19.12.1948
Efri deild: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. var ekki við hér í hv. d., þegar ég talaði við 1. umr. þessa máls. Þá spurði ég tveggja spurninga, sem mig langar til að endurtaka. Það kemur ekki ljóst fram í frv., að mér skilst, hvort þær 5 millj., sem um ræðir í 5 gr. og ríkisstj. á að leggja fram, eiga að koma úr dýrtíðarsjóði eða beint úr ríkissjóði. Þetta langar mig að fá að vita. Fjmrh., sem fjallað hefur um frv., hefur ekki séð sér fært að gera við það brtt., svo að þetta komi skýrt fram. Vera má, að nóg sé, að þetta komi fram í umr.

Þá vildi ég fá upplýsingar viðvíkjandi 14. gr. Hún fjallar um þau skilyrði, sem verða að vera fyrir hendi, til þess að það uppgjör, sem ætlazt er til, að fari fram, verði löglegt. Eitt af skilyrðunum fjallar um það, að útgerðarmaðurinn nái viðunandi samningum við lánardrottna sína, að dómi skilanefndar, á öðrum skuldum, til þess að útgerð hans verði rekin á fjárhagslega tryggum grundvelli framvegis. Í þessu sambandi spurði ég um það, hvort það væri skoðun ríkisstj. að, að óbreyttum atvinnuháttum í landinu væri nóg fyrir útgerðarmanninn að fá þetta skuldauppgjör, hvort hann með því væri kominn á fjárhagslega tryggan grundvöll með sína útgerð. Og ef það væri ekki, þá skilst mér, að öll ákvæði frv, séu fyrir gýg unnin, því að þetta er skilyrðið til þess, að hægt sé að gera upp skuldir útgerðarmannsins. Ég sagði áðan, að mín skoðun væri, að ég sæi ekki, að það væri nokkrum útgerðarmanni nóg, þó að allar skuldir hans væru strikaðar út í dag, grundvöllurinn yrði samt sem áður ekki tryggður framvegis, og þá skilst mér, að ekki sé hægt að veita honum lán samkvæmt 4. tölul. 14. gr.

Svo átti ég hér eina brtt. við 23. gr., á þskj. 272. Það er tekið fram í A-lið 23. gr., að ýmsar vörur séu undanþegnar söluskatti, þ. á m. eru vörur þær, sem þarf til framleiðslu hvað útgerðina snertir, en hins vegar er þar ekkert talað um þær vörur, sem þarf til landbúnaðarframleiðslu. Ég hef heyrt það sagt, að hæstv. fjmrh. hafi gefið þær yfirlýsingar, að þetta mundi verða ákvarðað með sérstakri reglugerð, og fóðurbætir, landbúnaðarvélar o.fl. mundi undanþegið þessum skatti. Þetta hef ég heyrt sagt, en um sannindi þess veit ég ekki og vildi mjög gjarna fá vitneskju um það hér. Ég tel ekki mögulegt að gera slíkt eftir reglugerð. Það er tekið fram í 27. gr., að það megi setja reglugerð um vissar vörutegundir og þjónustu, ef álagning skattsins og innheimta hans sé sérstökum erfiðleikum bundin, annars ekki. Mér skilst, að álagning og innheimta skatts af t.d. maísmjöli sé ekki bundin neinum sérstökum erfiðleikum og þess vegna ekki hægt eftir frv. að taka neitt fram um þetta í reglugerð, nema um framleiðsluvörur, sem notaðar eru jöfnum höndum til manneldis og skepnufóðurs. Þess vegna vil ég hnýta þessu hvoru tveggja aftan í 23. gr. og að tekið sé fram í reglugerð, hvaða vélar það eru, sem undanþegnar eru söluskatti. Þó að það sé tekið fram um ýmislegt smávegis varðandi sjávarútveginn, þá ætlast ég ekki til þess hvað landbúnaðinn snertir, heldur aðeins að það sé gert um hinar stærri vélar.

Að öðru leyti mun ég ekki gera frv. að umtalsefni. Þetta frv. er ekki nema til að minnka hraðann á leiðinni niður í verðbólgudíkið, sem fyrrverandi ríkisstj. bjó til. Það stoðar ekki til að koma þjóðinni upp úr því díki, en minnkar eitthvað hraðann niður í hyldýpið.