28.04.1949
Efri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (3718)

110. mál, ræktunarlönd og byggingarlóðir í kaupstöðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég er búinn að benda form. n. á, að óumflýjanlegt væri að gera fleiri breyt. á l. en hér er lagt til, að gerðar verði. Hann er nú ekki viðstaddur og mun vera á sýslufundi. En honum var ljóst eftirviðtal okkar, að þetta væri nauðsynlegt. Ég vil benda n. á 30. gr., sem hljóðar svo: „Þegar lög þessi hafa öðlazt gildi, skulu fasteignamatsnefndir hefjast handa um sundurliðun á fasteignamatinu frá 1940 í grunnverð og mannvirkjaverð, að því er snertir lönd og lóðir, er lög þessi taka til, og skal því verki lokið innan árs frá gildistöku laganna.“ Síðan frv. var samið, hafa allar fasteignamatsnefndir verið lagðar niður. En úttektarmenn hreppanna hafa komið í staðinn til að meta ný mannvirki, en til að annast þau störf, sem þeir vinna ekki, eru engir komnir í staðinn fyrir nefndirnar. Árið 1941 voru þær til, en hafa nú verið afnumdar um land allt. Ég bendi á þetta. Og engin breyt. hefur orðið á þessu. Fer ég því fram á, að málinu verði frestað.