28.04.1949
Neðri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (3585)

34. mál, fjárhagsráð

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég undrast stórlega ræðu hv. 2. þm. Reykv Hann lét svo um mælt, að samþingsmenn sínir væru búnir að gleyma, hvað væri frjáls verzlun. Ég efast um, að þessi hv. þm. viti, hvað er frjáls verzlun. Hann sagði, að hér hefði ekki verið um neina frjálsa verzlun að ræða eftir 1914. Ég held, að þar sé nú fullmikið sagt, en megingallinn á ræðu þessa hv. þm. var sá, að hann vill reka verzlunina á annan hátt en nokkur önnur menningarþjóð gerir. Hann vill algerlega þurrka út alla innflutningsverzlun, hvort sem um er að ræða S. Í. S. eða heildsalana. Innflutningsverzlun okkar Íslendinga hófst eiginlega 1913–14, en komst svo meira til framkvæmda eftir fyrra stríðið. Samvinnufélögin höfðu t. d. skrifstofu í Kaupmannahöfn fyrir stríð, en þá varð allt að ganga gegnum danska kaupmenn. Íslendingar vildu ekki una því, og þess vegna var það, að við fórum að beina viðskiptum okkar til Englands og Ameríku. Áður en síðasta stríð skall á, hafði því verzlun okkar flutzt vestur á bóginn, og það hefur svo þróazt síðan. Á þessu sést bezt, hvernig Íslendingar hafa alltaf gripið tækifærin, þegar þau hafa gefizt, og hvernig þeir hafa ætíð reynt að fá vöruna frá fyrstu hendi. — Þetta er svo sem ekki nýr hugsunarháttur hjá hv. 2. þm. Reykv. Hann vill fyrst ráðast á hina ungu verzlunarstétt okkar og leggja hana hreinlega að velli. Ég vil nú spyrja: Í hvaða menningarlandi er verzlunarstéttin, og þá fyrst og fremst innflutningsverzlunin, jafnhundelt og hér á landi af hálfu sumra stjórnmálaflokka? Það hlýtur að vera augljóst, að eftir að við höfum náð slíkum samböndum, sem við nú höfum, bæði í austri og vestri, að þá eru það allmargir landar, sem nú bjóða vöruna frá fyrstu hendi. Þetta er heildsalan okkar, en það er það orð, sem hv. 2. þm. Reykv. vill algerlega þurrka burt úr íslenzku máli, bæði í orði og á borði. Í öðrum löndum er innflutningurinn studdur með ráðum og dáð af því opinbera, og þegar síðasta stríð skall á, var fyrst leitað til innflytjendanna, því að alltaf verður að flytja vörur til landanna, hvað sem á gengur. Hv. 2. þm. Reykv. heldur því svo fram, að það skapi frjálsa verzlun að úthluta 100–200 kr. leyfum á mann. Fjöldi þessara leyfa mundi liggja ónotaður af þeirri ástæðu, að fjöldi fólks ætlast til þess, að aðrir sjái um innflutning varanna, og þetta fólk gefur sér ekki tíma til þess að standa í slíku stússi sem þetta hlýtur óhjákvæmilega að hafa í för með sér. Hlutverk frjálsrar verzlunar er að skapa jafnvægi í verzlunarmálunum, en það getur slíkt uppboð aldrei gert. — Hv. 2. þm. Reykv. vitnaði í orð mín á allt öðrum grundvelli, er hann var að tala um, að þetta mundi leiða til harðvítugrar samkeppni milli verzlananna. Ég álít, að það sé ekki heppilegt að stofna til harðvítugrar samkeppni um að ná innflutnings- og gjaldeyrisleyfunum frá einstaklingunum og að við eigum alls ekki að bjóða í þessi leyfi út af fyrir sig, enda held ég, að það verði aldrei til þess að lækka dýrtíðina og vöruverðið, ef leyfi fyrir vörunum eru fyrst keypt háu verði, og