22.10.1948
Efri deild: 5. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (3671)

19. mál, útsvör

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Seint á síðasta Alþ. var lagt fyrir þessa hv. d. frv. til l. um útsvör, sem er svo að segja eins og það frv., sem nú liggur fyrir hv. d. í annað sinn. Við þá einu umr. málsins hér í hv. d., sem fram fór þá, gerði ég dálitla grein fyrir frv. eins og það lá fyrir. Mér virðist því óþarfi að fara að endurtaka þau ummæli mín hér í hv. d. eftir svo tiltölulega skamman tíma, og leyfi ég mér að vísa til þeirra.

Frv. er, eins og menn vita, samið af mþn., er á sínum tíma var skipuð af hæstv. þáverandi félmrh., og er frv. lagt fyrir d. óbreytt frá því, sem mþn. gekk frá því. Síðan frv. var hér í hv. d. í fyrra skiptið, hefur það verið lagt fyrir fulltrúaráð Sambands íslenzkra sveitafélaga til umsagnar, og er hér sem fylgiskjal með frv. ályktun, er fulltrúaráðið gerði út af frv., sem fyrir lá.

Á frv. sjálfu hefur ráðuneytið ekki séð ástæðu til að gera neinar breytingar nema mjög smávægilegar á 4. gr., b- og c-lið, eftir ábendingu utanrrn., enda þótt félmrn. telji, að mjög geti komið til athugunar talsverð breyting á frv. eins og það nú liggur fyrir, og taldi ráðuneytið rétt að leggja það fyrir hv. Alþ. óbreytt frá því, sem mþn. gekk frá því. Félmrn. er því reiðubúið til skrafs og ráðagerða við þá n. hv. d., sem fær þetta mál til meðferðar, og mundi þá ráðuneytið fyrir sitt leyti geta bent á nokkur atriði, sem það telur, að vel komi til greina sem breytingar á frv.

Ég tel, að á þessu stigi málsins sé ekki ástæða til að fjölyrða um það, en ég skal leyfa mér að geta þess, að í undirbúningi er nú frv., eitt eða tvö, sem nokkuð snerta þetta mál kannske eru það þrjú frv. En þau frv., sem félmrn. hefur í undirbúningi og til athugunar, er frv. um lögheimili og frv. um manntöl, og má vel vera, að þeim verði steypt saman að lokum og síðan lögð fyrir hv. Alþ. Ég tel, að það geti verið nauðsynlegt, að þegar afgr. verða ný útsvarslög, verði einnig gerð breyt. á l. bæði hvað snertir manntal og einnig hvað snertir ákvæði gildandi l. um lögheimili. Þar að auki er rétt að geta þess, að í undirbúningi er nú — og mun væntanlega koma fyrir Alþ. bráðlega — frv. til nýrra skattal. og gæti vel komið til álita, að frv. væri ekki afgr. öðruvísi, en með hliðsjón af þeirri nýju löggjöf um skatta til ríkisins.

Mér er kunnugt um, að mþn. sem hefur verið að undirbúa frv. um tekju- og eignarskatt, til ríkisins, hefur verið að athuga um það að steypa saman í eina heild þessum sköttum, sem renna til ríkisins og til sveitarfélaga, og þarf þá að athuga í sambandi við þetta frv. till., sem kynnu að koma fram út af frv. til l. um tekju- og eignaskatt að því er snertir innheimtu beggja þessara gjalda, sem renna til ríkisins annars vegar og til sveitarfélaganna hins vegar, ef unnt væri og rétt þætti að steypa innheimtunni saman í eina heild. Með hliðsjón af þessu, sem ég hef nefnt, vil ég leggja til, að þessu frv. verði vísað til fjhn., en í fyrra mun það frv., sem þá var um þetta efni, hafa farið til allshn. En samkvæmt fastri venju munu öll tekju- og skattafrv. fara til fjhn. Og þó að nokkur vafi geti verið á því, hvort slíkt frv. ætti að fara til allshn. eða fjhn., þá tel ég þó, þegar þetta er haft á bak við með tekju- og eignarskattsfrv., sem mun fara til hv. fjhn., rétt, að þetta frv. verði einnig látið fara þangað, og legg ég til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.