26.04.1949
Neðri deild: 93. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (3582)

34. mál, fjárhagsráð

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Það hefur komið hér fram í umr., og það er satt, að þetta mál hefur legið mjög lengi hjá fjhn. þessarar hv. d. En það hefur líka komið fram, af hvaða ástæðu það er, í ummælum hæstv. viðskmrh. hér á síðasta fundi, að ég ætla, í þessari hv. d. Ég mun í þessari ræðu minni halda mér eingöngu við þetta frv. sem slíkt, því að ég sem einn nm. í fjhn. hef farið nokkuð ýtarlega í gegnum þetta frv. Og það kemur nú að nokkru leyti fram í því, sem ég ætla að segja hér, hvaða álit ég hef á því og hvort ég tel, að samþykkt þess mundi vera til nokkurra bóta eður eigi.

Þær höfuðbreyt., sem felast í frv. hv. þm. V-Húnv. o. fl. til breyt. á lögum nr. 70 5. júní 1947, um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit, greinast aðallega í tvennt: í fyrsta lagi breytingar á stjórn innflutnings- og verðlagseftirlits. Í öðru lagi breytingar á ríkjandi fyrirkomulagi á úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa. Hér á eftir verða þessi atriði athuguð hvert út af fyrir sig.

Fyrri kaflinn er um breytingar á stjórn innflutnings- og verðlagsmála. — Í 2. gr. frv. er svo ákveðið, að fjárhagsráð skuli sjálft veita innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, og er gert ráð fyrir, að innflutnings- og gjaldeyrisdeild samkv. 10. gr. laganna um fjárhagsráð verði felld niður. — Ég vil, áður en ég fer lengra hér, taka það sérstaklega fram, að ég gagnrýni þetta frv. alveg út af fyrir sig, og þar dreg ég saman atriði, sem mér finnst varhugaverð eftir byggingu frv. sjálfs. En það er ekki þar með sagt, að ég sé í einu eða neinu sammála því, sem fram kemur í þessu frv., vegna þess að yfirleitt tel ég það svo sundurlaust og illa byggt upp og svo gallað, að það í raun og veru komi alls ekki til greina að samþ. það eins og það liggur fyrir.

Í 7. gr. frv. er tekið fram, að fjárhagsráð geti falið sérstökum trúnaðarmönnum eftirlit með verðlagi, en embætti verðlagsstjóra á að leggja niður. Ekkert samsvarandi ákvæði er um, að fjárhagsráð geti falið sérstökum trúnaðarmönnum að annast veitingu gjaldeyris- og innflutningsleyfa. En í greinargerð með frv. segir svo á bls. 4-5:

„Þeirri mótbáru kann að verða hreyft, að með því að fela fjárhagsráði úthlutun leyfanna sé hætta á, að það geti eigi unnið svo vel sem skyldi að öðrum verkefnum, sem því er ætlað að hafa með höndum, sem er stjórn á fjárfestingu landsmanna og heildarákvarðanir um utanríkisviðskiptin. En auðvelt ætti að vera að haga framkvæmd leyfisveitinganna þannig, að það verk eyði ekki of miklu af vinnutíma sjálfra ráðsmannanna frá öðrum störfum í ráðinu. Samkvæmt þeim till., sem hér eru fram bornar, getur úthlutun innflutnings- og gjaldeyrisleyfanna að miklu leyti orðið verk skrifstofumanna í þjónustu fjárhagsráðs, þar sem úthlutun leyfa fyrir mestum hluta innflutningsins færi eftir fyrir fram ákveðnum reglum og aðalstarf sjálfra fjárhagsráðsmannanna varðandi úthlutunina yrði eftir sem áður að taka ákvarðanir um upphæð leyfanna í heild.“ — Þannig stendur þetta í grg. þessa frv., sem hér er um að ræða.

