09.11.1948
Neðri deild: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (3640)

20. mál, skipulag kaupstaða og kauptúna

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það er vissulega ekki að ófyrirsynju, að hafizt hefur verið handa um að endurskoða og safna í eina heild þeim ákvæðum, sem í l. eru um skipulag kaupstaða og kauptúna, því að það er sannast mála, að okkar löggjöf á þessu sviði hefur verið ákaflega ófullkomin, enda framkvæmdin víðast hvar í hinu mesta ófremdarástandi. Að því leyti er mikil ástæða til að fagna þessu frv. En við fljótlega athugun á því virðist mér því miður, að ekki hafi tekizt þessi endurskoðun nærri því eins vel og skyldi. Vil ég leyfa mér á þessu stigi málsins að minnast á örfá atriði í þessu efni til athugunar fyrir þá hv. nefnd, sem væntanlega fær frv. til meðferðar.

Fyrst vil ég minna á það, að svo hefur verið ákveðið í l. til þessa, að þrír embættismenn ríkisins hafa verið í skipulagsnefnd fyrir alla bæi og öll kauptún á landinu. Og ég legg áherzlu á það, að þessi nefndarskipun hefur verið miðuð við ákveðin embætti, en ekki við þá menn, sem þau skipuðu, þannig að það er ekki trygging fyrir því, að með þessum hætti á skipun þessarar n. veldust í n. menn með hæfileika og áhuga, hvað skipulagsmál snertir. Auk þess vil ég benda á, að allir þessir embættismenn hafa haft og hafa geysilega þýðingarmiklum embættum að gegna, og mætti ætla, að á krafta þeirra væri fullhlaðið með því, að þeir ræktu þau embætti vel. Nú er það til mikilla framfara að, að vissu leyti er frá þessu horfið í þessu frv. Eftir frv. hefur þessi skipulagsn. ekki sama verksvið og valdsvið sem hún hafði. En enn er hún til eftir frv., að vísu sem ráðgefandi nefnd. Mér sýnist, að úr því að þarna var breytt um, hefði átt að stíga þetta spor út og hætta að miða þessa n. við ákveðin embætti. Ég sé enga tryggingu fyrir því, að í störfum vegamálastjóra, vitamálastjóra og húsameistara ríkisins séu menn á hverjum tíma, sem öðrum fremur séu til þess hæfir að vera í skipulagsn. sjálfir, þó að n. sé nú ekki nema ráðgefandi og hafi ekki sama vald og hún hafði áður. Og ég held, að sú hv. þingnefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, ætti að athuga, hvort ekki væri rétt að breyta hér um frá ákvæðum frv., þannig að þessi ráðgefandi n. væri ákveðin, þar sem betur verði fyrir því séð, að sérfræði og áhugi á þessu sviði fái notið sín. Þetta er ekki sagt til þess að kasta nokkurri rýrð á þá menn, sem nú eru í þessum embættum og eiga að skipa þessa n. eftir frv. En ég held, að almennt sé það talin óheppileg regla að miða þessa nefndarskipun við embætti, en réttara væri að finna einhverja leið til þess að tilnefna n. þessa á hverjum tíma þannig, að nokkur trygging sé fyrir því, að áhugamenn með sérþekkingu veljist í n.

Það er að vísu smátt ákvæði í frv. að benda á og kannske ekki þess virði að taka fram í þessum umr., að mér finnst næsta mikill óþarfi, sem tekið er fram í 10. gr. frv., að kort skuli vera eins og þar segir. Þetta eru svo almennar reglur, að ég álít, að það þurfi ekki að lögfesta þetta.

