28.01.1949
Neðri deild: 54. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (3626)

44. mál, jeppabifreiðar

Sigurður Kristjánsson:

Út af ummælum þm. V-Ísf. vil ég taka það fram; að tilgangi mínum með þessu frv. er alls ekki náð fyrr en jeppabifreiðin er fengin. Þess vegna fer ég ekki dult með það, að ég mun ekki starfa í þessari nefnd, ef þetta mál verður ekki leyst. Enda þótt við höfum fengið hjálp frá lögreglunni og alltaf haft gott samstarf við þá stofnun, þá eru ekki alltaf möguleikar á því, að hún geti veitt okkur aðstoð, en þegar lögreglustjóri sendi okkur lögregluþjóna á bifhjólum, þá kom vel í ljós, hversu mikill munur er á að gæta þjóðgarðsins með góðum farartækjum.

Um þá afsökun viðskmrh., að ekkert hafi verið flutt inn af bifreiðum á árinu 1948, þá vil ég endurtaka það, sem ég hef áður upplýst, að á árinu voru fluttar til landsins 252 bifreiðar. Hvernig gjaldeyrisins hefur verið aflað, skal ég ekki segja um, því að þar er í gruggugra vatni að hræra en ég kæri mig um að vera með nefið ofan í.

Má ég spyrja hæstv. forseta: Verður borin hér upp till. um að vísa málinu frá? (Forseti: Það er venjulegt.) Ef svo er, vil ég óska eftir, að fari fram nafnakall um hana.