07.04.1949
Efri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (3707)

110. mál, ræktunarlönd og byggingarlóðir í kaupstöðum

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þó að ég hafi ekki framsögu fyrir allshn. í þessu máli, þá vildi ég vegna þess, sem beint hefur verið til okkar nm. almennt, gera grein fyrir afstöðu minni til till. á þskj. 487. — Það er vitað mál, að þetta frv. hefur verið lengi á döfinni, og það mál, sem frv. fjallar um, er gamalt vandamál. Það er þetta, að ræktunarlönd og byggingarlóðir í þorpum og kaupstöðum hækka skyndilega í verði meir, en ráðið verður við, og hefur þetta áhrif á atvinnulíf almennt. Þetta var viðurkennt af hv. þm. Barð., og nefndi hann Skagaströnd sem einna átakanlegast dæmi þessu til sönnunar, þar sem ríkið varð aftur að kaupa eignarréttindin á sínu eigin landi, — ég veit ekki fyrir hvað margfalt verð, líklega 10–20 falt. Það sést bezt, hvernig þessum málum er komið, þegar þess er minnzt, að meðalstórar byggingarlóðir í bænum eru komnar upp í 120 þús. kr., eða sama verð og greitt var fyrir ágætt hús fyrir stríðið. Ég er fús til þess að gera allt, sem í mínu valdi stendur, til að athuga, hvað komið getur í veg fyrir það, að l. nái tilgangi sínum, eins og hv. þm. Barð. minntist á. Ég held, að við getum orðið sammála um, að ráðstafanir verður að gera til þess að fyrirbyggja það böl, sem þessi verðhækkun er orðin fyrir bæjarfélögin. Það er rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, frv. mætti vera víðtækara. En hér er fyrst og fremst um ráðstafanir að ræða þar, sem þörfin er öllum augljósust. Ef til vill ætti það að vera þannig, þó að ýmsir vilji eiga lönd þau, er þeir hafa milli handa, að landið væri jafnsjálfsagt hverjum einum og loftið, sem maður andar að sér. En hér er ekki farið fram á neitt slíkt. Ég fullyrði, að þessi skattur er eðlilegur, þó að ég viðurkenni líka, að það geta verið tilfelli, þar sem eigandinn hefur sjálfur gert mannvirkin, sem valda verðhækkuninni. En í 99 tilfellum af 100 hefur hækkunin orðið vegna aðgerða hins opinbera, og þess vegna gildir um þetta allt annað en um aðrar eignir. Af þessum ástæðum hika ég ekki við að fylgja frv.

Þetta eru aðeins örfá orð, og mætti þó margt fleira um þetta segja. Ég geri ráð fyrir því, að hv. frsm. muni taka til athugunar sérstakar athugasemdir, er fram hafa komið, t. d. varðandi 8. gr., sem mér finnst eðlileg. Hv. þm. minntist í því sambandi á mál, sem ég skal ekki leiða inn í umr. — Í 25. gr. er lóðareiganda gert að skyldu að hefja byggingu á lóðinni innan árs frá því að lóðarleyfi er veitt. Eftir því sem ég veit bezt, hefur bæjarráðið í Reykjavík sett um þetta svipaðar reglur, sem fylgt er í Reykjavík. Ég þekki tvo eða þrjá menn, sem lóðirnar voru teknar af vegna þess, að þeir voru ekki nógu fljótir að hefja byggingar á þeim. Samkvæmt l. skal bygging hafin innan eins árs og henni vera lokið innan tveggja ára frá því, er hún hófst. Hlutaðeigandi getur því átt lóðina í heilt ár án þess að hefja byggingu, og virðist það ekki ósanngjarnt. — Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Ég tel, að hár söluskattur sé sanngjarn, þó að ég viðurkenni hins vegar, að vert sé að taka það til athugunar, ef verðhækkun hefur orðið fyrir tilstilli þeirra, sem eiga lóðina.