Það mun vera skýr reynsla frá fyrri tíð í sambandi við rekstur hinna ýmsu nefnda, sem hafa haft veitingu gjaldeyris- og innflutningsleyfa með höndum á undanförnum tíma, að slíkt hefur verið ærið starf, og breytir ekki miklu í því efni, þótt innflutningsleyfi fyrir skömmtunarvörum yrðu veitt á þann hátt sem segir í frv. — Það er glöggt, að ekki væri með nokkru móti viðhlítandi, að skrifstofumönnum í þjónustu fjárhagsráðs yrði falin úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa. Er það mjög mikil afturför frá þeirri skipan, sem er samkvæmt lögunum um fjárhagsráð, að til sé sérstök innflutnings- og gjaldeyrisdeild, ef í stað þessarar deildar eiga að koma einhverjir skrifstofumenn, ef til vill lítt ábyrgir. — Ég á við, að þetta sé ábyrg deild, en þessu sé ekki bara kastað í einn eða annan skrifstofumann, e. t. v. lítt ábyrgan. — Er ósamræmi í því að heimila fjárhagsráði að fela eftirlit með verðlagi sérstökum trúnaðarmönnum, en starfið við úthlutun innflutnings- og gjaldeyrisleyfa sé falið skrifstofumönnum. Það er augljóst, að fjárhagsráðsmenn geta ekki persónulega annazt veitingu innflutnings- og gjaldeyrisleyfa, enda er það ekki rétt, sem segir í hinum tilfærðu orðum í grg., að úthlutun leyfa fyrir mestum hluta innflutningsins fari samkv. frv. eftir fyrir fram ákveðnum reglum, sem geri úthlutun allra leyfa einfalt verk. Engar slíkar fastar en þó einfaldar reglur eru í frv., og verður vikið að því síðar. Það verður eftir sem áður umfangsmikið og ábyrgðarmikið starf að úthluta innflutnings- og gjaldeyrisleyfum. — Það sama gildir um embætti verðlagsstjóra. Að vísu er þó, eins og áður er sagt, gert ráð fyrir því í frv., að sérstökum trúnaðarmönnum verði falið að gegna þeim störfum, en aðgengilegra er þó, að embætti verðlagsstjóra haldist, og líklegra til árangurs, enda er ekkert, sem bendir til, að neinn sparnaður yrði við að leggja niður þetta embætti og láta sérstaka trúnaðarmenn koma í staðinn.

Í 4. mgr. 4. gr. frv. er tekið fram, að vöruskömmtun skuli falin fjárhagsráði. Samkv. l. um fjárhagsráð fer innflutnings- og gjaldeyrisdeild með vöruskömmtun, en hana á nú að leggja niður. Að öðru leyti er ekkert sagt í frv. um vöruskömmtun, og sýnist mega leiða af því, að framkvæmd hennar eigi áfram að verða í höndum sömu aðila og nú er, enda er varla séð, hvernig fjárhagsráð geti annað því að hafa sjálft skömmtun vara með höndum.

Í öðru lagi er breyting á gildandi fyrirkomulagi á úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa. — Meginbreyt. felst í 3. gr. frv. um úthlutun innflutnings- og gjaldeyrisleyfa fyrir tilteknum vörutegundum, sem er þannig, að hún fari fram til einstaklinga eins og nánar er ákveðið. Það mun vera einróma álit kaupsýslumanna, að slíkt fyrirkomulag yrði með öllu óframkvæmanlegt, og ber margt til. Þótt auðvitað sé ekki auðvelt að gera sér grein fyrir því út í æsar, hvaða afleiðingar slík regla hefði, ef hún yrði að lögum, er þó unnt að benda á nokkur glögg atriði. Reglan í 3. gr. frv. mundi leiða til harðvítugrar samkeppni milli verzlana innbyrðis um að ná til sín slíkum innflutnings- og gjaldeyrisleyfum hjá einstaklingum, og yrðu þá mörg ráð notuð. Nokkur reynsla í þessu efni fékkst fyrir jólin 1947, þegar stofnaukar fyrir eplum voru gefnir út, en það var þó aðeins lítilfjörlegur forsmekkur af því, sem verða mundi í þessum efnum, ef reglan í 3. gr. frv. yrði að lögum. Af slíku kapphlaupi um innflutnings- og gjaldeyrisleyfin mundu stafa ýmiss konar ólögmætir verzlunarhættir, leyfin mundu ef til vill ganga kaupum og sölum, og glundroði, sem ekki yrði fljótlega lagfærður, hljótast af. Og vil ég kveða fastar að orði um það, því að það var svo hér á fyrsta haftatímabilinu, 1931 og þeim árum, að þá komust innflutnings- og gjaldeyrisleyfin hér kannske gegnum þrjá eða fjóra liði, áður en þau voru notuð endanlega. — Er þetta atriði eitt út af fyrir sig nægilegt til þess, að með engu móti væri unnt að lögfesta regluna í 3. gr. frv., en þó kemur miklu fleira til greina, og verður fátt eitt af því talið hér. Reglan í 3. gr. frv. mundi t. d. leiða af sér, að verzlunaratvinna yrði mun umfangsmeiri og flóknari. Gera má ráð fyrir, að mikið yrði um, að einstaklingar afhentu verzlununum gjaldeyris- og innflutningsleyfi sín fyrir fram. Yrði viðkomandi verzlun þá að bóka nákvæmlega hverja afhendingu leyfis frá einstaklingi og hverja úttekt hans. Þetta yrði svo erfitt í vöfum, að telja má það raunverulega óframkvæmanlegt,

