18.02.1949
Efri deild: 62. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (3735)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana er samið af n., sem skipuð var af fjmrh. þann 22. sept. 1947. Var það gert í samráði við ríkisstj. Þessi n. hefur haft það til athugunar að rannsaka kostnað við rekstur ríkisins og ríkisstofnana og gera till. til ríkisstj. um sparnað við þennan rekstur. Í n. þessa taldi ég rétt að skipa þá reyndustu og fremstu starfsmenn stjórnarráðsins, sem ég hafði ástæðu til að ætla, að mestan kunnugleika hefðu á rekstri ríkisins í ýmsum atriðum, en það voru skrifstofustjórar þessara þriggja ráðuneyta, fjmrn., atvmrn. og félmrn. Þar að auki var svo bætt við í n. ríkisbókaranum og aðalendurskoðanda ríkisins. Síðar varð það að samkomulagi í ríkisstj., að í þessa n. skyldi bætt við þremur alþm., bæði til þess að fá víðtækari sjónarmið tekin til greina og auk þess til þess að hafa þannig betri aðgang að því að fá þær till. viðurkenndar, sem fram kynnu að koma hjá Alþ.

Það má segja, að það hafi verið orðið mjög aðkallandi að gera einhverjar ráðstafanir í þessu efni. Það þarf ekki að rekja þá sögu og minnast á þær háværu raddir, sem alltaf öðru hvoru láta til sín heyra, og ekki að ófyrirsynju, um nauðsyn þess, að eftirlit sé meira með rekstri ríkisins og meiri sparnaður viðhafður. Þetta sjónarmið er líka sérstaklega viðurkennt af Alþ. með samþykkt þeirri, sem hér var gerð 3. marz 1945 og ég ætla, að fjvn. hafi átt frumkvæði að, um athugun á starfskerfi og rekstrarútgjöldum ríkisins. Var þar m. a. lögð áherzla á, að „komið verði á raunhæfu eftirliti með vinnubrögðum á skrifstofum ríkisins og stofnana þess, enda verði eftirliti þessu einnig beint að því að meta og gera till. um starfsmannaþörf í hverri skrifstofu, eða stofnun“. Þessi ályktun Alþ. lá því fyrir og hefur legið fyrir í stjórnarráðinu síðan á árinu 1945, og mér fannst viðeigandi, að litur yrði á því sýndur að byrja framkvæmdir í þessu efni með þeirri ráðstöfun, sem gerð var 22. sept. 1947, þ. e. a. s. skipun þeirrar n., sem ég áður hef greint frá og kölluð er sparnaðarnefnd. Frá þessari n. hafa komið ýmsar till., sem þegar hafa verið athugaðar og að sumu leyti verið komið í framkvæmd, sérstaklega varðandi afnám ýmissa nefnda. En hér liggur fyrir einn þáttur þessa starfs í frv. því, er n. hefur samið, um eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana. N. stóð einhuga að frv., að einum þm. undanskildum, hv. 1. landsk. þm. Það kann nú að vera svo, að ágreiningur geti orðið um það, á hvern hátt eigi að framkvæma það eftirlit á rekstri ríkis og ríkisstofnana, sem hér um ræðir. Hefur þetta verið rætt og athugað innan ríkisstj., og samþ. ríkisstj. í fyrra til bráðabirgða að leggja allar nýjar mannaráðningar í ráðuneytin eða ríkisstofnanirnar undir úrskurð fjmrh. Á þessu hefur síðan verið hafður sá háttur, að ríkisstofnanir hafa sótt það undir samþykki fjmrh., ef þær hafa álitið, að þær þyrftu að fjölga starfsmönnum. Í sumum tilfellum hefur verið á þetta fallizt, en sumum ekki, eins og gengur. En þetta er engan veginn nægileg ráðstöfun og ekki nema örlítið til þess að tryggja gott eftirlit. Oft á tíðum hefur fjmrh. ekki aðstöðu til að meta, hvort þörf er fyrir hendi um nýjar mannaráðningar, þó að hann kunni að vita starfsmannafjöldann. Það getur enginn nema sá, sem hefur aðstöðu til þess að setjast í stofnunina og sjá, hvernig störfum er þar hagað. Aftur á móti getur sérstakur starfsmaður, sem eingöngu helgar sig þessu eftirliti, framkvæmt slíkt þannig, að viðunandi sé. Þessi háttur hefur verið, tekinn upp í sumum nágrannalöndum okkar, og það í þeim löndum, sem þó eru langt frá því að vera eins langt inn á sviði opinberra afskipta eins og við. Við höfum hér í þessu landi opinberan rekstur á svo mörgum sviðum, bæði hvað snertir verzlun og iðnað, fyrir utan hinn eiginlega rekstur ríkisins, ríkisbúskaparreksturinn, að sé þörf á því, að sérstakt eftirlit sé haft með slíku t. d. hjá Norðmönnum, Dönum og Svíum, þá má segja, að þörfin sé miklu ríkari hér á landi. Þenslan í þeim efnum, ríkisafskiptunum á ýmsum sviðum, hefur, því miður vildi ég segja, orðið miklu örari hér á landi en annars staðar. Í athugasemdunum og fylgiskjalinu, sem fylgir frv., er glögglega að þessu vikið, sem ég hef hér minnzt á. Þar geta hv. þm. fengið staðfestingu á þeim upplýsingum, sem ég hef hér komið með, og fengið þar öllu fyllri upplýsingar en ég hef séð ástæðu til að flytja í þessari framsöguræðu.