um það efni mun framkvæmdastjóri S. Í. S. ábyggilega vera mér sammála. Ég vil benda á, að þegar er fengin reynsla í þessum efnum, nefnilega um jólin 1947, og þá fór það svo, eins og allir vita, að kaupmenn og kaupfélög slógust út af stofnaukunum fyrir eplum. Á árunum 1931–32 voru gefin út svona leyfi og útkoman varð sú, að fjöldi þessara leyfa dagaði uppi. Neytendurnir gleymdu leyfunum eða þá að þeir sögðu, að þetta hefði verið svo lítið, að sér hefði ekki fundizt taka því að panta út á þau. Ég vildi óska þess, að hv. 2. þm. Reykv. gæti sannað mér, að í einhverju öðru landi en hér á Íslandi sé ráðizt svo heiftarlega á innflytjendur eins og gert er hér á landi. Ég veit, að það þekkist hvergi að ráðast þannig á þá menn, sem leita upptaka varanna, enda er það glæpur gagnvart neytendunum. Það hefur verið rætt um það, að bændur og einstakir menn gætu fengið innflutningsleyfi fyrir þær vörur, sem þeir þyrftu að nota, en ég skil ekki annað en að háttv. 2. þm. Reykv., jafnglöggur og greinargóður maður og hann er, sjái hvílíkt öryggisleysi yrði þá í þessu um allar vörubirgðir og vöruinnflutning til landsins, ef þessi háttur yrði upp tekinn. Svo er það að hinu leytinu ekkert nema eðlilegt, að maður, sem fær t. d. 200 kr. innflutningsleyfi, kemur til Péturs eða Páls og getur sagt við hann: Heyrðu, vinur, ég skal láta þig hafa þetta leyfi, þú lætur mig hafa aura fyrir. — Ég tel þess vegna, að þetta sé bæði vitlaust og hættulegt. En ég held því hins vegar fram, að það sé auðvelt að komast að samkomulagi um innflutninginn á milli heildsala og kaupfélaga. Hingað til hafa kaupfélögin álitið það bezt að hafa ekki vörur, sem heildsalarnir hafa flutt inn, og öfugt. Ég get t. d. sagt hv. þm. það, að mörg undanfarin ár hef ég flutt inn vörur til landsins, sem eru að magni til hliðstæðar þeim, sem kaupfélögin flytja inn. Þessar vörur hafa farið til 19–20 hafna úti um land, og ég hef alltaf lagt áherzlu á að skipa vörunum fyrst út um land, áður en þeim er afskipað hér í Reykjavík. Þetta hefur náttúrlega gengið allmisjafnlega, en ég get sýnt hv. þm., að þetta hefur verið gert. Við vitum um verðlagseftirlitíð, og með hverri sendingu verða innflytjendurnir að leggja fram reikninga, sem eru gagnrýndir af verðlagseftirlitinu. Það eru athugaðir reikningarnir frá verksmiðjunum, og það er hægt að komast að því, hvort það sé hagkvæmast að verzla við þau fyrirtæki, sem verzlað er við. Fraktin er reiknuð, og það er athugað, hvort leigð hafi verið ódýrustu skipin til flutninganna. En þetta yrði allt saman með öðrum hætti, ef þessi háttur yrði upp tekinn, að láta hvern einstakan hafa sitt smáleyfi. Það yrði aldrei hægt að flytja inn í eins stórum slöttum, fyrr en búið væri að safna saman öllum smáleyfunum, þá fyrst væri hægt að bjóða þau kjör, sem boðleg eru. Mig sannast að segja furðar á því, að hv. 2. þm. Reykv. skuli ekki sjá þetta. Hann má ekki láta persónulega óvild gagnvart vissri stétt leiða sig afvega, því að hann á að vita það, að hann vegur mest gagnvart neytendunum með því að gera það. En við skulum nú vona, að hann átti sig á þessu. því að hann getur ekki mótmælt, að þessu er þannig varið.

