07.04.1949
Efri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (3708)

110. mál, ræktunarlönd og byggingarlóðir í kaupstöðum

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða margorður um þetta frv. og ekki ræða sérstök ákvæði þess. Um heildarafstöðu mína til frv. og breyt. n. er þetta að segja: Bæði í sambandi við umr. og frv. sjálft virðist mér margt í því vera álitamál og tel líklegt, að reynslan sýni, að breyta verði l. áður en langt líður. En ég hallast að frv. vegna þess að ég álít, að eðlilegri þróun vaxandi kaupstaða sé betur borgið, ef reynt er að tryggja þeim, sem þar búa, möguleika til landnota með aðstoð l., svo að verðlagið verði ekki tómt handahóf. En grundvöllurinn, sem á að byggja á samkvæmt brtt. frá n., er varúðarverður. Grundvöllurinn er fasteignamatið með hárri tölu til margföldunar og skattur þar á. Nú er þess að geta, að þetta fasteignamat vísar ekki til samræmdrar sanngirni á hvaða stað sem er. Skattamatið hefur sitt hvert gildi miðað við verðmæti, og er því ekki góð viðmiðun, þó að ég geti ekki bent á aðra betri. Ég segi, að þetta sé ótraustur grundvöllur, þó að ekki sé hann fordæmanlegur, enda væri þá ekki um annað að ræða en dómkvadda menn, er gætu nálgast sanngirni, en oft vill svo verða, eins og við vitum, að beztu menn getur hent mistök í þessum efnum. Viðleitni frv. virðist vera að reyna að reisa eðlilegar skorður gegn verðhækkun, og það veldur því, að ég treystist ekki til að vera á móti því. En ég vil ákveðið taka það fram, að ég hef verið því mótfallinn, að verðskattur yrði lagður á sveitajarðir, þar til um samræmdar aðgerðir væri að ræða. Gróðaskatt á ekki bara að leggja á sveitajarðir, heldur líka á húseignir í kaupstöðum. Hvers á annar að gjalda og hinn að njóta? Fjötur er settur um fót bóndanum, en húseigandi í kaupstað er fríherra um sína verzlun. Ég veit, að margur bóndi lítur á þetta á sama hátt og ég. Ef á að koma í veg fyrir leitt og skaðlegt brask, hygg ég því, að finna verði aðra í senn mýkri og fastari aðferð. Þó að ég fallist á að vera með frv., er það því ekki vegna þess, að ég telji það ekki hafa misfellur, heldur vegna þess, að ég tel, að sú viðleitni, er í því felst, stefni í rétta átt.