Þá eru það skipulagsn. bæja og kaupstaða. Hér er gert ráð fyrir, að í bæjum almennt verði skipuð þriggja manna skipulagsn., og skipi ráðh. einn, að fengnum till. skipulagsstjóra, annan kýs bæjarstjórn, en bæjarstjóri er sjálfkjörinn formaður n. Hvað Reykjavík snertir er þessu nokkuð öðruvísi hagað. Þar er gert ráð fyrir, að n. sé þannig skipuð, að borgarstjóri sé form. n., síðan séu í n. bæjarverkfræðingur, húsameistari bæjarins, form. skipulagsn. ríkisins, húsameistari ríkisins, skipulagsstjóri ríkisins og einn maður er bæjarstjórn kýs. — Ég vildi segja það sameiginlega um þessar n. kaupstaðanna og Reykjavíkurnefndina, að mér finnst það ákaflega hæpin ráðstöfun að ganga út frá því, að borgarstjóri í Reykjavík og bæjarstjórar annars staðar skuli vera fastir menn í þessum n. Ég held, a. m. k. hvað Reykjavík við kemur, að starf borgarstjórans sé svo víðtækt og umfangsmikið, að mjög sé hæpið að gera honum það að skyldu að vera einnig formaður í þessari mjög svo þýðingarmiklu n. Og ég vil benda á, að engin trygging er fyrir því, að borgarstjóri eða bæjarstjórar hafi neinn sérstakan áhuga fyrir þessum málum eða beri sérstaklega skyn á þessi mál, skipulagsmál bæjanna. Geta þeir að sjálfsögðu verið hinir mætustu menn og hæfustu til allra sinna starfa fyrir því. Ég hygg, að þetta sé óeðlilegt fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í þessu efni í frv.

Ég vil líka benda á að úr því að gert er ráð fyrir því, að bæjarstjórnir kjósi menn í þessar n., finnst mér ákaflega óeðlilegt, að þar sé aðeins um einn mann að ræða. Ég er hlynntur því, að skipulagsn. þessar séu þannig skipaðar, að sérfróðir menn hafi þar mikil völd. Hitt sýnist mér einnig sjálfsagt, að bæjarstjórnir eigi þarna veruleg ítök og að tryggt sé, að þau sjónarmið, sem uppi kunna að vera í bæjarstjórnum varðandi skipulagsmál bæjanna, eigi hvert um sig, eftir því sem við verður komið, einhvern fulltrúa í skipulagsn. En það verður að sjálfsögðu ekki gert með því, að bæjarstjórnir tilnefni hver um sig einn mann í n. á hverjum stað. Það mætti kannske segja, að erfitt væri að tiltaka, hve margir fulltrúarnir þyrftu að vera frá hverri bæjarstjórn í þessari n. á hverjum stað til þess að ná þessu marki, að öll sjónarmið fái að njóta sín í þessum efnum, sem uppi kunna að vera innan bæjarstjórnanna um skipulagsmálin. En nær sanni virðist mér, að þrír menn væru tilnefndir af bæjarstjórn Reykjavíkur t. d. heldur en einn maður. En ég vil ekki draga úr því, að sérfróðir menn skipi verulegan hluta þessara n.