Eins og þetta hefur verið að undanförnu og er enn þann dag í dag, þá er það ákaflega takmarkað, hvað fjmrn. eða fjmrh. getur fylgzt með athöfnum annarra rn., að ég ekki tali um hinna ýmsu ríkisstofnana. Til hans koma oft og einatt ekki neinar fregnir af ýmsu því, sem rn. og aðrir ráðh. taka sér fyrir hendur og hefur áhrif á fjármál ríkisins, og jafnvel ekki því, sem í ríkisstofnunum er gert og hefur svipuð áhrif, þó að óbein séu. Vitneskja um slíkt berst oft ekki til fjmrh. fyrr en eftir dúk og disk, ef ég mætti svo að orði komast, og fjmrn. eða fjmrh. er þannig settur upp við vegg, þegar búið er að framkvæma hluti án hans vitundar. Það getur verið um að ræða ákvörðun einhvers ráðh. eða verið talið, að af óviðráðanlegum orsökum hafi greiðslur farið langt fram úr þeim heimildum, sem Alþ. hefur samþ., en þegar svona stendur á, er fjmrh. oft settur í þá aðstöðu, að hann verður annaðhvort að gera forráðamenn stofnananna og ráðuneytanna alveg ómerka, stöðva greiðslur fyrir vinnu, sem unnin hefur verið, eða þá að hann verður að verða við þeim óskum, sem bornar eru fram. Mér skilst nú, að af ýmsum sé á þetta litið sem slæma fjármálastjórn, að hafa ekki hnefann á borðinu í hvert skipti, sem slíkt kemur fyrir. Það má marka það a. m. k. af skrifum sumra þeirra blaða, sem talin eru standa að einhverju leyti að núverandi ríkisstj., að allt slíkt sé slæmri stjórn fjmrh. að kenna. En sé það svo, að fjmrh. sé sekur um allt það, sem gert kann að hafa verið í rn. eða ríkisstofnununum, umfram það, sem í fjárl. er fyrir mælt, þá býst ég við, að eitthvert fordæmi hafi verið fyrir því hjá þeim, sem á undan mér hafa verið í forsvari fyrir fjármálum ríkisins. Hitt er svo annað mál, að slík útgjaldaaukning verður tilfinnanlegri og ég vil segja óviðráðanlegri á þeim tímum, sem nú standa yfir og hafa verið undanfarin ár, þegar áætlaðar tekjur ríkisins gera ekki betur í heild en að dragast að markinu, sem þingið hefur þeim sett, heldur en oft hefur verið, þegar tekjur ríkisins hafa farið langt fram úr því, sem Alþ. hefur búizt við. En það er eins með þessa notkun ríkisfjárins og margt annað, „að á skal að ósi stemma“, og ef unnt væri fyrir fjmrn. eða fjmrh. að fylgjast með, þegar ráðstafanir eru í undirbúningi hjá hvaða rn. sem er og hjá ríkisstofnununum, þá væri miklu auðveldara að koma í veg fyrir, að ráðizt væri í ýmislegt, sem nú hefur þjakað fjárhirzlu ríkisins, sem sé umframeyðsluna. En það er að því stefnt, að sérstakur embættismaður hafi þetta starf með höndum. Hans hlutverk skal vera, eins og tekið er fram í frv., að leiðbeina við rekstur þess opinbera og gera tillögur til úrbóta. Eins og hv. þm. sjá, er þetta yfirgripsmikið starf og kallar vissulega á alla starfskrafta þess manns, sem það hefur með höndum. Það vita allir, hversu mikið starfstilhögun hefur að segja fyrir afköstin, og ætti því góð leiðsaga í því efni að geta sparað mikið.

