ég láta mér það vel líka sem 1. flm. frv., en verði hún samþykkt, þá leyfi ég mér að lýsa því yfir, að þingfararkaupsn. mun líta svo á, að þar með sé hún laus úr öllum vanda og laus við alla tilhliðrunarsemi í sambandi við útreikning þingfararkaups.