þótt á pappírnum væri látið heita að slíkt væri unnt. Í slíkum fyrirframafhendingum innflutnings- og gjaldeyrisleyfa fælist einnig talsverð áhætta fyrir einstaklingana, og meðan vöruskömmtunin er höfð, er það eitt sjálfsagt, að fyrirkomulagið sé þannig, að vara komi þegar í stað móti seðli. En reglan í 3. gr. gæti án alls vafa leitt til þess, að slíkt yrði ekki framar aðalreglan, heldur mundi mest bera á fyrirframafhendingu innflutnings- og gjaldeyrisleyfanna.

Reglan í 3. gr., 3. málsgr., um, að þegar fjárhagsráð veiti fjárfestingarleyfi, skuli það jafnframt veita þeim, sem fá slík leyfi, innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir öllum þeim erlendu vörum, sem þurfi til framkvæmdanna, er þess eðlis, að hún er með öllu óframkvæmanleg. Þær vörur, sem útvega þarf til framkvæmda, eru auðvitað mjög margvíslegar, og þegar fjárfestingarleyfi er veitt, er oft að meira eða minna leyti óvíst, hve mikið þarf af ýmsum vörum til framkvæmda. Ef slíkt ákvæði yrði að lögum, er glöggt, að ekki gæti framar orðið að ræða um nokkurt eftirlit með vöruinnflutningi til landsins, sem hald væri í.

Í 3. gr. segir, að um gjaldeyrissölu bankanna gegn þeim leyfum, sem miðuð eru við vörumagn, skuli farið eftir reglum, sem um það verði settar. Ekki er gefin nein bending um, hvernig þær reglur verði, og því síður er nokkuð minnzt á það, hvaða reglur skuli gilda um sölu gjaldeyris gegn leyfi, sem hljóðar um tiltekið verð. Í 3. gr., 2. mgr., segir, að innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir kornvörum kaffi og sykri séu miðuð við ákveðið vörumagn en fyrir öðrum skömmtunarvörum við verð. Í 3. gr., 4. mgr., segir, að verzlanir og fyrirtæki, sem fá þau innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, sem einstaklingum eru veitt samkv. 1. og 2. málsgr., þ. e. fyrir skömmtunarvörum, skuli framvísa þeim hjá sýslumönnum og bæjarfógetum (í Reykjavík hjá fjárhagsráði). Þar séu upphæðir leyfanna lagðar saman og þeim skipt fyrir tölusett heildarleyfi, er innflytjendur síðan framvísa hjá tollyfirvöldum og bönkum.

