17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (3608)

34. mál, fjárhagsráð

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Það er fyrirsjáanlegt, að ef þessu máli verður frestað nú, er það hið sama og að koma í veg fyrir, að tekin verði afstaða til þess á þessu þingi, þar sem svo stutt er eftir af starfstíma þingsins. Ég get ekki séð ástæðu til, að ekki sé tekin afstaða til málsins og hummað fram af sér að afgr. það, eins og gert hefur verið síðan í haust. Því er borið við, að beðið sé eftir, að fjhn. Nd. taki afstöðu til frv., sem komið er fram hálfu ári eftir að þetta frv., er borið fram. Ég býst við, að það frv. verði alls ekki afgr. Það er aðeins komið gegnum 1. umr., og það er ekki líklegt, að það fái afgreiðslu. Hins vegar er það svo um þetta mál, að þeir, sem ætla sér að taka afstöðu til þess, hafa þegar gert það, því að mál, sem er því náskylt, hefur verið hér fyrir Alþ. og rætt um það í þinginu, blöðunum og útvarpinu. Ég sé því ekki ástæðu til að fresta málinu, enda væri hægt að fresta hverju máli með því að setja það í samband við eitthvað annað mál og gefa ekki út nál. Málið liggur ljóst fyrir og hefur verið rætt meira en nokkurt annað mál, einnig í útvarpinu, og oft á Alþ. og mannfundum. Menn hafa því tekið afstöðu til þess. Af hálfu Framsfl. er líka gerð sú krafa, að málið verði afgr. og tekin afstaða til þess. Það er ekki ástæða til að bíða eftir því, að afstaða sé tekin til annars máls. Áður en ég sný mér að efni málsins er eðlilegt, að úr því verði skorið, hvort málið kemur til afgreiðslu eða ekki.