14.10.1948
Efri deild: 3. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (3654)

3. mál, menningarsjóður

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Í gildandi löggjöf um Menningarsjóð er svo ákveðið, að lágmarkstekjur sjóðsins séu 50 þús. kr., en annars renna til hans áfengissektir. Í l. stendur ekkert um það, að á þessa fjárhæð skuli greiða verðlagsuppbót, og því hefur það ekki verið gert, þannig að Menningarsjóður hefur aðeins fengið áfengissektir, en þær hafa verið nokkru meiri en 50 þús. kr. á ári.

Menntamálaráð skrifaði í fyrra menntmrn. og gerði grein fyrir því, að mjög erfitt væri að halda uppi starfsemi Menningarsjóðs með því fé, sem til hans fæst á þennan hátt, og stakk upp á, að sett yrði í l. ákvæði, er tryggði sjóðnum 75 þús. kr. lágmarkstekjur á ári auk verðlagsuppbótar. En í þessu frv. er gert ráð fyrir aðeins 60 þús. kr. á ári auk verðlagsuppbótar, er mundi nema um 180 þús. kr. lágmarkstekjum. Ég hef það því miður ekki hér, hvað sjóðurinn hefur fengið s.l. ár, en 1945 fékk hann 107 þús. kr., — það mun hafa verið nokkru meira, sem hann fékk s.l. ár. Það mun væntanlega þurfa að greiða af tekjum áfengisverzlunarinnar, ef þetta frv. verður að l.

Ég vil leyfa mér að benda á, að þegar 50 þús. kr. lágmarkstekjur voru ákveðnar á sínum tíma, var engin verðlagsuppbót til, og fjárhagslegt viðhorf í landinu var þá mjög ólíkt því, sem nú er, og þess vegna er það áreiðanlega ekki ríflegar tekið til, en þá var gert, þótt ákvæði þessa frv. verði samþ. af Alþ. nú.

Um starfsemi Menningarsjóðs leyfi ég mér að vísa til grg., sem fylgir frv.

Ég leyfi mér að stinga upp á, að frv. verði vísað til menntmn. að lokinni þessari 1. umr. og til 2. umr.