19.12.1948
Efri deild: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Aðeins stuttar athugasemdir. Þm. Barð. hélt því fram, að till. mín, sem fjallar um, að útvegurinn fái gjaldeyri til kaupa á nauðsynjum til útgerðarinnar, komi að engu haldi, því að útgerðarmenn hafi fengið gjaldeyri til þessara þarfa. Þetta er mikill misskilningur og fer víðs fjarri, að útvegsmenn hafi fengið gjaldeyri til, ráðstöfunar, sem nægði til kaupa á vörum fyrir reksturinn. Það er þess vegna ekkert vafamál, að fengju útvegsmenn t.d. 1/4 af gjaldeyristekjum sínum til ráðstöfunar, þá væri það þeim mikill styrkur.

Það er nú farið að lækka risið á hæstv. ríkisstj., og bar ræða fjmrh. þess ljósan vott. Þau hafa gleymzt, loforðin, sem gefin voru, þegar þessi stj. tók við völdum og þóttist ætla að lækka dýrtíðina og jafnvel vinna bug á verðbólgunni, því að fjmrh. viðurkenndi í sinni ræðu, að dýrtíðin hefði aukizt, en baðst aðeins undan, að núverandi stj. ætti ein sök á því. Þá má vera rétt hjá hæstv. ráðh., en hins vegar á núverandi stj. stóra sök á aukinni dýrtíð, og get ég nefnt dæmi um það. Árið 1945–46 lækkuðu niðurgreiðslur úr ríkissjóði til landbúnaðarins úr 22 millj. í 16 millj., en í tíð núverandi ríkisstj. eru þær komnar upp í 40 millj. Þá minntist ráðh. á, að fyrrverandi stj. hefði fyrst lagt fram frv. um fiskábyrgð. Það var nauðsyn þá og er nauðsyn enn, enda ekki nema rökrétt afleiðing af því, að ríkisstj. tekur gjaldeyrinn af útvegsmönnum og úthlutar honum til heildsala til að græða á. Hæstv. ráðh. gat þess, að þáverandi atvmrh. hefði ekki bent á neinar tekjuöflunarleiðir til þess að standast útgjöld vegna fiskábyrgðarinnar. Þess þurfti ekki, því að fyrrverandi atvmrh. hafði gildar ástæður til að ætla, að umrætt ábyrgðarverð fengist. En vegna stefnu núverandi stj. verður að leggja þungar álögur á allan almenning til þess að standa undir þessum lið. Þá sagði hæstv. ráðh., að það stæði ekki á sér að afhenda útgerðarmönnum gjaldeyrinn fyrir aflann, ef aðrir flokkar vildu styðja það mál. Nú vil ég segja hæstv. ráðh., ef hann talar í umboði síns flokks, að það stendur ekki á Sósfl. að styðja það mál, en ég er bara hræddur um, að heildsalalið Sjálfstfl. mundi aldrei fallast á það. Hins vegar hefur verið rætt um tvöfalt gengi, en það er bara engin lausn á þessu máli og sízt betri leið en sú, sem hér er farin. Hitt er víst, eins og bréf frá hraðfrystihúsaeigendum ber með sér, að lausn vandamálsins er fengin með því að láta útvegsmenn fá gróðann af gjaldeyrinum, og stuðningur Sósfl. stendur hæstv. fjmrh. til boða við framkvæmd á því máli.