Mér er ljóst, að það getur verið ágreiningur um, hvort rétt sé að stofna sérstakt embætti í sambandi við þetta mál, og það er sjálfsagt ekki vinsælt, þegar öllum þykir embættafjöldinn allt of mikill. En það, að þessi leið var valin, er eftir till. þeirra manna, sem um þetta mál hafa fjallað, og ástæðan er hin ríka þörf, sem allir viðurkenna, að hafizt sé handa um eftirlit, lagfæringar og sparnað í rekstri hins opinbera, og náist sá árangur, sem vonir standa til með þessu eftirliti, þá er sá kostnaður, sem því er samfara, hverfandi.

Það er til þess ætlazt eftir frv., að forseti skipi mann í þetta embætti, og er það gert til þess að undirstrika, að hér sé um þann virðingarmann að ræða, sem hafi skipunarbréf frá forsetanum og stöðu í samræmi við það. Til aðstoðar þessum embættismanni eiga svo skrifstofustjórar rn. að vera, og á hann að geta kvatt þá til fundar, þegar hann telur þess þörf vegna eftirlitsins. Við höfum fordæmi um svipað fyrirkomulag frá nágrannalöndum vorum, t. d. Svíþjóð, en þar hefur þetta fyrirkomulag reynzt vel, og sömuleiðis hafa Norðmenn og Danir gert svipaðar ráðstafanir.

Ég held, að einstakar greinar frv. þurfi ekki sérstakra skýringa við. Í 5. gr. eru ákvæði um það, að ekki megi fjölga starfsfólki við ríkisstofnanir, nema samþykki ráðsmanns komi til, en verði ágreiningur, skuli ráðh. skera úr. Þá eru ákvæði í 6. gr. þess efnis, að ekki megi setja á fót nýjar ríkisstofnanir nema með lögum og skuli þá ráðsmaður ríkisins sjá um, að sparlega verði á haldið. Það hefur verið mikil þörf fyrir ákvæði í þessu efni, því að á undanförnum árum hefur borið á því, að einstakir ráðh. hafa komið á fót stofnunum, sem kostað hafa mikil fjárframlög úr ríkissjóði, án þess að sérstök lagaheimild væri til slíkrar stofnunar. Það er ekki gert ráð fyrir, að þessi lög komi til framkvæmda fyrr en 1. júlí, þó að samþ. verði, og er það vegna þess, að margs konar undirbúningur er nauðsynlegur, og þarf til hans vel að vanda.

Ég held, að ég hafi þá sagt það helzta varðandi þetta frv., og vil vænta þess, að Alþ. taki því vel vegna nauðsynjar á umbótum í því máli, sem það varðar. Að svo mæltu óska ég, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn., þegar þessari umr. lýkur.