25.04.1949
Neðri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (3577)

34. mál, fjárhagsráð

Jón Pálmason:

Herra forseti. Eins og hv. flm. tók fram, þá er nú liðinn alllangur tími síðan þetta frv. var lagt fram, og enn er ekki komið álit frá hv. meiri hl. fjhn., en hvort það stafar af því, að hæstv. ríkisstj. leggur til, að það nái ekki fram að ganga, eða það eru einhverjar aðrar orsakir, sem til þess liggja, veit ég ekki. Strax og frv. kom fram, flutti ég margar brtt. á þskj. 97. Eins og hv. þm. geta séð, þá fara þær í þá átt að gerbreyta þessu frv., sem byggt er á l. nr. 70 5. júní 1947, um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit. Eins og hv. þm. minnast, var ég frá upphafi andvígur þessum lögum og taldi þau ganga í þá átt að færa allt verzlunar- og viðskiptalíf í fjötra hafta og skömmtunar, auk þess sem öllum þeim nefndum, sem það gerði ráð fyrir, að yrðu stofnaðar, var gefið allt of mikið vald, og undir þeirra verndarvæng gæti þróazt alls konar óreiða og sukk, til skaðsemdar fyrir þjóðfélagið, og sú hefur einnig orðið raunin á.

Þær nefndir, sem nú ráða mestu í þessum málum, eru 1. viðskiptanefnd, 2. fjárhagsráð, 3. millibankanefnd, og skipta þessar nefndir valdinu á milli sín. Reynslan hefur sýnt, að þótt leyfi hafi fengizt á einum stað, hefur verið synjað á öðrum og oft hlotizt af þessu mikil vandræði með að fá vörur til allra nauðsynlegustu þarfa. Er ekki þörf á, að ég reki þetta nánar, það er öllum hv. þm. svo vel kunnugt. Í stað þessara nefnda legg ég til í brtt. að komi aðeins ein nefnd eða ráð og kallist það fjárhagsráð. Sé það skipað með nokkuð öðrum hætti, en það fjárhagsráð, sem nú starfar, eða þannig, eins og segir í brtt., 1. lið a, að í því séu 5 menn, einn tilnefndur af bankastj. Landsbankans, og sé hann úr þeirra hópi, annar af bankastj. Útvegsbankans á sama hátt og þrír skipaðir af ríkisstj. án tilnefningar. Ráðið skal kjósa sér sjálft formann. Ég legg til, að ráðið sé þannig skipað, til þess að fyllsta samræmis sé gætt með öflun og eyðslu gjaldeyrisins og það sé aðeins ein nefnd, sem hafi valdið í þessum málum, svo að eitt þurfi ekki að reka sig á annars horn. Þessi skipan er að vísu nokkuð lík því, sem var á fyrstu árum verðlagseftirlitsins og haftanna og ekki gafst vel í fyrstu, en þó mun betur, en sú skipan, sem á þessu hefur verið síðustu árin. Í brtt. er tekið fram að fjárhagsráð eigi að vinna að því, að sá gjaldeyrir, sem þjóðin aflar, sé notaður á sem hagkvæmastan hátt til vörukaupa erlendis frá og þær vörur seldar almenningi, með sem hagstæðustu verði.

Ég fellst á, að fjárhagsráð semji, eins og verið hefur, áætlanir um, hve miklum gjaldeyri sé hægt að verja til vörukaupa ár hvert og skipti innflutningnum niður í vöruflokka, og sé þá miðað við, að innflutningur á neyzluvörum sé í sem mestu samræmi við skömmtun, að svo miklu leyti sem hún er framkvæmd, en annars í sem fyllstu samræmi við notaþörf. Því, sem eftir er þá af áætluðum gjaldeyri, skal varið til kaupa á framleiðslutækjum, byggingarvörum, efnivörum til iðnaðar og þeim vörum, sem framleiðsluatvinnuvegirnir þurfa til rekstrar framleiðslunni. Út í þetta skal ég svo ekki fara nánar, því að ég hygg, að þm. hafi gert sér vel ljóst, hvaða breytingu till. mínar hafa í för með sér á frv.

