24.01.1949
Efri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (3701)

110. mál, ræktunarlönd og byggingarlóðir í kaupstöðum

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég get verið fáorður um frv. þetta, því að það var lagt fram í þessari hv. d. á síðasta Alþ. Skýrði ég það þá, og hygg ástæðulaust að endurtaka þau orð. Frv. komst þá aldrei úr n. þeirri, sem hafði það til meðferðar, en lá til umsagnar hjá lagadeild háskólans vegna þess atriðis, hversu langt mætti fara í þessum efnum varðandi ákvæði stjskr. um eignarrétt. Ég sé ástæðu til, að mál þetta sé athugað að nýju, leitað sé umsagnar lagadeildarinnar og þreifað fyrir sér um, hvort hún vilji eigi bera upp brtt. við frv. Hins vegar treystir ráðuneytið sér ekki til þess, því að ráðunautar þess ráða frá því.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um málið frekar, mælist til, að afgreiðslu þess verði hraðað, og legg til, að frv. verði vísað til allshn.