Þá er annað veigamikið atriði, sem ég vil benda á í sambandi við Reykjavík alveg sérstaklega. Þar eru tvær n., sem fjalla um skipulagsmál og byggingamál, byggingan. annars vegar og skipulagsn. hins vegar. Nú fær það ekki dulizt neinum, sem eitthvað hefur kynnzt þessum málum, að störf þessara n. eru nátengd. Skipulagsn. ákveður gatnakerfi og opin svæði og annað því um líkt og í höfuðdráttum, hvers konar byggingar skuli vera á hverjum stað í bænum. En til þess að byggja upp fallegan bæ og vel skipulagðan þarf meira, til þess þarf að ákveða í höfuðdráttum, hvernig byggingarnar líta út á vissum byggingarreitum. Ef við tökum dæmi t. d. af Austurvelli og ef við ætlum að byggja fallega við Austurvöll, þá þarf að ákveða það í heild í höfuðdráttum, hvernig húsum skuli skipað við Austurvöll. Allar höfuðlínur þurfa að vera í þeim byggingum ákveðnar í heild fyrirfram, ef við ætlum að fá fallegan svip á þann byggingarreit. Og þá virðist þurfa náið samstarf milli byggingan. og skipulagsn. Ég gæti hugsað mér það samstarf með þeim hætti, að lögboðið væri, að n. þessar báðar gengju saman til funda sem heild til þess að ákveða um viss þýðingarmikil atriði í skipulags- og byggingarmálum. Það mætti, virðist mér, hafa það þannig í höfuðdráttum, að skipulagsn. ein ákveði gatnakerfið og tiltaki höfuðlinur í því sambandi, bygginganefnd ein að sinu leyti aftur annist dagleg störf byggingan., svo sem það, að byggingar séu leystar af hendi samkvæmt byggingarsamþykktum, hvað burðarþol t. d. og önnur atriði snertir, en báðar n.. taki sameiginlega ákvörðun um það, hvaða byggingar eigi að koma á hverjum stað og eftir hvaða línum eigi að byggja á vissum reitum — ef á að reisa fallegan bæ. Ég beini því til þeirrar n., sem mál þetta fær til meðferðar, að hún athugi, hvort ekki mundi vera rétt að lögbjóða með eitthvað öðrum hætti samstarf byggingan. og skipulagsn. en gert er ráð fyrir í frv., a. m. k. hvað Reykjavík snertir, og hvort ekki sé rétt og reyndar sjálfsagt að gera ítök bæjarstjórnanna meiri í skipulagsn. bæjanna og hvort nokkur ástæða sé til þess að lögbjóða það, að borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórar annars staðar eigi að hafa fast sæti í þessum n. Í síðari köflum frv. eru vissulega mörg atriði, sem miða til verulegra bóta frá því sem áður var. Ákvæðin um forkaupsrétt eru hér betri en í eldri l. Og um eignarnám og skaðabætur eru hér betri ákvæði. En hér er langt frá því, að gefnar séu nægilegar heimildir í l., til þess að auðvelt verði að framkvæma skipulag bæjanna. Það er mjög langt frá því, og ég er sannfærður um og byggi þá sannfæringu mína á nokkrum kunnugleika á þessum málum, hvað Reykjavík snertir, að skipulagningin á bæjunum sé framkvæmd svo að vel sé, og ég er sannfærður um, að hún verður aldrei framkvæmd svo að vel sé, fyrr en eignarrétturinn á öllu því landi, sem liggur innan lögsagnarumdæmis hvers kaupstaðar, er í höndum kaupstaðarins eða bæjarins sjálfs. Og það er það stóra atriði, sem ég vil biðja hv. n. að athuga mjög vel, hvort hún sér sér ekki fært að setja í staðinn fyrir þær gr., sem fjalla um þetta í frv., eitt allsherjar ákvæði um, að hverjum kaupstað og bæ skuli heimilt að kaupa upp allt land innan síns lögsagnarumdæmis með ákveðnum skilyrðum. Og það mun sannast, að erfiðleikarnir á að framkvæma skipulagningu bæjanna verða alltaf geysilega miklir, þangað til í þetta horf er komið. Þetta er ákaflega vel hægt að sjá, hvað Reykjavík snertir, þar sem svo vel stendur á, að utan Hringbrautar á bærinn nálega allt land í sinu lögsagnarumdæmi. Þar er auðvelt að framkvæma allt skipulag. Innan Hringbrautar á bærinn hins vegar nálega ekki neitt land, og þar má heita, að ókleift sé að framkvæma skipulagið.

VII. kafli frv. er um skipulagssjóði. Þar eru ákvæði, sem eru til verulegra bóta. En án þess að ég sé við því búinn á þessu stigi að ræða hvert einstakt atriði, vil ég varpa því fram, að ég hygg, að réttur kaupstaða til þess að mynda sinn skipulagssjóð og gera hann svo voldugan sem á þarf, að halda sé ekki nægilega tryggður í þessum kafla. Eins finnst mér vafasamt, að þetta eigi að vera í heimildarformi. Hér er aðeins um heimild að ræða til að mynda skipulagssjóð í kaupstað. Ég hygg, að kveða megi hér fastar að og gera þetta að skyldu.

Skal ég svo ekki orðlengja um þetta meir á þessu stigi. Mér þykir ánægjulegt, að þetta frv. er komið fram. En ég vil eindregið skora á þá hv. n., sem fær það til meðferðar, að verja mikilli vinnu í að endurskoða það og freista þannig að fá fullkomin og góð skipulagslög fyrir okkar bæi og kauptún.