Hv. þm. V-Húnv. og aðrir hv. flm. þessa frv. virðast gera það að grundvallaratriði, að skömmtunarseðlarnir séu gerðir að innflutningsheimild. Almenningur gæti þá framvísað þessum innflutningsheimildum í hvaða verzlun sem væri og einstaklingurinn óskaði helzt að verzla við. Þessa aðferð tel ég mjög hættulega og hygg, að hún mundi skapa enn verra ástand í þessum málum, en nú er. Eftir minni till., sem er í samræmi við ályktun kaupstaðaráðstefnunnar frá s.l. hausti, skal fjárhagsráð úthluta leyfum til verzlunarsvæða, kaupstaða og kauptúna í réttu hlutfalli við íbúatölu á hverju verzlunarsvæði. Síðan skulu Verzlunarráð Íslands og S.Í.S. úthluta leyfunum til smásöluverzlana, kaupfélaga og verzlunarhlutafélaga. Smásalarnir og kaupfélögin hafa þannig frjálst val og alveg á valdi sínu, hvaða heildsölufyrirtæki eða innflytjanda þau láta útvega sér vöruna. Varðandi okkur kaupfélagsmenn kæmi það þannig út, að kaupfélögin færu með leyfin til S.Í.S. og létu það útvega sér vöruna, en til annarra innflytjenda, ef þau fengju betri kjör þar. Ef farið væri eftir minni till., mundi fjárhagsráð úthluta leyfum til landshluta og héraða eftir fólksfjölda og þessu þannig komið í mun fastara horf en nú er, um leið og komið væri í veg fyrir, að ákveðnir landshlutar yrðu afskiptir um þær vörur, er til landsins eru fluttar. Það getur kannske orkað tvímælis að láta Verzlunarráð Íslands og S.Í.S. skipta leyfum í sameiningu milli aðila innan ákveðinna héraða, en það legg ég til, að sé gert, vegna kunnugleika þessara aðila fram yfir aðra. Nú mætti gera ráð fyrir, að ekki náist alltaf samkomulag milli þeirra um skiptinguna, og skal þá viðskmrh. skera úr. Nú, að öðru leyti get ég gengið inn á nokkur atriði í frv., svo sem að felld sé niður skömmtun og látið sé heyra undir fjárhagsráð að koma þeirri breyt. á.

Með þessum orðum hef ég nú lýst aðalatriðunum í brtt. mínum á þskj. 97, og fæ ég eflaust tækifæri til að svara andmælum gegn þeim síðar. Í stuttu máli eru aðalbrtt. mínar:

1. Ein nefnd komi í stað þeirra þriggja, sem nú sjá um innflutning, og sé hún skipuð með öðrum hætti en nú er gert.

2. Takmarkað verði svo valdsvið hennar, að hún geti ekki þanið arma sína yfir allt athafnalíf landsmanna, vegna þess að úr því verður aldrei annað en vitleysa.

3. Vöruleyfum sé úthlutað til landssvæða og verzlunarstaða eftir fólksfjölda.

4. Það sé falið Verzlunarráði Íslands og S. Í. S. að sjá um skiptingu leyfanna milli smásöluverzlana.

Ég get ekki fallizt á, að það sé nein allsherjarlækning, eins og haldið hefur verið fram í blöðum, að einstaklingar fái nokkurs konar skömmtunarseðla, sem einnig séu innkaupaheimildir, heldur mundi það aðeins verða til þess að gera allt þetta kerfi mun þunglamalegra og ýta undir alls konar brask með þessar innkaupaheimildir. Hitt hygg ég vera beztu lækninguna, að láta smásalana sjálfa hafa innkaupaheimildir, og tvímælalaust einföldustu leiðina, sem hingað til hefur verið bent á. Ég skal svo að þessu sinni láta þessi orð nægja um mínar brtt. Ég skal geta þess, að ég tel það mikla nauðsyn, að ekki sé látið halda áfram það ástand, sem hefur verið og er síðan l. um fjárhagsráð voru sett.