Ég vitnaði til tímans fyrir 1914, og ég er reiðubúinn til að sanna það, hve hörð sú orrusta var, sem kaupmenn áttu í til þess að leysa frá umboðslaun, sem fóru til Danmerkur. Mörg dönsk firmu, sem höfðu umboð fyrir Danmörku, héldu því fram, að þau hefðu einnig umboð fyrir Ísland. Þessi firmu höfðu umboð á vörum frá Englandi t. d., og þeir kröfðust einnig umboðslauna fyrir vörur, sem fóru hingað. Við neituðum þá, að þeir tækju þessi laun. Við vildum kaupa vöruna beint frá viðkomandi firma, og við gátum það. Ég veit það, er alveg viss um, að hv. 2. þm. Reykv. sér, hve hættulegur háttur það er að dreifa smáleyfum út um allt land til einstaklinga. Við verðum að bjóða í svo mikið magn í einu, að við getum komizt að sem allra beztum kjörum, og kemur þá margt til greina. Þeir, sem bjóða ódýra vöru, gætu ekki gert það, ef þetta fyrirkomulag yrði ofan á.

Ég vil ekki fara inn á það nú, sem orð féllu um hjá hv. þm., að kaupfélögin og heildsalarnir væru að togast á um innflutninginn. En sannleikurinn er sá, að þau geta það ekki að öðru leyti en því, sem leiðir af hlutarins eðli. Það er „kvótasystemið“, sem deilt er um. En ég vil þá bara spyrja hv. þm.: Er það þá nokkuð meiri trygging fyrir betri verzlun, að öll verzlunin fari til kaupfélaganna? Þeir, sem mest hafa vit á þessu, hafa lagt áherzlu á það, að þetta jafnvægi milli kaupmanna og samvinnufélaga héldist, því að þá væri mest trygging fyrir beztum kjörum. En hitt er svo annað mál, að það er hvergi hægar að misbeita þessu en einmitt hér hjá okkur. Það er svo fjarri mér að vilja samvinnufélögin úr sögunni, en ég er hins vegar algerlega andvígur því, að þau tímabil, sem við þurfum mest að herða að okkur, séu notuð til þess að gera eina stofnun miklu sterkari en hinar, því að það kemur harðast niður á neytendunum. Ég vitnaði áður í samvinnufrömuð, sem var í Danmörku. Það var lögð fyrir hann sú spurning, hvort hann vildi útiloka kaupmenn. Hann sagði þá, að það versta áfall, sem samvinnufélögin gætu fengið, væri að útiloka kaupmenn, því að bezt væri, að þessir tveir aðilar ættust við á grundvelli frjálsrar samkeppni.

Ég hef nú dvalið nokkuð lengi við þetta, vegna þess að hv. 2. þm. Reykv. var hér að ræða um grundvallaratriði, sem ég held, að hann hafi misskilið, því að ég ætla hann ekki vera þann mann, að hann geti ekki viðurkennt þessa stétt manna, af því að honum er persónulega í nöp við hana.

Það hafa orðið miklar og stórkostlegar breytingar á þessu sviði hjá okkur frá því fyrir 1914 og til þessa dags. Það er mikill munur á því, hvað við kaupum nú betri vörur og bjóðum betri vörur núna en þá handa neytendum í landinu. Það eru stórkostlegar framfarir. Mér skilst það á hv. 2. þm. Reykv., að hann áliti, að hér sé um hreina auðvaldsstétt að ræða, en sannleikurinn er sá, að marga af þessum mönnum vantar jafnvel nauðsynlegasta rekstrarfé, þó að margir séu sæmilega vel stæðir, sem betur fer. En hvernig hefur þetta svo gengið fyrir sig? Bæði kaupmenn og kaupfélög hafa orðið að taka lán til þess að geta rekið þessa verzlun, og báðir þessir aðilar hafa orðið fyrir miklum áföllum. En hvernig færi svo, ef gengið væri að þessari stétt dauðri? Þá stæðum við ábyggilega langt að baki því, sem við vorum í upphafi. Ef farið yrði eftir stefnu hv. 2. þm. Reykv. og neytendur fari til umboðsmanna sinna, helzt fram hjá öllum heildsölum, bæði hérlendum og erlendum, þá yrði það mjög hættuleg leið. En hins vegar er bezta tryggingin fyrir hagkvæmustu kjörum og beztri vöru að fá hana hjá þeim, sem hafa bein sambönd við stærstu fyrirtæki úti í heimi, hvort sem það er nú S. Í. S. eða heildsali, sem hefur þessi sambönd.

Ég ætla ekki að fara að ræða þetta nánar, en fór út í þetta af því, að það kom fram í ræðu hv. 2. þm. Reykv., að hann álítur, að bezta tryggingin fyrir neytendurna sé, að þeim sé úthlutað smáleyfum. En það er ekki nema hálfur sannleikur, því að innflytjandinn fær leyfi — það er alveg rétt, en það er hins vegar engin trygging fyrir því, að neytendurnir fái vöruna eða fái hana með eins góðum kjörum og annars væri hægt. Hins vegar er það alveg rétt, að frjáls verzlun er eiginlega engin til núna, því að alls staðar þarf að fara í gegnum verðlagseftirlit, en það er alls ekki farið eftir beztu kjara kaupum, en það tel ég meginatriði í frjálsri verzlun, að lægsta framboð á sambærilegri vöru ætti að koma til neytenda. Þess vegna er það þjónustustarf á verzluninni gagnvart neytendunum að komast að sem beztum kjörum og hagkvæmustum fyrir þá, og mun ég gera það áfram eins og hingað til og veit, að aðrir munu gera það líka.

Ég ætla svo ekki að teygja umræðurnar meira, þó að margt mætti um þetta segja, en ég held, að þetta hjá hv. 2. þm. Reykv. sé nú reyndar ekki annað en málamyndaraðstoð við sálufélaga sinn, hv. þm. V-Húnv., en ég verð að segja það, að mig hryggir það mjög, að svo mætir menn sem þeir eru skuli vera jafnstagneraðir og raun ber vitni.