28.04.1949
Neðri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (3586)

34. mál, fjárhagsráð

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að byrja með því að mótmæla því vantrausti, sem hv. 3. þm. Reykv. lýsir á stétt sína og sína sálufélaga, því að hann virðist álíta, að með þessu skipulagi yrði heildsalastéttin þurrkuð út, ef hún ætti að leggja í baráttu um neytendur, og svo mundi þetta allt lenda á neytendunum, því að varan yrði þá dýrari en ella. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm., því að þetta yrði þvert á móti til þess, að innflytjendurnir kepptu um að bjóða sem bezt kjör, svo að varan yrði því ódýrari. Þetta mundi þar að auki vinna á móti dýrtíðinni í landinu. Ég verð að lýsa því yfir, að það er alveg ástæðulaust fyrir hv. þm. að vera að vantreysta svona stéttarbræðrum sínum, og ég mótmæli harðlega því vantrausti. Nú er ástandið svo komið, að báðir aðilar eru að „stagnerast“. Þeir þurfa ekki að keppa um markaðina, hvorki kaupmenn né kaupfélög. Með því að úthluta þeim þessum vörum, þá er verzlunin að „stagnerast“, því að það er engin keppni á milli þeirra. En ef hins vegar þetta fyrirkomulag verður tekið upp, þá eru þeir settir í harða keppni, og ég er viss um, að kaupfélögin standa sig vel í þeirri keppni og kaupmennirnir líka. En sem sé, það er þetta sem við þurfum að fá, og þess vegna er rétt að taka upp þetta fyrirkomulag.

Hv. 3. þm. Reykv. er hræddur um, að menn muni gleyma leyfunum heima og týna þeim.

Hefur hann þá orðið var við það t. d., að menn hafi gleymt skömmtunarseðlunum eða gert sér það að leik að týna þeim? — Þá sagði hann, að það yrðu vandræði með birgðir, ef þetta fyrirkomulag yrði tekið upp. Það hefur alltaf verið talað um það, en það er hægt að skapa þær fljótlega, en aðalatriðið er, að þetta fyrirkomulag komi sem fyrst.

Þá sagði hv. 3. þm. Reykv., að það yrði enginn vandi að úthluta birgðum til S. Í. S. og heildsala, það yrði bara að vera hliðstæð úthlutun, og það væri hægt að komast að samkomulagi um, hvor flytti hvað inn. Má ég þá spyrja hv. þm.: Hvers vegna í ósköpunum eru þessir aðilar þá ekki búnir að komast að samkomulagi fyrir löngu? Það hefur enginn getað komið á þessu samkomulagi. Ríkisstj. getur það ekki, stjórnarflokkarnir geta það ekki. En ef hv. 3. þm. Reykv. hefur lykilinn að þessu, því í ósköpunum leysir hann þá ekki þessi vandræði, sem eru alveg að eyðileggja allt stjórnarsamstarfið? Nei, eina leiðin til þess að leysa þessi vandræði er að láta fólkið gera það sjálft. Fólkið þarf að hafa frelsi til þess að geta gert þetta, það þarf að hafa leyfin til að flytja inn.

Svo kemur hv. þm. með þau rök, að þetta sé hvergi gert í öllum heiminum, en ef við getum tekið upp betra fyrirkomulag en annars staðar þekkist, því í ósköpunum skyldum við þá ekki gera það? Það voru hér einu sinni menn, sem byrjuðu að skrifa á íslenzka tungu, þegar allar aðrar menntaðar þjóðir skrifuðu á latínu. Núna erum við stoltir af því, að þeir skyldu gera það. Hvers vegna skyldum við þá ekki taka upp þetta fyrirkomulag, ef við sjáum að það er heppilegra? Svo sannarlega eru það ekki nein rök, að enginn annar geri það. Ég held líka, að það sé ekki rétt af hv. þm. að hafa svona mikið vantraust á sinni eigin stétt, og þess vegna vil ég endurtaka það, að röksemdir þeirra, sem á móti þessu máli mæla, mæla með því.