09.11.1948
Neðri deild: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (3643)

20. mál, skipulag kaupstaða og kauptúna

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Aðeins nokkur orð út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, 6. þm. Reykv., og því, sem hann sagði um störf skipulagsn. Reykjavíkur að undanförnu og sérstaklega um tilnefningu manna í þá n. og áhrif af störfum þeirrar n. á hafnarsvæði Reykjavíkur. Ég get út af fyrir sig fallizt á, að það muni vera til margir menn, sem hafa fullt eins góðar og að sumu leyti betri ástæður til þess að gegna þessum störfum. En ég segi það af reynslu, af því að ég hef átt sæti í þessari n. um árabil, að þessir menn, sem þarna eru saman komnir í n., sitja inni með nokkuð mikinn reynsluforða á þessu sviði, sem ætti að vera nokkur trygging fyrir nýtum störfum hjá n.Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að sambandið á milli austurhluta og vesturhluta hafnarinnar í Reykjavík og milli hafnarinnar og bæjarins sannaði, að ekki hefði gætt á þann æskilegasta hátt áhrifa vitamálastjóra á skipulag Reykjavíkurhafnar og samband hennar við bæinn. Þetta er rétt. En það stafar af því, að bæjarstjórnin í Reykjavík óskaði, að skipulagsnefnd skipti sér ekkert af Reykjavíkurhöfn. Og þannig var Reykjavíkurhöfn tekin undan valdsviði skipulagsn., og hún hefur ekkert haft að segja yfir Reykjavíkurhöfn, svo að ef Reykjavíkurhöfn á að leiða hér sem vitni, þá sannar það kannske öfugt við það, sem hv. 6. þm. Reykv. vildi sanna, nefnilega að þarna hefði farið öðruvísi, ef skipulagsn. hefði fengið einhverju að ráða. En skipulag Reykjavíkurhafnar og samband hennar við bæinn hefur a. m. k. svo lengi sem ég þekki til, mikið á annan áratug, verið undanþegið nokkrum áhrifum frá skipulagsn., svo að það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um skipun þessarar n., sannar ekkert af því, sem hann vildi sanna um það, hvernig skipulagi og sambandi hafnarinnar við bæinn er háttað.

Ég skal annars ekki hafa mörg orð um þetta frv. Það hefur sína galla og þá ærið marga að mínu viti. En ég geri ráð fyrir, að það verði leitað umsagnar bæði skipulagsn. og annarra aðila um þessar breyt. á l., áður en n., sem fær málið til meðferðar, gengur frá frv. og gerir um það sitt álit. Og ég vildi mega vænta, þess, að leitað yrði upplýsinga um efni frv. frá öllum hliðum. Ég tel hins vegar eitt veigamesta atriði í þessu frv. það, sem ekki var fullt samkomulag um, að bæjum úti um allt land er gert heimilt að stofna til skipulagsnefnda og gera till. um sitt eigið skipulag, en þetta er dregið úr höndum skipulagsnefndar ríkisins, sem eingöngu er hér ætlað að vera dómnefnd. Ég tel þetta óheppilegt skipulag varðandi kaupstaði utan Reykjavíkur. Reykjavík ein hefur rétt til þess að ganga frá skipulagi síns bæjar í samráði við skipulagsn. ríkisins, og er það ekki nema gott. En allir aðrir bæir undantekningarlaust hafa engum kunnáttumönnum á að skipa í þessu efni. Ég teldi rétt, að skipulagsn. ríkisins undirbyggi skipulagið og að það sé það eina, sem hafandi sé til skipulagningar fyrir þessa bæi. Það má segja, að hver staður geti aflað sér aðstoðarmanns til þess að gera skipulagið eftir sínu höfði, en það veltur mikið á því, hversu tekst um val hans og starf. — Ég tel mjög vafasamt að draga skipulagningu bæjanna svo úr höndum skipulagsn. ríkisins eins og hér er gert ráð fyrir.

Út í einstök atriði frv. að öðru leyti skal ég ekki fara. Það er sitt hvað, sem ég fyrir mitt leyti hef í hyggju að koma á framfæri í sambandi við málið, og mun ég þá ræða það við hv. n., sem fær málið til athugunar. En ég vil, að sú hv. n. leiti umsagnar um málið frá sem flestum hliðum, til þess að öll sjónarmið viðkomandi þessari endurskoðun l. komi fram. Ég er sammála því, að það þurfi að endurskoða þessa löggjöf og að ákveðnir séu með l. þeir starfsmenn, sem hér koma til greina, en ekki eru nú starfandi samkv. l. á þessu sviði, heldur utan við þá löggjöf. En það, sem ég nefndi, er aðeins eitt atriði af því, sem ég tel, að athuga eigi mjög vandlega af þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar.