14.10.1948
Neðri deild: 3. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

2. mál, síldarbræðsluskip

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti: Þetta frv. er flutt til staðfestingar á brbl. frá 16. júlí s.l. um að heimila innflutning á skipi til síldarbræðslu. Orsakirnar til þess, að brbl. þessi voru sett, eru þær, að um mánaðamótin júní–júlí s.l. bárust ráðuneytinu tilmæli frá stjórn Hærings h.f. þess efnis, að félaginu væri leyft að flytja inn skip, til síldarbræðslu, sem keypt var í Ameríku, enda þótt skipið væri eldra en lögin um skipaeftirlit gera ráð fyrir, að leyft sé að flytja inn. Málinu var því vísað til umsagnar skipaskoðunarstjóra, sem taldi sig ekki að athuguðu máli geta mælt með innflutningi skipsins, að lögunum óbreyttum. En með því að skip þetta verður ekki í förum, heldur keypt til að setja í það síldarverksmiðju, þá þótti ekki ástæða til að stöðva kaupin, heldur voru gefin út þessi brbl., sem veita undanþágu frá lögunum um skipaeftirlit, og var sú aðferð talin heppilegust til þess að skapa ekki fordæmi um innflutning gamalla skipa síðar meir. Ég tel, að eftir atvikum hafi þetta verið það eina, sem hægt var að gera, og óska því staðfestingar Alþingis á þessum brbl. Ég legg til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.