24.01.1949
Efri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (3696)

109. mál, manntal

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Þegar hér var til umræðu í d. á síðasta þingi frv. að nýjum útsvarslögum, þá gat ég þess, að í fjmrn. væri til athugunar að semja nýja löggjöf um manntal og einnig væri þar til athugunar, hvort rétt væri að semja ný lög um lögheimili. Félmrh. fól hæstaréttardómurunum Einari Arnórssyni og Gissuri Bergsteinssyni ásamt skrifstofustjóra ráðuneytisins að athuga þetta allt. Niðurstaðan varð sú, að ekki þótti rétt að setja ný lög um lögheimili, en rétt þótti og nauðsynlegt að setja ný lög um manntal, og árangurinn er þetta frv. Ég sé ekki ástæðu til að fara út í þau rök, sem liggja til þess, að ekki hefur verið borið fram nýtt frv. um lögheimili, en vísa um það til grg. frv., þar sem þessir ágætu lögfræðingar, sem ég nefndi, lýsa skoðunum sínum um það, að gagnslaust sé að setja ný lög um lögheimili, og er ég þeim sammála. Hins vegar hefur þetta frv. hér verið rækilega undirbúið og er nýmæli.

Eins og kunnugt er, hafa prestar annazt manntal og fært svokallað sálnaregistur allt fram á þennan dag utan Reykjavíkur, en um aldamótin var lögreglustjóra, og síðan borgarstjóra, falið þetta starf í Reykjavík. En manntölin eru ekki eins nákvæm og skyldi, þótt þau séu tekin árlega, og ekki nógu mikið samræmi í þessum hlutum. Úr þessu hefur að vísu verið nokkuð bætt með allsherjarmanntali tíunda hvert ár, en að því er stefnt með þessu frv. að semja og halda við allsherjarmannskrám, þar sem enginn maður í landinu er undanskilinn, og í þessum skrám séu upplýsingar um nafn, aldur, kynferði, heimilisfang, fæðingarstað dvalarstað, hjúskap, ríkisfang, trúarbrögð, stöðu, atvinnu og flutning eða bústaðaskipti. Eðlilegast er, að félmrn. hafi afrit af öllum þessum skrám í fórum sínum, svo að þær séu aðgengilegar á einum stað. Breytingar á framkvæmd manntalsins frá því, sem nú er, verða í stuttu máli þær, að félmrn. lætur gera eyðublöð undir manntalsskýrslurnar og sendir þau síðan oddvitum og bæjarstjórum og borgarstjóra, og síðan eiga þeir að taka manntalið samkvæmt ákvæðum frv., og senda oddvitar manntalsskrárnar til sýslumanns. Gert er ráð fyrir heimild handa félmrn. til að kveða á um það, að allar manntalsskrár skuli gerðar í tvíriti, og á afritið þá að liggja í ráðuneytinu. Með þessu móti er hægt að gera ráð fyrir, að manntalið verði allmiklu fullkomnara og nákvæmara en áður. Sérstaklega má benda á 12. gr. í því sambandi, sem fjallar um tilkynningar um breytingar á eða viðbót við manntalsskrárnar, svo sem tilkynningar um fæðingar, andlát, nafnaskipti, hjúskaparstofnun og slit, bústaðaskipti o. s. frv. Með þessu móti ætti að vera hægt að halda fullkomna skrá yfir alla Íslendinga með upplýsingum um stöðu þeirra og stétt, heimilisfang, aldur og lögheimili og ýmislegt fleira.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta, frv. skýrir sig sjálft. Ég vænti þess, að því verði vel tekið og það nái fram að ganga á þessu þingi. Ég legg svo til, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og væntanlega til allshn.