Það er glöggt, að ákveða þarf, hvað innflutningsleyfi, sem hljóðar á söluverð, skuli gilda að innflutningsverði, og er ómögulegt að ætla sýslumönnum og bæjarfógetum að ákveða slíkt, enda mun það varla vera tilætlunin, þótt svo gæti virzt af orðalagi frv. Í 4. gr. síðustu mgr. er svo ákveðið, að ríkisstjórnin geti bannað að selja tilteknar vörutegundir (aðrar en skömmtunarvörur), nema gegn innflutnings- og gjaldeyrisleyfum, enda sé þá jafnframt ákveðið hlutfall milli leyfisupphæðar og útsöluverðs vörunnar í hverjum vöruflokki.

Í 3. gr. frv. vantar algerlega ákvæði um, hvernig skuli ákveða innflutningsverðið, þegar gjaldeyris- og innflutningsleyfum, sem hljóða á söluverð, er skipt fyrir ný leyfi, sem hljóða á innflutningsverð. Þetta er vitaskuld mjög þýðingarmikið atriði, en þetta sýnist vera eitt af þeim mörgu ákvæðum í lagafrv. þessu, sem ekki virðast hugsuð.

Þetta er vitanlega ekki nema nokkuð af því, sem hefur legið nokkuð lauslega fyrir manni að rekast á, viðkomandi göllum þessa frv., því að það er svo staksteinótt í þessu frv., að það er mjög erfitt að finna, hvernig á að framkvæma þetta fyrirkomulag, sem hér er stungið upp á, svo að nokkurt öryggi geti hér verið um að ræða, og þarna er ekki sízt að tala um neytendurna í landinu, að það er ákaflega mikil varasemi, sem þarna gætir í réttlátri dreifingu um landið, og að það er verið að íþyngja verðlaginu að óþörfu. En ég hef minnzt á það, og held því fram hér, einmitt þar sem hér er lögð áherzla á að veita leyfi beint til neytenda, að við höfum reynslu fyrir því, að það geti orðið hreinasta fjarstæða. Ég man eftir því, að það komu menn austan úr héruðum á árunum 1932–33 og sögðu: Ég fékk þetta leyfi, en er hægt að fá eitthvað fyrir það. Þetta var mjög algengt.

Ég tel mig hafa farið nokkuð samvizkusamlega í athugun minni á frv., og hef ég í einu og öllu reynt að halda mig einhliða við efni málsins út af fyrir sig, en eins og ég tók fram, þá eru það því miður aðeins örfá dæmi, sem ég hef bent á, en þyrfti að athuga miklu nánar. Og ástæðan til þess, að meiri hl. fjhn. hefur ekki komið fram með nál., er sú, að við vonuðum, að það kæmi fram frv. frá hæstv. viðskmrh., því að hann var á fundi hjá fjhn. á sínum tíma og óskaði þess persónulega, að svo mætti verða. En að lokum get ég ekki látið hjá líða að koma með undrun mína yfir því, að menn skuli ekki vilja láta innflutningsverzlunina sjá um að ná vörum til landsins. Ég á þar við S. Í. S. og svo þá kaupsýslumenn, sem ýmsir dm. kalla heildsala. En það er áreiðanlegt, að í gegnum þessa þjónustu, sem er öll út á við, hvort sem hún er framkvæmd af S. Í. S. eða heildsölum, þá var þar um að ræða stórkostlega framför á stríðsárunum, þannig, að stjórnarvöldin fóru fram á, að það væri tryggt svo og svo mikið vörumagn til landsins, svo að ekki þyrfti, þótt eitthvað bæri út af, að verða vöruþurrð að nauðsynjalausu. Og mér vitanlega var samkomulag milli S. Í. S. og annarra innflytjenda, þar sem það voru alltaf í landinu 6–8 mánaða vörubirgðir, en í dag er allt uppþurrkað, og því eru báðir þessir aðilar mjög á móti. Og það kom fram hjá hæstv. viðskmrh., að hann ætlast til, að inn komi meira magn af vörum en ákveðið er eftir skömmtunarreitunum, sem í umferð eru, þannig að það mætti rétta hluta þeirra, hvort sem það eru kaupfélög eða aðrir, sem yrðu ef til vill fyrir órétti. — Ég gæti talað miklu meira í sambandi við þessi mál, en ég hef lokið við að koma með aths. og hef haldið mér eingöngu við þetta frv. En þar sem fundartími er úti, þá læt ég hér við sitja.